Tuesday, May 1, 2012

Fáránleg endurkoma hjá Clippers


Sigur LA Clippers á Memphis var miklu meira en ótrúlegur. Eins og Memphis byrjaði vel í leiknum, spilaði liðið eins og hettumávur í heróínvímu í fjórða leikhluta og gaf leikinn bókstaflega.

Chris Paul þurfti að taka fram fyrir hendurnar á þjálfara sínum og neita að fara út af. Þeir sem horfðu á þennan leik sáu það á Paul allan tímann að hann ætlaði að vinna þennan leik. Þvílíkur sigurvegari.

Það kemur illa við Clippers að missa Seiglusafann Caron Butler í meiðsli, en síðast þegar lið var með hann í jakkafötum á bekknum vann það titil, svo það er kannski ekki alslæmt.

Við sögðum það á sínum tíma að Reggie Evans væri gullið pickup fyrir Clippers. Hann var algjör lykilmaður í endurkomu liðsins í Memphis.

Margir hafa spáð því að Memphis fari langt í þessari úrslitakeppni og við vorum alveg tilbúin að kaupa það, en það gerist alls ekki ef Marc Gasol og Zach Randolph spila eins og þeir gerðu í leik eitt. Sérstaklega Randolph. Hann var maðurinn á bak við velgengni liðsins í úrslitakeppninni í fyrra, en í fyrsta leiknum gegn Clippers virtist hann vera búinn að gleyma því hvernig á að spila körfubolta. Hann var æpandi lélegur.

Chris Paul er dálítið góður í körfubolta.

Það verður óhemju áhugavert að sjá hvernig Memphis bregst við þessu kjaftshöggi. Þessi sería verður frábær skemmtun og leikur fjögur í LA verður sýndur beint á Sportinu snemma á laugardagskvöldið.