Friday, April 6, 2012

Leikmenn Knicks gætu átt yfir höfði sér fangelsisvist


Fyrirsögnin er kannski dálítið ýkt, en samt ekki. Hér er á ferðinni grafalvarlegt mál.

New York tekur hvorki meira né minna en 22,6 þriggja stiga skot að meðaltali í leik. Aðeins tvö lið reyna fleiri langskot en Knicks að meðaltali í leik. Orlando leiðir deildina með 27 tilraunir eins og flestir vita og New Jersey er svo með næstflestar tilraunir, rétt rúmar 23 í leik.

Orlando getur að einhverju leyti réttlætt fyrir sér skotgleðina, því liðið er með þriðju bestu þriggja stiga nýtinguna í deildinni (38%) á eftir San Antonio og Golden State.

New York hinsvegar, úff. Liðið er aðeins með 31,7% nýtingu fyrir utan. Þegar skoðað er hvaða menn það eru sem eru skotglaðastir hjá New York, má sjá að þeir eru flestir með hreint út sagt hræðilega nýtingu.

Aðeins 3ja stiga sérfræðingurinn Steve Novak er að hitta vel fyrir utan, en hann er reyndar að hitta svo vel að hann er með bestu nýtingu allra leikmanna í deildinni - 47,8% sem er frábært.

Á hinum endanum er vissara að Knicks-aðdáendur taki inn róandi lyf áður en farið er í upptalninguna. Þannig eru Carmelo Anthony og meinta skyttan JR Smith aðeins með 29% nýtingu úr djúpinu og þeir Baron Davis og Mike Bibby slá þeim við með 28% og 26%.

Meira að segja kraftaverkið Jeremy Lin er langt fyrir neðan það sem talist gæti ásættanlegt með 32%.

Grófastur af þeim öllum er svo Toney Douglas, sem einhverra hluta vegna hefur ekki verið handtekinn fyrir að taka 3,5 þriggja stiga skottilraunir í leik og nýta aðeins 23% þeirra. 

Tuttugu og þrjú prósent!

"Ma, ma, ma, ma, ma bara skilur´ettekki!" - Ragnar Reykhás*

*- Gefum sjálfum okkur strax kúdós fyrir að kvóta Ragnar Reykhás hér á síðunni. 
    Gríðarlega ferskur karakter sem á nóg inni eins og allir vita.