Saturday, April 28, 2012

Úrslitakeppnin í NBA hefst í dag


Það er ekki auðvelt að fylgjast með þegar allt er að gerast í einu. Við vorum fjarri því búin að átta okkur á að deildakeppnin væri búin þegar við föttuðum að úrslitakeppnin er að byrja. Meiri lætin. Það má segja að leikur Miami og New York á laugardagskvöld sparki þessu öllu af stað. Hann er í beinni á Sportinu klukkan 19:30.

Það er venja að spá aðeins í spilin áður en úrslitakeppnin hefst og það er ekki hægt að komast hjá því. Frammistaða okkar í spámennskunni í úrslitakeppni Iceland Express deildinni var fullkomlega út í hött og því þýðir ekkert að láta þar við sitja. Annars er nú spáin bara til gamans og okkar hefur örugglega komið einhverjum til að hlæja.

Við ætlum aðeins að setja einn fyrirvara áður en við spáum í spilin fyrir úrslitakeppnina í NBA árið 2012, en hann er reyndar nokkuð stór.

Það er gjörsamlega ómögulegt að setja fram rökrétta spá í ár.

Leikjaálagið sem var á liðunum í vetur gerði það að verkum að góð lið skíttöpuðu fyrir lélegum liðum og engin leið var að sjá neitt fyrir eða fá almennilega tilfinningu fyrir því hvar liðin stóðu í raun og veru. Þetta er rosaleg afsökun, en mundu að þú getur alltaf hlegið að spánni þegar við verðum ekki með eitt einvígi í fyrstu umferðinni rétt.

Hér fyrir neðan segjum við nokkur orð um einvígin sem framundan eru og hvaða tilfinningu við höfum fyrir þeim.


VESTURDEILD:

SAN ANTONIO - UTAH

Þetta er ójafnasta einvígið í úrslitakeppninni ásamt Chicago-Philadelphia í austrinu.

San Antonio hirti toppsætið í Vesturdeildinni annað árið í röð, en öfugt við í fyrra þegar liðið klessti á Memphis-vegginn í fyrstu umferð, eru nú allir höfðingjar Spurs ómeiddir.

San Antonio hefur breytt um taktík, er orðið sóknarlið í stað varnarliðsins sem það var áður. Þetta er Popovich þjálfari að gera vel úr þeim spilum sem hann hefur á hendi.

Það er með ólíkindum hvað hann og leikmenn San Antonio eru miklir snillingar. Verður ekki of oft sagt. Við höfum verið á því lengst af í vetur að Tom Thibodeau væri þjálfari ársins, en við verðum að leyfa Pop að eiga þennan titil sömuleiðis. Hann er of mikill snillingur.

Utah gerði gríðarlega vel að komast í úrslitakeppnina, en þangað hefur liðið ekkert að gera gegn fjendum sínum í San Antonio. Það er freystandi að setja einn sigur á Utah vegna hins sterka heimavallar sem liðið hefur, en Spurs nenna ekki að standa í einhverju rugli og loka þessu í fjórum leikjum til að hvíla sig. Framtíðin er Jazzara en þessir guttar hafa ekkert í Spurs að gera þó þeir hafi meira kjöt í miðjunni. Pop og félagar eru of klókir.

MEMPHIS-LA CLIPPERS

Flestir líta svo á að þetta verði harðasta einvígið í fyrstu umferðinni í vestrinu, ef ekki í allri deildinni. Það þyrfti ekki að koma á óvart þó menn tækjust jafnvel eitthvað á án bolta.

Bæði þessi lið ætla sér sigur í rimmunni og bæði teldu það gríðarleg vonbrigði að detta út í fyrstu umferð. Clippers vegna þess að liðið er búið að bæta við sig leikmönnum og auka væntingar. Memphis vegna þess hve óvæntan árangur liðið sýndi í úrslitakeppninni á síðustu leiktíð.

Þetta verður hörð og jöfn sería en við ætlum að tippa á Memphis af því liðið er með heimavöllinn og af því það er með óhemju yfirburði í teignum.

Við höfum alls ekki hrifist af Clippers í vetur þrátt fyrir litrík tilþrif þeirra á köflum og það kemur illa niður á liðinu í úrslitakeppninni að stóru mennirnir geta ekki hitt vítaskotum til að bjarga lífi sínu. Chris Paul á eftir að sýna einhver töfrabrögð í þessu einvígi og vinna jafnvel eins og einn leik upp á sitt einsdæmi, en það verður ekki nóg.

LA LAKERS-DENVER

Það eina sem við vitum um þessa seríu er að Lakers vinnur hana. Það er ómögulegt að segja til um hvað við sjáum frá þessu Denver-liði í úrslitakeppninni. Denver á vafalítið eftir að gera Lakers lífið leitt á heimavelli sínum, en við tippum yfirleitt á stóru mennina. Denver á engin svör við Bynum og Gasol frekar en flest önnur lið og ef Lakers drulla boltanum reglulega inn í teig verður þetta nokkuð þægilegt hjá þeim. Það er okkur samt mikið áhyggjuefni hvað Lakers-liðið er búið að vera slakt í varnarleiknum undanfarið, en við gefum okkur að það lagist í þessu einvígi.

OKLAHOMA-DALLAS

Ef taka ætti mark á gengi þessara liða í vetur, ætti Oklahoma að valta yfir meistarana nokkuð örugglega. Það hefur eiginlega verið skömm að fylgjast með meisturunum í vetur og samnefndur bragur verið fjarri liðinu. Það er engu líkara en að Dallas sé bara að bíða eftir næsta vetri og þeirri uppstokkun sem þá er bókað að verði á liðinu (Deron Williams? Dwight Howard?)

Oklahoma er búið að spila vel í allan vetur og hefur þegar stimplað sig inn sem eitt besta vetrarliðið í NBA, en á eftir að sanna sig að vori. Í ár er árið sem Oklahoma á að brjótast í gegn um Vesturdeildina og það verður því forvitnilegt að sjá hvernig liðið bregst ef það fær nú á kjaftinn frá Dallas snemma í einvíginu.

Við neitum nefnilega að trúa því að meistararnir ætli að halda áfram að spila eins og aumingjar í úrslitakeppninni. Til þess hafa þeir of góðan mannskap og allt of góðan þjálfara, sem ætti að geta nýtt sér veikleika Oklahoma rétt eins og í fyrra. Því miður fyrir Dallas mun það ekki verja meistaratitil sinn að þessu sinni. Það gerir ekkert lið með Vince Carter í lykilhlutverki.



AUSTURDEILD:

CHICAGO-PHILADELPHIA

Þetta einvígi verður aldrei spennandi. Chicago er miklu miklu betra lið og Philadelphia er gjörsamlega búið að drulla upp um alla veggi á seinnihluta tímabilsins.

Kannski nær liðið að vinna einn leik fyrir stuðningsmenn sína en fleiri verða þeir ekki. Chicago ætlar og þarf að steikja stærri fisk en Philadelphia og klárar þetta einvígi af fagmennsku. Bulls-menn hafa unnið fyrir því í vetur að fá "auðvelda" mótherja í fyrstu umferð og því geta þeir spilað Derrick Rose í gang í rólegheitunum. Alveg kjörið fyrir þá.

ATLANTA-BOSTON

Það er glapræði að ætla að tippa á Boston í úrslitakeppni. Alveg sama hvaða ár það er. Við förum flatt á því á hverju ári. Ef fólk tippar á móti þeim, vinna þeir og öfugt. Þess vegna spáum við því að einvígi Atlanta og Boston fari alla leið í oddaleik.

Þessi lið eiga sér smá sögu og fóru ótrúlegt nokk í sjö leikja seríu í fyrstu umferð þegar Boston hirti titilinn árið 2008. Boston hefur sýnt að það er ekki alveg dautt úr öllum æðum á síðustu vikum og þess vegna ætlum við að spá því sigri í þessu einvígi.

Þetta verður síðasti sprettur hins frábæra 2008 liðs þeirra Celtics-manna sem alltaf er kennt við Garnett, Allen og Pierce, eins asnalegt og það er nú (Rondo? Halló!). Við trúum því ekki að þessir snillingar hafi hug á því að tapa síðasta einvíginu sínu gegn Atlanta Hawks. Það bara meikar engan sens eins og sagt er.

Það verður líka gaman að sjá geðsjúklingana Zaza Pachulia og Kevin Garnett læsa saman hornum í þessum slag. Þú veist að það verður vesen. Bara spurning hvenær.

INDIANA-ORLANDO

Þetta einvígi hefur alla burði til að verða alveg hrottalega leiðinlegt. Allar spár sem við höfum séð spá Indiana sigri og það er eðlilegt í ljósi þess að Orlando er án Dwight Howard.

Það eina sem Orlando hefur á Indiana í þessari rimmu er betri og reyndari þjálfari og þess vegna gefum við Orlando tvo leiki í þessu. Þeir eiga eftir að vinna tvo leiki bara á því að skjóta allt í kaf en Indiana er allt of vel mannað lið til að klára ekki þessa seríu.

Ef vel er að gáð má líka finna smá pressu á Indiana. Liðið á að vinna þetta einvígi og ætti á þessum tímapunkti uppbyggingarinnar að gera strítt Chicago og Miami aðeins. Sennilega verður það ekki mikið meira en stríðni, en það er ekki hyggilegt að veðja mikið á móti Larry Bird.


MIAMI-NEW YORK

Þetta einvígi mun ekki bjóða upp á besta körfuboltann í fyrstu umferðinni, en það verður sannarlega það langmest áberandi.

New York-miðlunum leiðist nú ekki að vera komnir á stóra sviðið og eftirvæntingin í Eplinu er gríðarleg. Það gerist ekki meira sexí fyrir sjónvarpið að þeir LeBron James og Carmelo Anthony séu þarna að mætast í úrslitakeppni í fyrsta sinn.

Alveg eins og í fyrra virðist Miami í rauninni vera í bullandi vandræðum á leið sinni inn í úrslitakeppnina, en við ætlum að treysta því að þetta smelli hjá þeim þegar þangað er komið eins og í fyrra.

Miami er með miklu betra lið en New York og þess vegna tapar það ekki mörgum leikjum, en sannið til að Knicks eiga eftir að gera þetta eftirminnilega seríu eftir sem áður.

New York liðið er bara ekki mannað til að gera hluti í úrslitakeppni. Á langt í land með það.