Monday, April 2, 2012
KR lokaði á Króknum
KR og Grindavík eru komin í undanúrslitin í Iceland Express deild karla eftir að hafa klárað einvígin sín 2-0.
Grindavík átti alltaf að sópa grænum grönnum sínum, enda Njarðvík að okkar mati áberandi slakasta liðið í úrslitakeppninni.
Rimma KR og Tindastóls átti hinsvegar að verða jafnari. Það var hún í rauninni ekki og KR lokaði dæminu 2-0 eins og við spáðum.
Stólarnir börðust vissulega á heimavellinum í kvöld, en okkur fannst þó ekki sami dólgurinn í þeim og var í DHL höllinni á dögunum.
Kannski læddist inn einhver efi hjá Skagfirðingunum eftir tapið í Reykjavík. Ómögulegt að segja.
KR er því komið áfram á fagmannlegan hátt. Það er rosaleg pressa á liðinu með heimavöllinn í þessum 2-3 leikja seríum í fyrstu umferð og því þýðir ekkert að ætla að skokka í gegn um þessa leiki.
Það má ekkert út af bera. KR var ekki að bjóða upp á neinn blástur í þessum leikjum, en við höfðum það aldrei á tilfinningunni að þetta væri í einhverri hættu hjá þeim.
KR er tilbúið í slaginn.
Eitt verður að koma fram að lokum. Tímabært tuð, sem oft hefur heyrst áður reyndar.
Auðvitað er aldrei haugur af blaðamönnum á leikjum Tindastóls þegar liðið spilar á Króknum. Það er skiljanlegt. Það afsakar þó á engan hátt þá staðreynd að aðstaða fyrir blaðamenn er engin í Síkinu. Engin.
Blaðamenn þurfa ekki hægindastóla og fjögurra rétta máltíð þegar þeir mæta á leiki þrátt fyrir að þeir eigi það til að gantast með þessa hluti. Þeir þurfa hinsvegar að geta fengið sér sæti þar sem þeir geta fylgst með leiknum og hafa þráðlaust net. Menn ýmist hlógu eða hristu höfuðið þegar spurt var út í þetta á Króknum. Það hefði allt eins verið hægt að krefjast þess að leikurinn yrði spilaður utandyra.
Við verðum öll að átta okkur á þessu litla atriði:
Ef þú ert með lið í keppni í efstu deild í einhverri af boltagreinunum þremur og ert ekki með stóla, borð og klára nettenginu í húsinu fyrir blaðamenn - þá geturðu alveg eins pakkað saman og hætt þessu.
Við ætlum ekki að skipta okkur af því hvernig menn gera þetta í fótboltanum og klísturglímunni þó þetta sé sjálfsagt þar líka, en þú bara tekur þig ekki alvarlega sem klúbb í úrvalsdeild ef þú ert ekki með netið klárt. Og það í úrslitakeppninni!
Tindastóll er alls ekki eina félagið sem er með allt niður um sig í þessum efnum. Hvernig væri að forráðamenn félaganna í Iceland Express deildinni myndu nú kíkja á netmálin hjá sér og reyna að hafa þetta í lagi einu sinni?
Þetta er ekki flóknasti hlutur í heimi og að vera ekki með klára tengingu í húsinu árið 2012 er eins og flogaveikur maður með bráðaniðurgang sem ætlar í Twister með Milu Kunis.
Efnisflokkar:
Heimabrugg
,
KR
,
Tindastóll
,
Úrslitakeppni 2012