Thursday, April 19, 2012
Nýliðarnir úr Þorlákshöfn eru komnir í úrslit
Það hefur verið frábært að fylgjast með framgöngu nýliða Þórs úr Þorlákshöfn í Iceland Express deildinni í vetur. Ævintýrið hans Benedikts Guðmundssonar virðist engan endi ætla að taka og nú eru piltarnir hans komnir í lokaúrslit Íslandsmótsins, fyrstir nýliða.
Þeir sem efast um sannleiksgildi klisjunnar um að vörn vinni titla eru vinsamlegast beðnir að halda áfram að lesa. Vissulega eru Þórsarar ekki búnir að vinna titilinn, en sama hvað gerist er ljóst að liðið mun í versta falli veita liðinu sem stendur uppi sem Íslandsmeistari harða samkeppni. Í besta falli taka titilinn.
Velgengni Þórs er að okkar mati byggð á því að í Þorlákshöfn er búið að halda rétt á spilunum í að byggja upp körfuboltalið. Allt helsta hráefni til að búa til velgengniköku er til staðar.
Traust stjórn með metnað. Öflugur stuðningur. Góður þjálfari með plan, sem fær leikmenn til að kaupa það sem hann ætlar að gera - menn sem treysta honum og eru tilbúnir að láta lífið fyrir málstaðinn. Öflugur varnarleikur, góða rulluspilara, neyðarkarl, nokkra sigurvegara og fjóra til fimm rétta í Kanalottóinu.
Allt þetta hefur Þór. Prógrammið hefur verið til staðar í vetur og óhugnarlegur varnarleikur + ofurmannleg frammistaða Darrin Govens gera það að verkum að liðið er komið alla leið í úrslit. Reyndar má alls ekki gleyma því að hver einasti maður í Þórsliðinu lyfti leik sínum um þrep í rimmunni við KR - ekki bara Govens.
Ef Þór fær að halda áfram að spila sinn (varnar) leik í lokaúrslitum er ljóst að það verður mjög erfitt að eiga við þá, nánast ómögulegt eins og KR fékk að kynnast.
Talandi um KR. Íslandsmeistararnir eru dottnir úr leik. Þeir voru að okkar mati með hörkulið, en þurftu lengri tíma til að komast að því hverjir þeir væru. Þú verður að vita út á hvað liðið þitt gengur þegar þú ferð inn í svona stríð eins og á móti Þór.
KR-ingar munu væntanlega reyna að sleppa við að skipta um lið á miðjum vetri á næstu leiktíð og þá fara þeir lengra. Vonandi fær Hrafn að halda áfram að byggja upp í Vesturbænum. Hann á skilið prik fyrir auðmýkt og prúðmennsku sem hann sýndi eftir að hans menn féllu úr leik.
Efnisflokkar:
Heimabrugg
,
KR
,
Úrslitakeppni 2012
,
Þór Þorlákshöfn