Það er talsvert meira mál að setjast niður og telja í vestrinu en í austrinu, en úr því við vorum að asnast í að gera vörutalningu í Austurdeildinni fyrir helgi, verður ekki hjá því komist að gera það í betri deildinni líka. Annað væri asnalegt.
Það er líka ekki eins og kofinn sé tómur. Það er nóg af djúsí stöffi að gerast í Vesturdeildinni, sem í það heila er að spilast mjög ólíkt því sem við og flestir aðrir spámenn höfðu gert sér í hugarlund - og þá tökum við með í reikninginn að tímabilið sé ekki nema tíu leikja gamalt eða svo.
GOLDEN STATE WARRIORS
Með því að byrja svona vel, eru bæði Stephen Curry (33,4 stig að meðaltali í leik - 5 stigum meira en næsti maður) og Warriors náttúrulega að kalla yfir sig mykjustorm af athygli, skrumi og gífuryrðum frá fjölmiðlunum. Það kemur ekkert á óvart.
Við leyfum okkur oft að fljóta með straumnum þegar kemur að einhverju svona jákvæðu og skemmtilegu, en við - alveg eins og leikmenn Warriors - ætlum að hafa báða fætur á jörðinni og missa okkur ekki í eitthvað rugl, heldur reyna bara að njóta augnabliksins.
Þegar við segjum "missa okkur ekki í eitthvað rugl" erum við að meina hvernig sumir fjölmiðlar hafa eytt talsverðu bleki í að bera Golden State saman við sterkasta lið Chicago sem vann 72 leiki í deildakeppninni veturinn 1995-96 og setti með því met yfir flesta sigra í deildarkeppninni.
Því ætti Golden State núna ekki að geta unnið 72 leiki þegar það vann 67 leiki á síðustu leiktíð og allir sjá að það er bara sterkara í ár - spyrja menn.
Við erum svo sem ekki með beina tilvitnun í neinn af leikmönnum Warriors, en trúið okkur, þeir eru ekki að hugsa um að reyna að vinna 72 leiki. Þeir eru að hugsa um að reyna að vinna hvern einasta leik sem þeir taka þátt í - einn leik í einu - og reyna að halda heilsu fram á vorið og óska þess að þjálfarinn þeirra nái heilsu. Það er allt og sumt sem þeir hugsa og við lofum ykkur því.
En svona skrumlaust, er Golden State auðvitað að spila ljómandi vel. Við höfum áður tíundað hvað Stephen Curry er að spila vel og það sem hann hefur verið að gera undanfarið er efni í annan pistil, sem við munum vafalítið skrifa fljótlega. Og á meðan Klay Thompson er að spila langt undir getu, aðallega vegna bakmeiðsla, eru menn eins og Draymond Green gjörsamlega að fara hamförum.
Hann er kannski ekki að kveikja í með stigaskorinu sínu (12 stig í leik), en eins og við sögðum ykkur um daginn er hann efstur bæði í fráköstum (8) og stoðsendingum (7) hjá liðinu, stelur einum og hálfum og ver einn og hálfan bolta í leik, hótar þrennu á hverju kvöldi og dekkar gjarnan besta leikmann mótherjanna.
Green er alltaf að taka sér stærra og meira leiðtogahlutverk hjá Warriors og er satt best að segja enn að fara fram úr björtustu vonum allra hvað hæfileika snertir. Golden State er að borga honum atvinnuleysisbætur miðað við framlag, þó mörgum þætti hann fá full hressilega kauphækkun í sumar.
Annað sem við veitum athygli hjá Warriors er hvað Festus Ezeli er að spila vel. Hann deilir miðherjastöðunni með Andrew Bogut þegar sá ástralski er á annað borð heill og hefur farið fram á báðum endum vallarins - hann á ekki mjög langt í að verða jafn mikilvægur varnarmaður og Bogut á sinn hátt, af því hann er yngri og miklu meiri íþróttamaður.
Einhver ritstjórnin hefði kannski sleppt því að fara í enn eina upptalninguna á afreksverkum Warriors, en þetta lið á það bara skilið. Þessi undirliggjandi kjaftasaga um að liðið hafi haft heppnina með sér í úrslitakeppninni síðasta vor er nákvæmlega það veganesti sem það þurfti nú í haust.
Þið munið að sögulega samhengið og tölfræðin tala mjög fallega um Golden State og kannski væri upplagt að rifja upp það sem við sögðum ykkur á síðustu leiktíð, þegar tölfræðimódelin byrjuðu að segja okkur að eitthvað sögulegt gæti verið í uppsiglingu hjá Warriors: Reynum að njóta þess.
SAN ANTONIO SPURS
Um leið og við erum búin að afgreiða meistarana, fara hlutirnir að taka áhugaverða stefnu í þessari yfirreið um vestrið. Eins og við sáum þetta í haust, yrðu það Houston, Oklahoma og LA Clippers sem kæmu til með að berjast við meistarana um heimavallarréttinn í vestrinu. Það má vel vera að sú verði raunin þegar upp er staðið, en stöðutaflan í vestrinu í dag er bara bonkers!
Og sem stendur er það gamla góða San Antonio sem er eina liðið sem nær að narta í hælana á meisturunum í töflunni, með átta sigra og tvö töp. Þið munið, San Antonio sem við afskrifuðum enn og aftur um daginn.
Já, já, það eru bara búnir tíu leikir, en ef þér finnst svona leiðinlegt að lesa um þróun mála í NBA deildinni þegar hún er nýbyrjuð, en þú veist að þú getur líka alltaf hring inn á Útvarp Sögu eða smellt þér inn á athugasemdakerfið á dv.is og tjáð þig um vígasamtök íslamska ríkisins eða Schengen-samstarfið.
Eins og svo oft áður, mallar Spurs-vélin bara áfram sama hver er við stýrið. Við vorum öll svo upptekin af því að pæla í því hvort LaMarcus Aldridge ætti eftir að passa inn í liðið að við gleymdum að hann er ekki einu sinni besti leikmaður þess.
Nei, á meðan LaMarcus er að dúlla sér í 16 stigum (45% fg) og 10 fráköstum (sem er ljómandi), er besti leikmaður Spurs að skora 22 stig (52,6% fg) , hirða 7,5 fráköst og stela 1,9 boltum ásamt því að skelfa bestu sóknarmenn andstæðingana á hverju kvöldi. Við erum að sjálfssögðu að tala um Kawhi Leonard.
Þeir Aldridge og Leonard eru einu leikmennirnir í hópnum hjá San Antonio sem eru að spila 30 mínútur eða meira, sem er ekkert nýtt. Það sem er nýtt er að þeir eru einu mennirnir sem eru að spila meira en 27 mínútur í leik hjá Spurs. Allir taka þátt, allir spila vel (nema Danny Green) og allir vita hvað þeir eiga að gera. Sama gamla boring old San Antonio, eh?
Þeir fara nú ekki að gera okkur það að vinna eitthvað næsta vor....
DALLAS MAVERICKS
Þegar þetta er skrifað, er Dallas einhvern veginn í fjandanum í þriðja sæti Vesturdeildarinnar með 7 sigra og 4 töp.
Meltu það í smá stund.
Við vitum að við sögðum að Dallas ætti eftir að drulla á sig og jafnvel tanka í vetur (eigandinn hafði hótað því) en þegar lið eins og Dallas eiga í hlut, neitum við að taka ábyrgð á því þegar við gerum í brækurnar í Vegas-spám í upphafi leiktíðar.
Við sögðum að Dallas yrði lélegt af því það átti enginn að vera heill hjá Dallas fyrr en eftir áramót og þá yrði liðið löngu, löngu, löngu út úr myndinni í úrslitakeppni og öllu því.
En nei. Svo kemur á daginn að það er bara ekkert að þessum andskotum og þeir byrja allir að spila strax. Það sem við héldum að yrðu þrír mánuðir af Jeremy Evans, er bara strax orðið þetta lúmskt flotta-á-pappírunum-lið Dallas, sem maður eins og Rick Carlisle getur alveg fengið til að vinna nokkra leiki.
Og svo laug Dirk líka að okkur í sumar. Hann er ekki eins heiftarlega búinn og hann sýndi okkur í sumar. Menn sem eru búnir á því, skila ekki 31/11 leikjum og skjóta 11 af 14 utan af velli (þar af 4 af 5 í þristum), þar sem aðeins eitt skotanna kemur inni í teig. U-nei.
PHOENIX SUNS
Annað lið sem á ekkert að vera þarna - amk ekki í flippin fjórða sæti - er Phoenix Suns. Við bjuggumst ekki við miklu frá Suns í vetur og við höldum okkur við það þó liðið hafi byrjað 6-4.
Það eru skemmtilegir leikmenn inn á milli í þessu Phoenix liði og reyndar skemmtilegur þjálfari líka, en þetta félag veit ekkert hvað það er að gera og kemst ekki í náðina hjá okkur fyrr en það verður búið að gefa út manifestó. Phoenix er eins og vélarvana skip sem rekur í sterkum straumi og við ætlum ekki að vera nálægt því þegar það siglir á eða strandar.
L.A. CLIPPERS
Annað 6-4 lið er með öllu skýrara manifestó, en spurningin er bara hvort það er með mannsskapinn til að framkvæma það. Við sögðum ykkur að halda ekki niðri í ykkur andanum yfir öðru 80-leikja tímabili frá Chris Paul og fjarvera hans frá liðinu undanfarna daga hefur fengið meira á það en síðast þegar hann missti úr leiki, hvort sem það var út af meiðslum eða hroka.
Það er sama með Clippers og nokkur önnur lið þarna í vestrinu núna, þetta lið er ekki alveg að dansa. Það eina sem er að dansa hjá Clippers er reyndar Blake Griffin, sem er einfaldlega að færa leik sinn á hærra plan (27 stig, 9 fráköst, 4 stoðsendingar og 56% skotnýting).
Þá er hann ekki aðeins að bæta sig sem leikmaður, heldur höfum við tekið eftir því að hann er farinn að gegna miklu stærra hlutverki sem leiðtogi í Clippers-liðinu en áður.
Það veitir kannski ekki af að fá mjúka rödd inn á milli sandpappírs- og ég-er-að-kafna-í-eigin-ælu öskranna hjá Doc Rivers og dauðastörunnar frá Chris Paul.
Tókum eftir því í útileiknum sem Clippers-liðið stal í Sacramento um daginn að Griffin notaði heilt leikhlé undir lok leiks til að krjúpa fyrir framan og tala við alla leikmennina sem voru að koma við sögu í leiknum.
Hann spjallaði yfirvegaður og rólegur við þá og klappaði þeim svo á lærið og kollinn þegar hann lauk máli sínu. Þetta þykir okkur þroskamerki hjá leikmanni sem er einn allra besti körfuboltamaður í heiminum í dag.
Meiðsli Chris Paul og JJ Redick hafa verið Þrándur í götu Clippers undanfarna daga, en margir hafa meiri áhyggjur af því að kannski séu allir þessi flottu varamenn sem liðið fékk í sumar ekki eins æðislegir og talið var.
Lance Stephenson er að verða búinn að spila sig út úr hópnum hjá Doc Rivers og Paul Pierce hefur ekki beint verið að bjóða upp á goðsagnarkenndar tölur (33% í skotum, 26% í þristum) frekar en Josh Smith (35% og 28%).
Vissulega er engin ástæða til að fara í panikk fyrir hönd Clippers í nóvember, en þið munið að aukaleikararnir voru stóra vandamálið hjá Clippers á síðustu leiktíð og fyrstu leikirnir á þessari eru ekki beint að selja okkur nýju nöfnin í liðinu. Við skulum sjá hvernig staðan verður hjá þeim um jólin.
OKLAHOMA CITY THUNDER
Strákarnir okkar í Oklahoma eru að valda okkur alveg óskaplegum vonbrigðum þessa dagana og þá meinum við hvort sem Kevin Durant er að spila eða ekki. Við verðum að gefa Billy Donovan þjálfara góðan tíma til að reyna að setja stimpil sinn á þetta lið, en vitið þið hvað?
Þegar þjálfari tekur við nýju liði, á hann alltaf að byrja á því að leggja fram sínar áherslur í varnarleiknum og fá liðið til að spila betri vörn en það gerði áður. Það er bara partur af prógramminu, ykkur er óhætt að treysta okkur fyrir því - okkur sem höfum ekki þjálfað svo mikið sem minniboltalið á Nettómótinu.
Nei, svona í alvörunni. Þá hefur sóknarleikurinn aldrei verið vandamál Oklahoma City í deildarkeppninni, þið vitið það alveg. En einu sinni var Oklahoma líka frábært varnarlið og það var ekki síst sú staðreynd sem gerði það að verkum að það var ekki við þetta lið spilandi.
Öll þessi fjandans hæð og lengd, þessi hraði og íþróttamennska - þessi vilji! Það var ekki spilandi við þetta - og svo slátruðu Durant og Westbrook þér á hinum endanum og þurftu litla sem enga hjálp við það frá félögum sínum.
Russell Westbrook er að setja upp tölur þessa dagana sem nákvæmlega einn maður í sögu deildarinnar hefur leikið eftir með reglubundnum hætti og þó hann eigi það vissulega til að vera glannalegur í sókninni og gleyminn í vörninni, er það sannarlega ekki honum að kenna að Oklahoma er að spila virkilega óeftirminnilegan bolta þessa dagana (án Durant).
Það getur vel verið að séu bara búnir tíu leikir, en Donovan þarf að gjöra svo vel og setjast niður með þessum strákum og segja þeim að fara að spila vörn eins og menn, annars verður þetta lið ekki einu sinni með heimavöllinn í fyrstu umferð úrslitakeppninnar.
Vonandi fer Kevin Durant að snúa til baka úr þessu lærisveseni sínu, en vonandi verður það ekki til þess að Oklahomamenn plástri bara yfir gapandi sárið og haldi áfram að skjóta andstæðinga sína niður án þess að laga vörnina. Eins og er, er Oklahoma nefnilega ekki nálægt því að vera meistarakandídat. Óralangt frá því meira að segja.
MEMPHIS GRIZZLIES
Sumir segja að Memphis sé "búið" - að við höfum séð það besta frá Húnunum, frá Hakk og Hamagangur hópnum sem er búinn að skemmta okkur um árabil með sinni gamaldags spilamennsku. Meira að segja við sögðum eitthvað á þá leið hérna í vor.
En að það sé svo búið að það hrynji niður fyrir 50% og missi af úrslitakeppninni? Nei, það getur ekki verið - eða hvað?
Memphis er búið að sýna okkur mjög sérstakar hliðar á sér undanfarið, hliðar sem við höfum aldrei séð áður. Liðið er farið að taka upp á því að láta mótherjana valta yfir sig leik eftir leik.
Það má vel vera að þetta sé að verða dálítið þreytt hjá þeim þarna í Memphis (og Mario Chalmers er ekkert að fara að breyta því þrátt fyrir huggulega frumraun) en við sjáum bara ekki að þetta lið dali svo rosalega að það detti alveg út úr myndinni í vetur.
Varnarleikurinn hefur alltaf verið ær þessa liðs og kýr en hann er að dala virkilega um þessar mundir og það er sennilega fyrst og fremst þar sem menn hafa áhyggjur af framtíðinni hjá Z-Bo og félögum.
UTAH JAZZ
Utah er einhvern veginn í áttunda sæti vestursins þrátt fyrir að hafa varla komið heim til sín síðan í október. Þetta lið verður þokkalegt í vetur. Það verður sterkt varnarlega og á eftir að drulla þá út marga leikina (kannski eins og Memphis gerði einu sinni) en átakanlega takmarkaður mannskapur liðsins á hinum enda vallarins gerir það að verkum að það er ekki að fara að gera neitt.
Tvennt er þó ljóst. A) Utah er með eina klárustu skrifstofuna í NBA deildinni og B) þessi skrifstofa er með mjög hæft þjálfarateymi í hönunum sem er að gera mjög vel í að rækta góða körfuboltamenn í Salt Lake City.
Einnig: Rudy Gobert.
DENVER NUGGETS
Það kemur okkur fátt á óvart með aumingja Denver-liðið. Það kemur okkur nefnilega alls ekkert á óvart að liðið hafi unnið helminginn af fyrstu tíu leikjunum sínum. Það kemur okkur líka svo lítið á óvart að Wilson Chandler sé úr leik í vetur að við pissuðum pínu í buxurnar okkar.
Á Denver eftir að halda þessu róli næstu vikur? U, nei, enda hefur það ekkert við það að gera. Denver er að byggja upp á nýtt en kaus þó að halda í menn eins og Chandler og Gallinari til að hafa hópinn ekki alveg glórulausan, sem er áhugaverð ákvörðun.
Það er ekkert í spilunum fyrir Denver annað en að tapa leikjum og það mun það gera, þó Michael Malone þjálfari því það stundum erfitt. Við skulum bara segja að þetta verði allt auðveldara þegar Gallinari meiðist. Það er því miður ekki langt í það.
MINNESOTA TIMBERWOLVES
Þessi rafmagnaði fílíngur sem þið finni þegar þið sitjið við tölvuna á nóttinni er engin ímyndun, þetta er mælanleg spennan sem ríkir á Úlfavaktinni að smita út frá sér. Nú er skrumið orðið svo mikið á Úlfavaktinni að þeir geggjuðustu eru farnir að tala um úrslitakeppnir.
Það er á svona stundum sem þið eigið gott að geta leitað til NBA Ísland - þegar einhver eða eitthvað reynir að leiða ykkur út af sporinu og út í einhverja vitleysu. Alltaf skal Íslandið okkar leiða okkur í sannleikann.
Nei, Minnesota er ekki tilbúið að fara í úrslitakeppni, en tilkoma Karl-Anthony Towns (Borgþórs) í ár gerir það að verkum að lið sem var spennandi í fyrra er orðið gjörsamlega rjúkandi í ár. Borgþór kom ekki með neitt litlar væntingar á bakinu inn í deildina, en piltinum er bara að takast þokkalega að standa undir þeim.
Hann getur þakkað fyrir að vera með
Fráfall Flip Saunders var félaginu reiðarslag um daginn og það á eftir að hafa áhrif hjá félaginu í allan vetur, allt frá skrifstofunni niður á völlinn. Nú þarf að finna nýjan mann til að setja við stýrið í stað Saunders, bæði framkvæmdastjóra og þjálfara. Þarna þarf að vanda valið alveg einstaklega vel. Sérstaklega þegar kemur að framkvæmdastjóradjobbinu, því þetta nú er svo komið að Minnesota er í fyrsta skipti í sögu félagsins með spil á hendi til að gera eitthvað mjög sérstakt.
Liðið var gott fyrir tíu árum síðan, en það var tímabundið púsl, þetta er risavaxið. Úlfarnir gætu verið með Oklahoma-pakka í höndunum - svona Westbrook og Durant-pakka og eins og þið sjáið, er ekki sama hvernig farið er að hlutunum þegar svo er.
Leikmannablandan sem Úlfarnir hafa yfir að ráða um þessar mundir er rosalega sérstök. Þeir eru eiginlega með hesthús fullt af dráttarjálkum og veðhlaupahrossum. Undir venjulegum kringumstæðum er gott að eiga bæði, en þetta er dálítið undarleg blanda þarna í Minnesota.
Það er kannski allt í lagi um stundarsakir, en þegar Úlfarnir verða búnir að finna almennilegan framkvæmdastjóra í stað Saunders (líkurnar á því: 3,18%), verða þeir að finna einhvern mjög vandaðan þjálfara til að taka við þessum strákum (hvernig væri Scott Brooks þangað til annað kæmi í ljós?).
Annað sem vantar tilfinnanlega í Minnesota-liðið er leikstjórnandi. Það á að vera einhver gaur þarna sem heitir Rubio sem sagður er hafa pótensjal á því að búa til ógurlegt varnarþríeyki með Borgþóri og Wiggins, en það eru afar fá skráð tilfelli um að hann hafi sést á ferli í Minnesota.
Allt þetta meiðslavesen sem búið er að vera á Ricky Rubio undanfarin ár er búið að vera óþolandi fyrir okkur stuðningsmenn liðsins, en það góða við það er að það hefur ekki skipt nokkru einasta máli.
Það er ekki eins og þetta lið hefði gert eitthvað í þessari Vesturdeild hvort sem hann var með eða ekki.
Núna hinsvegar...
Við skulum leyfa Rubio að spila sína 40-50 leiki í vetur, en þar á eftir er nauðsynlegt (fyrir nýja framkvæmdastjórann) að taka erfiðar ákvarðanir og ein af þeim erfiðari verður að skipta Ricky Rubio í burtu frá félaginu.
Lið sem ætlar sér stóra hluti í framtíðinni getur bara ekki treyst á mann sem er alltaf meiddur, en öll þessi meiðsli og sú staðreynd að maðurinn getur ekki skotið til að bjarga lífi sínu, þýða að hann fúnkerar bara ekki í þessu liði.
Rubio er frábær varnarmaður og frábær leikstjórnandi og meira krútt en tíu sofandi hvolpar, en Minnesota verður að kötta hann ef það ætlar á næsta level (og næsta level eftir það).
Stóru liðin í vestrinu vinna Minnesota auðveldlega í vetur, en stjörnurnar eiga allar eftir að hugsa með sér: "djöfull verður ekki gaman að mæta þessum gaurum eftir 2-3 ár!" í sturtunni eftir leik.
Framtíðin er sannarlega Úlfanna. Hún hefur verið það áður og það varð minna en ekkert úr því. Skálum fyrir því að þetta fari eitthvað betur.
HOUSTON ROCKETS
Talandi um hluti sem þurfa að fara betur, þá hefur Houston einhvern veginn afrekað að byrja leiktíðina 4-7 og líta svo illa út að það skyggir næstum á vanhæfni New Orleans og Oklahoma.
Meiðsli hafa sett strik í reikninginn hjá Houston í haust alveg eins og alla síðustu leiktíð, en öfugt við hvað liðið stóð sig vel í þeim aðstæðum í fyrra, gerir það ekki annað en drulla núna.
Flest liðin í deildinni myndu sjálfssagt finna fyrir því ef þau væru án besta varnarmanns síns annan hvern leik og án kraftframherja hvern einasta. Þetta er gild afsökun fyrir hluta af baslinu á Houston, en alls ekki öllu.
Liðið er búið að líta svo skelfilega út leik eftir leik (hvort sem Howard er með eða ekki) að menn eru farnir að pískra um að Kevin McHale sé búinn að missa eyru leikmanna og verði jafnvel látinn fara á næstu dögum.
Það hefur aldrei verið neitt leyndarmál að þetta Houston-lið er ekki beint að svigna af karakter og þessi byrjun er eitthvað sem ætti ekki að sjást frá liði sem fór í úrslitaeinvígi Vesturdeildar í vor - hvort sem það átti það skilið eða ekki.
Við vorum nokkur af þessum fíflum sem héldum að Houston væri orðið fullhlaðið af gæðamannskap sem gæti ekki aðeins brugðist við meiðslum, heldur gert liðið að áskoranda í úrslitakeppninni. Eins og staðan er núna er Houston lið sem yrði sópað út úr fyrstu umferð ef það kæmist yfir höfuð í úrslitakeppnina (og það kæmist ekki í úrslitakeppnina, enda í flippin´ ellefta sæti í vestrinu.
Þeir þurfa að fara að pappíra sig þarna í Houston. Þetta er að verða asnalegt.
SACRAMENTO KINGS
Vanhæfni og klúður eru svo sem afstæð hugtök eins og svo mörg önnur og ef forráðamenn Houston þarfnast hughreystingar, þurfa þeir ekki að gera annað en horfa upp til Sacramento og hugsa með sér: "Við erum að minnsta kosti ekki þeir!"
Sem betur fer eru mjög fá íþróttafélög í heiminum Sacrcamento Kings og raunar er það þannig að það er ekki neima eitt Sacramento Kings. Þetta eru óhemju góð tíðindi fyrir félögin í NBA deildinni, sem mega illa við öðru Sacramento Kings. Munið þið hvernig við töluðum stundum um það á síðustu leiktíð að Atlanta væri að Atlanta svo mikið að það væri hársbreidd frá því að Atlanta yfir sig?
Jæja, þannig er staðan hjá Kings núna. Sacramento er við það að Sacramento-a yfir sig. Og það er ekkert gott, góðir hálsar.
San Antonio á það til að San Antonio-a yfir sig og það bitnar í 99% tilvika á restinni af deildinni. Þegar Sacramento byrjar hinsvegar að Sacramento-a, er voðinn vís.
Munið þið hérna fyrir ofan hvað við vorum að hamra fast á þeirri skoðun okkar að Minnesota ætti að fljúga tíu hringi í kring um jörðina og vera tilbúið að eyða milljónum dollara í að finna rétta framkvæmdastjórann? Það er af því það skiptir svo rosalega miklu máli að strúktúrinn hjá félögum í NBA deildinni sé heill.
Gallinn við þetta Sacramento-dæmi er bara að eigandinn sjálfur hefur ekki hugmynd um hvað hann er að gera. Vivek Ranadivé vill eflaust rosalega vel og er með fullt af rosalega sniðugum hugmyndum (nú, eða bara ekki) um hvað hægt er að gera fyrir klúbbinn, en hann er ekki búinn að átta sig á því sem NBA-eigendur fatta oftast eftir 2-3 ár eða lengri tíma: Því minna sem hann skiptir sér af félaginu og því meira sem hann leyfir mönnunum sem hann ræður til að reka það að... reka það - því farsælli verður hann.
Við gætum eflaust bullað einhverja steypu um Ranadivé í alla nótt, en því miður fyrir stuðningsmenn Kings virðist hann ekki vera búinn að fatta þetta. Ef hann fattar einhvern daginn að ráða fólk sem veit hvað það er að gera í skrifstofudjobbin, er fyrst kominn grundvöllur til að gera eitthvað af viti.
En eins og þið vitið, er Sacramento á fullu í að hræra öllum innviðum fyrirtækisins og eins og venjulega, er það DeMarcus Cousins sem reynist öryggisventillinn á bullið í kompaníinu þegar hann lætur henda sér út af eða snappar á einhvern.
Við erum örugglega búin að skrifa það áður en endurtökum það þá hér. DeMarcus Cousins þarf alveg nauðsynlega að drulla sér frá Sacramento hið snarasta og það sem meira er, þarf Sacramento alveg bráðnauðsynlega að losna við Cousins.
En Cousins verður ekki skipt frá Sacramento fyrr en hann tekur einhvern í gíslingu í Svefnhöllinni eftir einn leikinn.
Cousins er búinn að vera ofverndaður og ofdekraður ofvaxinn krakki allan sinn körfuboltaferil og hvergi nokkurs staðar hefur verið kóað eins hrottalega með helvítis vælinu og stælunum í honum eins og í Sacramento. Hann vill ráða hvaða þjálfari tekur við liðinu, því það þarf að vera þjálfari sem lúffar fyrir honum og leyfir honum að gera það sem hann vill.
Cousins er náttúruhamfarir af körfuboltamanni, en hann mun aldrei svo mikið sem komast í úrslitakeppni, hvað þá vinna eitthvað, nema hann skipti algjörlega um hugarfar. Það sem Cousins þarf er að komast til félags þar sem eigandinn, framkvæmdastjórinn og þjálfarinn segja honum að grjóthalda kjafti, sekta hann og segja honum að drulla sér heim til sín ef hann er eitthvað að rífa kjaft.
Okkur dettur í hug San Antonio.
Það breytist ekkert í Sacramento fyrr en gerðar verða róttækar breytingar og þessar breytingar fela í sér að slíta tengslin við Cousins. Þangað til hann fer, eða skipt verður algjörlega um fólk, verður Sacramento bara nákvæmlega það sem það er núna: Geðveikrahæli, þar sem vistmennirnir stjórna ferðinni.
PORTLAND
Portland hótaði því að koma okkur öllum á óvart enn eitt haustið og byrjaði 4-2. Það gat ekki verið, var það? Nei, það gat ekki verið, fjandakornið.
Damian Lillard og félagar eru nú búnir að tapa sex leikjum í röð og þó þeir verði kannski ekki eins hrottalega lélegir og einhverjir spáðu, er ólíklegt að þeir verði annað en gólfmotta fyrir sterkari liðin í vestrinu í vetur.
L.A. LAKERS
Planið hjá Los Angeles Lakers síðustu misseri hefur verið að sýna stjörnuleikmönnum framtíðarinnar að ekkert félag í NBA deildinni hugsi eins vel um leikmennina sína og Lakers.
Það er erfitt að mótmæla þessu þegar haft er í huga að Kobe Bryant er búinn að vera einn hæstlaunaðasti leikmaður deildarinnar síðustu ár þó hann sé útbrunninn sem leikmaður (þegar hann getur á annað borð spilað vegna meiðsla).
Það verður ekki af Lakers tekið - það passaði sannarlega upp á sinn mann. Kobe got PAID eins og við segjum.
Það var gefið að liðið gæti ekki verið samkeppnishæft á þessum síðustu árum hans Kobe Bryant og það var löngu hætt að vera samkeppnishæft þó það væri með hverja stórstjörnuna á fætur annari í liðinu.
Tilraunir félagsins til að hlaða í meistaralið í kring um Kobe með mönnum eins og Dwight Howard og Steve Nash mistókust algjörlega m.a. vegna meiðsla og þá var ekki annað að gera en breyta um plan.
Nýja planið gekk út á að borga Kobe Bryant fjárlög Búlgaríu í vikulaun og leyfa honum að skjóta eins og brjálæðingur til að reyna að ná metum og "go out with a bang" - tapa fullt af leikjum og krækja í nokkra nýliða, byggja upp eins og venjulegu liðin í NBA þurfa að gera það. Lykilatriðið í þessu plani var svo að ráða þjálfara sem gæti haldið þessu plani gangandi og það er sannarlega Byron Scott.
Scott tryggir að nýliðarnir hafa ekki hugmynd um hvað þeir eiga að gera og hvenær þeir eiga að gera það og af hverju - og hann gætir þess að drulla reglulega yfir þá og segja þeim að þeir geti ekki rassgat. Það eina sem skiptir máli er að tapa leikjum og leyfa Kobe að skjóta þristum og skotum af miðfærinu með tvo menn í andlitinu. Þetta er fullkomið plan. Fullkomlega exekjútað.
NEW ORLEANS PELICANS
Þá er ekki annað eftir en að kíkja inn á lagerinn hjá New Orleans Pelicans, sem líklega er það lið sem hefur komið mest á óvart í haust og ekki beint á jákvæðan hátt. Liðið sem átti að verða Spútniklið Vesturdeildarinnar í vetur er búið að vinna einn leik í tíu tilraunum.
Flest það sem hefur farið úrskeiðis hjá Dílaskörfunum frá New Orleans hefur farið úrskeiðis á fyrstu vikum tímabilsins. Það væri ósanngjarnt að fara að hrauna yfir Brúnar og félaga út af öllum meiðslunum (þjálfarateymið, sjúkraþjálfarar, læknar, fatnaðarumsjónarmenn og skrifstofufólk er allt í langvarandi meiðslum líka) sem dunið hafa á þeim.
Líklega hefur ekkert lið í deildinni orðið fyrir öðrum eins meiðslum og New Orleans í upphafi móts, en þó enn vanti nokkra leikmenn, er ekki hægt að segja að liðið hafi beinlínis verið að tefla fram D-deildarleikmönnum í annari hverri stöðu. Og okkur er alveg sama hvað eru mikil meiðsli hjá þér, þú vinnur New York fokkíng Knicks.
Nei, ekki New Orleans. Brúnar ræfillinn reyndi að gera sitt með 36/11 og fjórum vörðum, en allt kom fyrir ekki. Eini sigur New Orleans á leiktíðinni kom á móti liðinu sem líklega er búið að vera í öðru sæti yfir mest meiðsli (Dallas) í vetur.
New Orleans var eitt hæpaðasta liðið í NBA í haust og klárlega hæpaðasta liðið í Vesturdeildinni. Okkur fannst allt þetta skrum í kring um liðið vera allt of mikið en þorðum ekki að mæla hátt gegn því af ótta við að Alvin Gentry og þjálfarateymi hans ætti eftir að rífa liðið upp og koma því á 50 sigra braut.
Annað hefur komið á daginn, því þó stutt sé liðið á leiktíðina, er þetta hörmungargengi undanfarið búið að tryggja að liðið á engan möguleika á 50 sigrum og það sem meira er, minnkandi möguleika á sæti úrslitakeppninni.
Það yrði svo sem enginn heimsendir ef New Orleans kæmist ekki í úrslitakeppnina og það yrði fínt fyrir klúbbinn að fá kannski þokkalegan nýliða í valinu næsta sumar.
Málið er hinsvegar að forráðamenn félagsins eru ekki í neinum draft-hugleiðingum. Þeir eru að borga fullt af mönnum fullt af peningum og ætlast til að þeir borgi sér til baka með því að vinna leiki í úrslitakeppninni.
Við ætlum að fara út á sylluna og lofa ykkur að New Orleans eigi aldrei eftir að gera neitt með þessum mannskap.
Anthony Davis heldur áfram að verða betri og betri, en hann er tæplega nógu góður til að vinna einvígi í úrslitakeppninni upp á sitt eindæmi. Amk ekki tvö.
Það er rosalega þægilegt að sitja heima í sófa og segja að það séu tvær ástæður fyrir því að þetta New Orleans-lið vinni aldrei neitt. Sú fyrri er að þessi lykilmannsskapur liðsins getur með engu mannlegu móti haldið sér heilum og það eru alltaf 2-3 þeirra meiddir í einu - sumir þeirra svo krónískt að þeir verða líklega aldrei samir aftur (Holiday, Gordon).
Hin ástæðan er að þetta lið er einfaldlega sett vitlaust saman. Það eru skörð í sóknarleiknum og skörð í varnarleiknum og veikleikar annars sterkra leikmanna liðsins of miklir til að það nái árangri. En tækist Gentry á einhvern óskiljanlegan hátt að búa til sterkt lið úr þessari drulluköku, myndu meiðslin sjá til þess að ekkert yrði úr neinu. Þetta er súrt en satt.
Þetta voru nákvæmlega 5000 orð um stöðu mála í Vesturdeildinni. Það var ekkert.