Friday, April 6, 2012

Framlengdur oddaleikur Star og Kef í Ásgarði í kvöld:


Einvígi Stjörnunnar og Keflavíkur í fyrstu umferð úrslitakeppninnar lauk í kvöld með naumum sigri Stjörnumanna eftir framlengdan oddaleik. Það er eiginlega grábölvað að þetta hafi aðeins verið þriggja leikja séría, svo skemmtileg var hún. Hefði verið hið besta mál að sjá tvo leiki í viðbót í þessum slag.

Auðvitað fór það svo að spáin okkar um Keflavíkursigur fauk út í veður og vind, en lærisveinar Sigurðar Ingimundarsonar voru mjög nálægt því að stela þessu. Mun nær en flestir spáðu. Eins og við minntumst á eftir fyrsta leik liðanna, er Stjarnan bara með fleiri góða leikmenn en Keflavík. Þar lá munurinn.

Nær allir sem spáðu í þessa seríu sögðu (af gömlum vana) að Magnús Þór Gunnarsson væri x-faktórinn í einvíginu. Ef hann hrykki í gang ætti Keflavík möguleika. Það kom líka á daginn. Magnús hitti illa í seríunni og var í strangri gæslu hjá besta manni einvígisins, Marvin Valdimarssyni.

Marvin spilaði eins og kóngur í leikjunum þremur og var með 20 stig að meðaltali. Hann hirti 6,3 fráköst og var með 60% skotnýtingu - 50% í þristum. Varnarleikur hans á Magnús Þór var algjört lykilatriði í seríunni.

Þið vitið að eftirfarandi setning er að koma og hér kemur hún:

Jarryd Cole hefði þurft að sjá meira af boltanum í sókninni. Hann er frábær sóknarmaður og það réði enginn neitt við hann hjá Stjörnunni þegar hann tók sig á.

25 stig, 12 fráköst, 2 varin og 65% skotnýting hjá Cole í einvíginu og eitthvað segir okkur að þessi piltur gæti fengið vinnu hér á landi á næstu leiktíð ef hann verður á lausu.

Eins og við sögðum var Stjarnan að fá sitt framlag úr fleiri áttum en Keflavík og það munaði miklu. Eitthvað af því ættu Keflvíkingar nú samt að geta lagað. Til dæmis fráköstin.

Vissir þú að tveggja metra mennirnir Halldór Halldórsson og Almar Guðbrandsson hirtu aðeins 14 fráköst samanlagt á 124 leikmínútum í einvíginu?

Til samanburðar má geta þess að bakvörðurinn Arnar Freyr Jónsson spilaði 12 mínútur í einvíginu og hirti á þeim 4 fráköst.

Þrátt fyrir hetjulega baráttu Keflavíkur er líklega heppilegra að Stjarnan fari áfram þar sem liði er með meiri breidd en Keflavík. Þar mætir Stjarnan öðru liði sem er með enn meiri breidd - Grindavík.

Það verður algjör veisla. Ekkert annað. En meira um það síðar. Við erum með skemmtilega spá þar líka.