Sunday, November 29, 2015

NBA vertíðin fer ekki eftir handritinu í haust


... og Golden State vinnur allt, alltaf. Þannig er helst að lýsa meisturum Warriors þessa dagana. Fólk er að verða hætt að nenna að tala um þá, þeir eru svo góðir. Það eina sem þeir gera er að slá met og vinna körfuboltaleiki, en ef maður er atvinnumaður eða kona í körfubolta á annað borð, er svo sem ekki galið að verja tíma sínum í þetta tvennt.

Nú síðast settu Stríðsmennirnir ungu nýtt NBA met með því að salla fimmtán þristum (úr fokkíngs 20 tilraunum) og 75 stigum í andlitið á aumingja Phoenix í fyrri hálfleik viðureignar liðanna í nótt. Slökuðu svo á í seinni og luku leik með "aðeins" 22 þrista, sem er félagsmet á þeim bænum og aðeins einum þristi frá NBA metinu í eigu Orlando (2009) og Houston (2013).


Þetta met yfir flesta þrista liðs í leik er líklega eitt ótryggasta metið í NBA í dag, því Warriors-liðið er búið að vera í svo miklu stuði að við höfum á tilfinningunni að það sé dagaspursmál hvenær það slær þetta met.

Hvað ætti til dæmis að aftra Steph Curry frá því að salla 15 þristum á Sacramento í nótt? Vinur hans Klay Thompson skoraði 37 stig í einum leikhluta á Kings í fyrra - því ætti Steph ekki að geta sett tíu þrista í einum leikhluta á móti liði sem hefur ekki hugmynd um hvað það er að gera? Ætti að vera kinderspiel.



Skotin sem Stephen Curry er að setja niður eru sum hver bara móðgandi. Sjáðu til dæmis bull-skotið sem hann setti í grillið á vesalingnum honum Ronny Price hérna fyrir ofan. Þetta er nákvæmlega ekkert kirkjurækið við þetta hjá þér, Steph. Þetta er dónaskapur.

Hvurn fjandann eigum við svo sem að segja um þetta Warriors-lið sem hefur ekki þegar verið sagt? Við gætum sýnt ykkur skotkortið hans Steph Curry eins og það lítur út í dag, en þið mynduð örugglega halda að við hefðum fótósjoppað það af því það er svo mikið endemis rugl. Nema þér finnist svona hittni kannski bara eðlileg (rautt þýðir hittni undir meðaltali í deild frá viðkomandi svæði á vellinum, gult þýðir c.a. meðaltal í deildinni en grænt þýðir yfir meðaltali - við erum búin að fara oft yfir þetta. Tölfræðin sýnir okkur sumsé að Curry sé að "yfir meðaltal-a yfir sig" í nóvember.
























Þá gætum við prófað að bjóða upp á stutta draugsýn frá leik Warriors og Suns í nótt, svona til að brjóta þetta aðeins upp meðan við pælum í því hverju þetta lið tekur upp á næst.



Eins og þið vitið erum við alltaf að taka stöðuna í NBA deildinni fyrir ykkur og því er óhjákvæmilegt að við séum stundum að tyggja það sama aftur og aftur. Golden State er t.d. að verða tugga af því það vinnur alltaf.

Í ljósi þess hve stutt er síðan við tókum síðustu vörutalningu (og hvað við erum húðlöt) ætlum við frekar að skrifa hérna niður nokkra hluti sem vakið hafa athygli okkar í NBA deildinni undanfarna daga. Það er nefnilega fjandi margt og sumpart áhugavert.

Það merkilegasta við fyrsta mánuðinn á leiktíðinni er að sjálfssögðu sú staðreynd að Golden State sé búið að gleyma því hvernig á að tapa (þegar þetta er ritað eru nákvæmlega tíu mánuðir síðan liðið tapaði síðast heimaleik í deildarkeppninni, sem er eðlilegt).


Án þess að vera með neikvæðni og leiðindi, skulum við ekki gleyma því hvað NBA deildin er grimm og vægðarlaus. Lögmál Murphys er alltaf í gildi og hversu oft höfum við ekki séð lið sem eru á löngum sigurgöngum detta á andlitið ofan í drullupoll þegar þeim skrikar aðeins fótur?

Það er nefnilega svo skondið að Golden State, sem tapaði aðeins 15 leikjum á síðustu leiktíð, tapaði fjórum sinnum tveimur leikjum í röð.

Og þessi fjögur "tvítöp" komu eðli málsins samkvæmt eftir góðar sigurgöngur, sem er dálítið sérstakt. Sum þeirra höfðu beint með leikjaröðina að gera (t.d. tveir erfiðir útileikir í restina af löngu keppnisferðalagi), en önnur ekki.

Og hvað erum við að fara með þessu? Jú, ef Warriors myndi hiksta aðeins og endurtaka leikinn í næstu viku - tapa tveimur í röð - myndi muna nákvæmlega einum leik á þeim og San Antonio.

Einum fjandans leik.

Það er svona viðbjóðslega stutt á milli í þessu og leikmenn Warriors vita það 100% þó sumir þeirra hafi ekki mikla reynslu.

Eitt af því fyrsta sem þú kemst að þegar þú byrjar að spila í NBA, er nefnilega að loksins þegar hlutirnir byrja að meika sens og allt fer að verða gaman, áttu leik við San Antonio og þá fer allt umsvifalaust til helvítis í handtösku. San Antonio neyðir þig til að spila sinn leik og tekur þig í leiðinni gjörsamlega út úr þínum leik.

Svo rankar þú við þér timbraður og skjálfandi á Kaffi Strætó í Mjóddinni á mánudegi og um leið og þú heyrir Gissur Sigurðsson segja frá því á Bylgjunni að þú sért eftirlýstur af lögreglunni fyrir dýraníð - fattarðu að þú sért búinn að míga á þig.

Annað sem er fjandi merkilegt - og út af fyrir sig kannski merkilegra en sigurklám Warriors - er hvað deildin er að spilast asnalega. Hve furðulega mörg lið eru að haga sér allt, allt öðruvísi en við (og fleiri) ætluðum þeim.

Hér er bæði um að ræða lið sem eru að fara fram úr væntingum og önnur sem eru bara að drulla á sig upp á gamla mátann. Svona, "ah, best að hella sér upp á gulan Braga, stilla á hádegisfréttir og drulla aðeins á sig," dæmi.

Það stórmerkilega við liðin sem hafa staðið sig betur en við reiknuðum með, er að þau eru flest í Austurdeildinni.

Eins og þið vitið, er okkur meinilla við að viðurkenna að nokkur maður sé yfir höfuð að gera nokkuð rétt þarna í austrinu.

En við erum ekki fávitar og getum því alveg viðurkennt að nokkrir af ómerkilegri klúbbunum í Austurdeildinni eru að standa sig ágætlega í byrjun móts.

Nokkur af þessum liðum eru búin að vera það skelfileg undanfarið að þau gátu ekki farið annað en upp á við, svo þau þurftu kannski ekki að gera annað en mælast með púls til að bæta sig.

Við skulum samt ALVEG róa okkur á fullyrðingunum um að Austurdeildin sé orðin betri en Vesturdeildin á einni nóttu og einhverju svoleiðis bulli. Við höfum heyrt alls konar fólk kasta þessu fram eins og þetta sé bara staðreynd! Kannski áttar þetta fólk sig hreinlega ekki á því hvað staðreyndir eru!

  • Það að sé bein tenging milli Coldplay-hlustunar og sjálfsvíga.
  • Það að Kobe Bryant sé búinn á því er staðreynd.
  • Það að Páll Óskar á Eistnaflug sé versta ákvörðun síðan gjaldeyrislán er staðreynd.
  • Það að Omer Asik sé búinn að gefast upp á lífinu er staðreynd.
  • Það að Chris Paul hati lífið er staðreynd
  • Það að Höttur vinni ekki leik í vetur er staðreynd
  • Það að allt að helmingur stuðningsmanna Liverpool séu undir meðalgreind er staðreynd
  • Það að stuðningsmenn Liverpool sem lesa þetta verði umsvifalaust hörundsárari en ef við hefðum sagt mæðrum þeirra að fara til andskotans er staðreynd.

Og það að Vesturdeildin sé betri en Austurdeildin er enn staðreynd. Ekki öfugt. Please!



Vesturdeildin er búin að vera helmingi- til þrisvar sinnum betri en austrið í fjölda ára og það er ekkert að fara að breytast þó austrið grísi á að vinna nokkra haustleiki (aðallega af því nokkur af vesturliðunum eru velta sér upp úr eigin skít um þessar mundir - og það er blóð í honum).

Nei, Austurdeildin er ennþá léleg, en menn verða að fá prik þegar þeir eiga skilið að fá prik og ritstjórn NBA Ísland hefur alveg næga auðmýkt til að takast á við þessa áskorun. Svo má deila um það hvort það er til marks um auðmýkt þegar fólk lýsir því sjálft yfir að það sé auðmjúkt, en við skulum ekki dvelja við það og vinda okkur að efninu.


Sennilega eru flestir sammála um að það sé Indiana sem er að stela senunni í Austurdeildinni, þar sem það situr nú í öðru sæti ásamt Miami með tíu sigra og fimm töp - rétt á eftir toppliði Cleveland (12-4).

Við fengum að sjá Indiana-liðið beint á Sportinu í gærkvöldi og það er ekki hægt að segja annað en að fólk hafi fengið nóg fyrir peninginn frá Pacers. Frank Vogel er að ná ótrúlegum árangri með þetta lið og undirstrika hvað hann er magnaður þjálfari. Indiana er búið að breyta mikið til eins og þið vitið væntanlega og það er ekki að sjá að liðið sakni alls kjötsins úr miðjunni sem það lét fara.

Nei, nei. Menn henda 40 kílóa þungum Paul George bara í fjarkann og vona það besta í vörninni, en í sókninni tæta menn völlinn í sundur með þrjár 45% langskyttur í byrjunarliðinu sem allar eru á skærgrænaljósinu. Vörnin er enn sem komið er í hæsta gæðaflokki (topp 5) og sóknarleikurinn er yfir meðallagi (11.), þannig að útkoman er bara bullandi fínt lið.



Það verður mjög áhugavert að fylgjast með því hvernig Indiana gengur í framhaldinu, því þetta er mjög áræðin og nýstárleg leikaðferð hjá Vogel. Persónulega áttum við ekki von á að Paul George kæmist upp með að spila stöðu kraftframherja nema í stuttum sprettum (svona eins og Draymond Green laumar sér stundum í miðherjann hjá Golden State) en þetta virðist mestmegnis vera að virka hjá þeim.

Minniboltinn (small ball) er í mikilli tísku í dag og það verður forvitnilegt að sjá hvort fleiri lið fara að taka svona sénsa eins og að setja vængmenn í fjarkann. Ná kostirnir við þessa leikaðferð að útmá gallana?


Staðan væri að sjálfssögðu ekki svona góð hjá Indiana ef Paul George væri ekki hjá liðinu. Indiana er alls ekki með mikla breidd, en í George er það með nokkuð sem mjög fá lið í deildinni eru svo heppin að hafa; stjórstjörnu, mann sem getur tekið boltann og búið eitthvað upp úr engu fyrir sjálfan sig eða félaga sína. Þetta er ekki metið til fjár. Þetta er ástæðan fyrir því að félögin í NBA taka sénsa - þau dreymir um að detta í lukkupottinn og landa næsta Paul George í nýliðavalinu.

Það gleður okkar sótsvarta hjarta óstjórnlega að vera búin að endurheimta George eftir meiðslahelvítið sem hann gekk í gegn um á síðasta kjörtímabili og það er engin klisja að drengurinn er orðinn betri en hann var fyrir meiðslin. Og hann var ekkert blávatn fyrir!

Paul George er auðveldlega einn  af tíu bestu körfuboltamönnum í heiminum í dag - það er bara þannig. Sérstaklega af því hann er maður tveggja vallarhelminga eins og sagt er. Hann er framúrskarandi varnarmaður og er sífellt að verða betri og betri sóknarmaður. Lengdin á drengnum er algjört skaðræði bæði í vörn og sókn og það er ofboðslega gaman að horfa á hann í vinnunni. Hreint út sagt frábær körfuboltamaður. Velkominn aftur, PG-13, við söknuðum þín!



Það verður ekki af okkur tekið, við náðum að koma því frá okkur í fáum og vel vönduðum orðum hvað Indiana er búið að standa sig vel á fyrsta mánuðinum í deildinni. Það eru fleiri Öskubuskur í austrinu sem verða að fá úthróp þó þau fái kannski ekki ritgerð eins og Pacers.

Það er nokkur ár síðan síðast, en nú neyðumst við til að sleppa því að hrauna yfir New York Knicks, sem er mjög óvenjulegt. New York er 8-9 núna, sem á mælikvarða Knicks síðustu 15 árin jafngildir því að liðið sé 23-2.

Við ætlum ekki að breyta þessu í eitthvað sleik-sessjón fyrir New York, þetta lið á það ekkert skilið, en það er skömminni skárra en viðbjóðurinn sem það var að bjóða upp á í fyrra. Þar hjálpar helst til að það er komið með nokkra NBA leikmenn í hópinn og fagmenn eins og Robin Lopez munu alltaf hjálpa þér að vinna körfuboltaleiki.


Nei, við ætlum ekki að sleppa Kristaps Porzingis. Hann er búinn að standa sig ágætlega strákurinn og er næststigahæstur í liðinu með 13 stig, 9 fráköst og tvö varin. Skotnýtingin hans er ekki fullkomin, en það sem er skemmtilegast við drenginn er hvað hann er óhræddur við að láta finna fyrir sér.

Allir nýliðar spila eins og fífl þegar þeir koma inn í NBA deildina, kunna ekkert og gera fullt af mistökum. Porzingis er engin undantekning á þessu, en það er sómi af því hvernig hann göslast áfram og berst eins og ljón. Það er til dæmis magnað hvað hann nær að hirða af fráköstum þó hann sé 59 kíló með blautt hár og skólatösku og geti ekki tekið kústskaft í bekk.

Þessi drengur virðist sannarlega eiga framtíðina fyrir sér, en þið verðið að hafa það hugfast þegar þið lesið um afrek hans á körfuboltavellinum að þið verðið að deila í allt sem skrifað er um hann með þremur til fjórum.

New York miðlarnir og ekki síður stuðningsmennirnir, eru búnir að stimpla Porzingis sem frelsara Eplisins og framtíðarmann. Spurning hvort hann stendur undir þeirri pressu - hann segist sjálfur elska hana og fagna ómögulegu verkefninu að koma New York jafnvel upp fyrir helstu keppinauta þess eins og Brooklyn, Lakers, Minnesota og Sacramento.



Eigum við að gefa Cleveland smá úthróp fyrir að hanga á toppnum þrátt fyrir öll meiðslin? Jú, jú, segjum það. LeBron James hefur gríðarlegar áhyggjur af því að liðið sé allt á hliðinni og enginn sé að nenna að hreyfa sig og það er skiljanlegt. Vandamál Cavs númer eitt fyrir utan meiðsli eru jú mótívasjónirnar.

Það er ólíklegt að eitthvað af liðunum í austrinu nái að veita Cavs einhverja samkeppni ef þeir verða orðnir heilir í haust. Og reyndar hvort sem þeir verða heilir eða ekki. Ef LeBron verður heill, fer Cleveland í úrslit. Hann þarf ekki einu sinni á aðstoð Ástþórs og Irving að halda til þess.



Kannski að við gefum Miami líka einn fingurkoss fyrir að byrja 10-5. Þeir líta ágætlega út, þó þeir hafi ekki spilað nema fimm útileiki. Þetta vel mannaða lið á að geta verið með eitthvað vesen í austrinu ef það slípast þokkalega saman. Goran Dragic og Dwyane Wade passa nefnilega álíka vel saman eins og vörtusvín og vegheflar) og hangir heilt.

Restin af liðunum í sætum 1-8 eru að spila c.a. á pari, en það er kannski einna helst Charlotte sem er að koma á óvart með því að hanga í áttunda sætinu. Ef liðið heldur svona áfram í vetur á það eftir að láta einhverja (lesist: okkur) líta illa út í Vegas-spám, en Hornets-menn eru búnir að vera duglegir að hræra upp í leikskipulagi liðsins.

Það eru líka áhugaverðir hlutir að gerast fyrir neðan strik (9.-14. sætinu) í austrinu. Detroit var í miklu stuði á fyrstu dögum mótsins, en er komið niður á jörðina aftur. Stan Van Gundy er hinsvegar að sýna okkur að hann sé á réttri leið með þetta lið. Hann þarf bara tíma og aðeins fleiri leikmenn inn í planið.



Og af því við erum á annað borð að velta okkur upp úr paþólógískri bjartsýni og jákvæðni, er ekki úr vegi að klappa aðeins fyrir Orlando. Guttarnir hans Scott Skiles eru hvorki meira né minna en 8-8, sem er árangur sem hefur ekki sést þar á lengi.

Jákvæðni er hinsvegar ekki það sem kemur upp í hugann þegar Washington og Milwaukee eru annars vegar. Við erum alltaf að bíða eftir því að Washington verði gott, en það gerist aldrei.

Bucks-liðið vissum við að ætti ekki séns eftir að það anaði út í Michael Carter-Williams viðskiptin á síðustu leiktíð.

Það eru ungir og efnilegir strákar hjá Milwaukee eins og gríska græjan og Jabari Parker, en Spútnikvarnarleikur liðsins er gufaður upp á einu bretti.

Það var heldur betur í tísku í haust að spá einhvers konar velgengni hjá Bucks, en við sjáum ekki fram á að þeir spádómar rætist alveg strax.

Já, það er stórundarlegt að sjá öll þessi lið í Austurdeildinni með um eða yfir 50% vinningshlutfall eins og séu komin jól. Þessi ber að taka með fyrirvara eins og við sögðum ykkur, því auðvitað er Vesturdeildin enn miklu betir.

En þó við séum Vesturdeildarfasistar, þýðir það ekki að við getum ekki glaðst með litlu klúbbunum í austrinu þegar þeim fer loksins að ganga þokkalega. Þetta er allt af hinu góða.

Við ætlum ekki að hafa þetta lengra í bili, þar sem Vampíruvaktin er komin langt yfir fjörutíu tímana. Það er bara svo ofboðslega gaman að skrifa um körfubolta og vonandi hafið þið gaman af lestrinum elskurnar, þó textinn sé enn meira út og suður en vant er.