Sunday, April 29, 2012

Derrick Rose er úr leik með Chicago:


Ef við mættum velja okkur uppákomu til að skemma úrslitakeppni NBA árið 2012, myndi það koma sterklega til greina að slíta krossband í hnénu á Derrick Rose.

Þessi viðbjóður er einstaklega óheppilegur og skemmir augljóslega mikið fyrir Chicago sem ætlaði sér að fara að keppa um titla. Philadelphia verður Bulls engin fyrirstaða þó Rose sé ekki með, en liðið gæti farið að sakna hans þegar lengra er komið í úrslitakeppninni. Chicago er einfaldlega ekki eins sterkt án hans.

Það verður óhemju erfitt að slá Chicago út þrátt fyrir þessi skelfilegu tíðindi. Liðið mun berjast enn harðar í vörninni og veita hvaða liði sem er brjálaða samkeppni. Því er þó ekki að neita að leikmenn Miami hljóta að hugsa sér gott til glóðarinnar núna. Austrið er strangt til tekið þeirra, ef þeir eru klárir í slaginn. Það er bara þannig.

Meiðsli Rose eru ekki aðeins skelfileg tíðindi fyrir stuðningsmenn Bulls, heldur einnig alla þá sem hata LeBron James og Sólstrandargæjana - fólkið sem vill frekar kjarnorkustyrjöld en að Miami vinni titil.

Æ, þetta er ömurlegt. Megi Derrick Rose fá fljótan og góðan bata. Lífið þarf víst að halda áfram.