Monday, February 22, 2010

Faðir Tími er tík


Flestir eru farnir að efast um að Boston geti talist í hóp þeirra liða sem líklegust eru til að hreppa meistaratitilinn í sumar.

Hluti af ástæðunni er sú staðreynd að Kevin Garnett er ekki sami leikmaður og hann var þegar liðið varð meistari 2008. Honum hefur gengið illa að fá sig góðan af hnémeiðslum og svo er maðurinn auðvitað búinn að spila ómanneskjulegan fjölda mínútna á löngum ferli í deildinni.

Tölfræðin mælir ekki allt, en eftirtaldir punktar sýna okkur glögglega að ekki er allt með felldu hjá Garnett - óháð þeirri staðreynd að hann spilar ekki sama mínútufjölda og áður.

*Garnett hefur sex sinnum hirt 10 fráköst eða meira í leik í allan vetur.
*Garnett á einn 20/10 leik í allan vetur.
*Garnett hefur ekki hirt 10 fráköst í leik síðan löngu fyrir jól.

Æsingurinn og brjóstkassahöggin eru enn á sínum stað, en lappirnar fylgja ekki með lengur. Faðir Tími er að ná til Kevin Garnett.

Sömu sögu er að segja um Shaquille O´Neal, Tracy McGrady, Allen Iverson, Manu Ginobili og fleiri góða. Stundum vegna meiðsla - stundum vegna aldurs. Faðir Tími nær okkur öllum. Ekkert fær okkur til að eldast hraðar en að sjá uppáhalds íþróttamönnunum okkar hraka á vellinum.

Gangur lífsins er tík.