Monday, February 22, 2010

Í nafni Föðurins, Sonarins og þetta er ekki ár San Antonio


Við skrifuðum stuttan pistil um vandræðaganginn á San Antonio Spurs í síðasta mánuði.

Þar ætluðum við að láta stór orð falla, en ákváðum að bíða með stóra dóm þangað til eftir hið árlega keppnisferðalag liðsins eftir stjörnuleik - Ródeó-keppnisferðina ógurlegu.

Að þessu sinni spannaði keppnisferðin átta leiki og því hefur San Antonio ekki spilað einn einasta heimaleik í febrúarmánuði.


Það hefur verið ákveðin hefð fyrir því hjá San Antonio síðasta áratuginn að byrja keppnistímabilið rólega en setja svo í fluggírinn frá og með Ródeó-ferðinni. Þessi syrpa hefur oftar en ekki endað með meistaratitli í júní.

Í ár? Við eigum ekki von á að sjá San Antonio spila í júní árið 2010.

Við héldum í okkur með að afskrifa San Antonio í janúar, en eftir upp og niður keppnisferðalag í þrjár vikur (að stjörnuhelginni meðtalinni) sem lauk með töpum fyrir afleitum liðum Sixers og Pistons, er ekki hægt annað en loka bókinni á þetta frábæra lið.

Aldur lykilmanna, meiðsli og floppið hann Richard Jefferson eru ástæður sem vega þungt í þessu samhengi, en það sem skiptir mestu máli í okkar augum er bara sú staðreynd að San Antonio er ekki sama varnarlið og áður.

Ekki nálægt því.

Og San Antonio verður ekki NBA meistari á leiktíð þar sem liðið tapar t.d. þremur heimaleikjum í röð og liggur fyrir liðum eins og Philadelphia og Detroit back to back. Það bara gerist ekki.

San Antonio liðið hefur farið í taugarnar á ansi mörgum síðan það hreppti titilinn fyrst á verkfallsárinu 1999.

Liðið hefur þótt spila stirðbusalegan og glanslítinn sóknarleik og kæfandi varnarleikurinn sem gerði liðið að því stórveldi sem það var - var nú ekki mikið fyrir auga "leikmannsins"

Við hér á NBA Ísland erum engir sérfræðingar í körfubolta, en við erum heldur ekki "leikmenn". Og því kunnum við að meta San Antonio Spurs.

Við kunnum að meta aðferðafræði stjórnar félagsins, við kunnum að meta þjálfunaraðferðir Gregg Popovich, við kunnum að meta frábæran varnarleik liðsins, þroskaferil Tony Parker sem enginn trúði að gæti farið fyrir meistaraliði sem leikstjórnandi (líkt og Avery Johnson á undan honum), ótrúlega hæfileika og útstjónarsemi sigurvegarans Manu Ginobili og síðast en ekki síst, kunnum við að meta Tim Duncan.

Þú getur sagt hvað sem þú vilt, en Tim Duncan er einn af allra bestu leikmönnum sem spilað hafa í NBA frá upphafi. Metabækurnar og stöðugar tölfræðiskýrslurnar sýna það svart á hvítu. Og hann hefur verið til vélrænnar fyrirmyndar frá fyrsta degi sínum í deildinni.

Við vitum ekki af hverju við vildum endilega taka svona mikið pláss í að skrifa San Antonio formlega út sem kontender í NBA.

Hluti af því er sú undarlega tilhneiging okkar að vilja mála okkur út í horn og þurfa jafnvel að éta eitthvað ofan í okkur (sjá: Miami Heat 2006), en líklega er það bara af því okkur vantaði ástæðu til að skrifa nokkur orð um það vanmetna stórveldi sem Spurs-liðið hefur verið síðasta áratug.

Sem sagt af virðingu.


Það yrði því sannur heiður fyrir okkur að fá að éta alla okkar hatta í júní ef San Antonio næði að setja hringinn sem vantar á hægri höndina á Tim Duncan - að því gefnu að hann beri hring á þumalfingri.