Þór í Þorlákshöfn er í dag betra körfuboltalið en KR. Nýliðarnir geta tryggt sér sæti í úrslitaeinvíginu ef þeir klára KR á heimavelli í fjórða leiknum. Merkilegt staða sem hér er komin upp.
Varnarleikur Þórsara er stórkostlegur og baráttan og samheldnin í liðinu er engu lík. KR-ingar spila dálítið eins og þeir hafi kynnst í gær. Sóknarleikurinn er vandræðalegur og endar oftar en ekki á neyðarskoti frá Utanbæjar-Brown. Hann er kaldur og náði heldur ekki að gera liðsfélaga sína betri.
Darrin Govens er ekki kalt. Hann er meira svona sjóð-bullandi-heitur. Setjum hendur niður með síðum og útnefnum hann besta sóknarmann sem staddur er á Íslandi. Og hann kann líka að gefa boltann.
Tölurnar hans í einvíginu við KR:
27,6 stig, 8 fráköst, 6,3 stoðsendingar, 3,7 stolnir, 60% úr þristum og 35,7 í framlag.
Mögnuð frammistaða hjá þessum sérstaka leikmanni. Frábært að horfa á hann spila. Nú er KR búið að króa sig af úti í horni og það væri aumt að sjá liðið detta út án þess að slá svolítið frá sér. Við erum alltaf með sama óskalistann. Viljum bara fá sem flesta leiki í þetta.
Það er ljóst að Þór er fjórum sigrum frá því að gera eitthvað alveg sérstakt í körfuboltasögu þessa lands og það er frábært að fá að fylgjast með því lifandi og í beinni.