Monday, April 23, 2012
Það sem þú þarft að vita um úrslitaeinvígið
Úrslitarimman í Iceland Express deild karla hefst í kvöld klukkan 19:15 þegar Grindavík tekur á móti Þór frá Þorlákshöfn. Þið viljið auðvitað vita hvernig þetta fer allt saman, þess vegna eruð þið að lesa þetta.
Ef okkur misminnir ekki, höfum við spáð rétt fyrir um eitt einvígi í úrslitakeppninni fram að þessu, svo við getum sennilega slegið því föstu að Nostradamus er ekki staddur á ritstjórn NBA Ísland þetta árið frekar en önnur.
Það eina sem þú þarft að vita um einvígi Grindavíkur og Þórs er þetta:
Þórsliðið verður Íslandsmeistari ef það fær að spila sinn leik í úrslitunum. Þar eigum við auðvitað fyrst og fremst við varnarleik. Ef þór fær að spila vörn líkt og þá sem liðið spilaði gegn KR, á Grindavík eftir að eiga mjög erfitt uppdráttar.
Þór er eina liðið sem hefur tak á Grindavík í vetur, en þó það segi okkur kannski eitthvað, hefur það ekki úrslitaáhrif þegar komið er í þessa stórleiki sem framundan eru.
Varnarleikur, liðsandi, skipulag og barátta Þórsara hefur verið til algjörrar fyrirmyndar í úrslitakeppninni. Þórsarar hafa fengið að spila nokkuð fast og það er algjört lykilatriði fyrir liðið upp á framhaldið.
Ef dómarar ætla að taka fast á Þórsurum og flauta á þá villur í tíma og ótíma fyrir klapp og strokur, á liðið eftir að eiga mjög erfitt uppdráttar gegn deildarmeisturunum, sem hafa gríðarlega breidd í sínum röðum - jafnvel án Ólafs Ólafssonar. Þórsliðið hefur ekki þessa sömu breidd og er því illa statt ef það lendir í villuvandræðum.
Það er ekkert leyndarmál að erlendu leikmennirnir Watson og sérstaklega Bullock hafa dregið vagninn í sókninni hjá Grindavík í vetur og þeir verða að eiga ofurmannlegt einvígi svo Grindavík nái að standa undir pressunni sem sett var á liðið strax í haust.
Það eru margir mánuðir síðan því var haldið fram hér á þessari síðu, og víðar auðvitað, að það yrði hreinlega skandall ef Grindavík næði ekki að landa titlinum með þennan mannskap. Við stöndum við það, en það er nú reyndar ekki langt síðan að þetta saman var sagt um ofurlið KR. Jón Arnór og félagar lönduðu titlinum á sínum tíma, en ekki fyrr en í síðustu sókn í oddaleik. Þetta dæmi sýnir að það er ekkert gefið í körfubolta og þess vegna elskum við þennan leik svona heitt.
Við ætlum ekki að reyna að fara leynt með það að Þórsliðið hefur unnið hug okkar og hjörtu með frammistöðu sinni í vetur og því er það okkur þungbært að spá liðinu Íslandsmeistaratign. Sá spádómur einn og sér ætti að tryggja Grindavíkurliðinu titilinn.
Við ætlum samt að halda okkur við það að spá nýliðunum í Þorlákshöfn sigri. Varnarleikur þeirra og barátta - auk fyrirfram séðrar ofurframmistöðu Darrin Govens mun tryggja þetta.
Ritstjórnin