Sunday, April 1, 2012
Þá varð ekki aftur snúið
Stjörnuleikurinn árið 1989 er í miklu uppáhaldi hjá okkur, en það var í kring um þann tíma sem segja má að ekki hafi verið aftur snúið hvað áhuga okkar á NBA snertir.
Leikurinn var haldinn í Astrodome-höllinni í Houston fyrir framan tæplega 45 þúsund manns og var mjög fjörugur. Karl Malone var kjörinn verðmætasti leikmaðurinn með 28 stig og 9 fráköst og stórskyttan Dale Ellis bætti við 27 stigum. John Stockton var aðalleikstjórnandi vesturliðsins í fjarveru Magic Johnson og dældi út 17 stoðsendingum á þá Malone og Ellis sem kláruðu leikinn fyrir vestrið.
Leikurinn ´89 var jafnframt síðasti leikur Kareem Abdul-Jabbar sem valinn var inn í liðið í stað félaga síns Magic Johnson hjá Lakers. Þetta var 18. stjörnuleikur Jabbar og er það met sem stendur enn. Á myndinni hér fyrir ofan má sjá lið Vesturstrandarinnar.
Efri röð frá vinstri: John Stockton, Clyde Drexler, Dale Ellis, Alex English, James Worthy og Chris Mullin.
Neðri röð frá vinstri: Karl Malone, Kareem Abdul-Jabbar, Hakeem Olajuwon, Pat Riley þjálfari, Mark Eaton, Kevin Duckworth og Tom Chambers.
Þess má til gamans geta að Kevin Duckworth heitinn, sem þarna var að spila sinn fyrri af tveimur Stjörnuleikjum, á afmæli í dag - rétt eins og leikstjórnandinn Mark Jackson hjá New York sem þarna var að spila sinn fyrsta og eina Stjörnuleik á ferlinum með austurliðinu.
Það sem er þó eftirminnilegast við Stjörnuleikinn 1989 að okkar mati eru leikmannakynningarnar mögnuðu. Þetta árið voru þær rappaðar af Ultramagnetic MC´s og ef við vorum ekki þegar fallin fyrir NBA deildinni áður en við heyrðum þetta rapp, vorum við það sannarlega eftir Stjörnuleikinn árið 1989. Geggjað dæmi.
Efnisflokkar:
NBA 101
,
Stjörnuleikir
,
Tónlistarhornið