Tuesday, April 24, 2012

Framvegis verður lítið um körfubolta í Newark


Körfuknattleiksfélagið New Jersey Nets hefur spilað sinn síðasta leik í Newark. Verður framvegis í Brooklyn frá og með næsta tímabili. Alltaf verið að breyta í NBA.

Saga Nets á undanförnum árum hefur ekki verið vörðuð stórsigrum og gleði, en liðið fór þó í lokaúrslitin í tvö ár í röð undir stjórn Jason Kidd (2002-03).

Sé eitthvað fólk í öngum sínum yfir flutningi þessum, hefur ekki heyrst mikið í því.

Þessir 300 manns frá Newark sem bera taugar til liðsins munu þurfa að leggja á sig ansi myndarlegt ferðalag til að fara á Nets leiki framvegis.

Stuðningsmennirnir halda niðri í sér andanum. Afar fátt bendir til þess að Deron Williams muni verða um kyrrt hjá félaginu þegar samningur hans rennur út.

Hann vildi fá Dwight Howard eða viðlíka leikmann með sér til Nets, en nú er útlit fyrir að enginn slíkur glans verði í boði. Hvort sem Jay-Z mætir á leiki eða ekki.

Megum til með að láta þetta stutta myndbrot fljóta með þessari hugleiðingu. Ætla má að þessi gaukur sé einn af 300 harðlínustuðningsmönnum Nets sem munu láta sig hafa þvælinginn til að styðja Nets áfram. En kannski hefur hann bara migið á rafmagnsgirðingu. Hver veit.