Sunday, April 8, 2012

Óæskileg tölfræði Nick Young


Menn voru á báðum áttum þegar LA Clippers fékk Nick Young í sínar raðir í vetur.

Young kom frá Washington og þekkir því ekkert annað en að tapa á ferlinum. Hann hefur þó komið boltanum í körfuna annað slagið og því tóku forráðamenn Clippers þá ákvörðun að semja við hann.

Við höfum ekki horft á marga leiki með Nick Young, en við fréttum af tölfræði sem verður líklega til þess að við nennum aldrei að horfa á hann spila - jafnvel þó hann sé að spila með skemmtilegu liði Clippers.

Nick Young er eini leikmaðurinn í sögu NBA sem hefur ekki náð að gefa 350 stoðsendingar samhliða því að skora yfir 3500 stig. 

Og núna er hann búinn að bæta við metið - er kominn í 4000 stig, en enn ekki kominn með 350 stoðsendingar.

Hann er með EINA stoðsendingu að meðaltali í leik á ferlinum og hefur meira að segja lækkað í stoðsendingum síðan hann kom til Clippers.

 Stundum fá menn stoðsendingu þegar þeir missa boltann til félaga sinna eða skjóta loftboltum. Sendingarnar sem Young hefur fengið skráðar á sig hljóta að vera byggðar á slíkum mistökum.

Ef við skoðum menn í hans stöðu til samanburðar, er hann í 32. sæti yfir stoðsendingahæstu skotbakverðina í NBA í vetur. Það er með ólíkindum að leikmaður - og það bakvörður - sé með vinnu þrátt fyrir þennan hrikalega veikleika ef svo má segja.