Thursday, December 29, 2016

George Karl er frekar ómerkileg manneskja

Væntanleg bók* fyrrum NBA þjálfarans George Karl sem heitir því stutta og hnitmiðaða hafni Furious George: My Forty Years Surviving NBA Divas, Clueless GMs, and Poor Shot Selection hefur reynst fjölmiðlum sem fjalla um NBA deildina óþrjótandi fréttauppspretta undanfarna daga.

Það sem fjölmiðlum ytra þótti fyrst merkilegt við bókina hans Karl, nú eða það fyrsta bitastæða sem þeir fengu að lesa úr bókinni (hún er ekki komin út), voru miður falleg ummæli sem hann lét falla um Carmelo Anthony sem hann þjálfaði um árabil hjá Denver Nuggets. ´Melo var auðvitað ekki sá eini sem fékk að heyra það frá Carl í þessari stuttu úttekt úr bókinni, því sá gamli lét sér ekki muna um að henda mönnum eins og JR Smith og Kenyon Martin undir rútuna í leiðinni.Við gátum ekki stillt okkur um að glotta þegar við lásum þetta, því hvert einasta orð sem Karl lét hafa eftir sér um leikmennina - sérstaklega Carmelo Anthony - var dagsatt. Hafið hugfast að við erum hér að tala um ummæli Karl um ´Melo og félaga innan vallar, ekki persónu þeirra eða hagi utan vallar (þó þetta tvennt haldist vitanlega stundum í hendur).

Karl sagði sem var að Carmelo Anthony hugsaði bara um annan enda vallarins, væri eigingjarn leikmaður og svo það sem okkur hefur alla tíð þótt augljóst; hann er ekki tilbúinn til að leggja á sig þá vinnu sem til þarf til að verða leikmaður í hæsta gæðaflokki.

Þetta hefur ekki síst með það að Carmelo Anthony á að heita leiðtogi í sínum liðum af því hann fær borgað sem slíkur, en ef leiðtoginn og/eða hæstlaunaðasti leikmaðurinn í liðinu þínu er ekki tilbúinn til að spila vörn og leggja á sig þá vinnu sem til þarf til að fá það mesta út úr liði sínu - þá er enginn í liðinu að fara að gera það.Það sem okkur þótti hinsvegar miður við ummæli Karl var þegar hann fór að blanda persónulegum hlutum eins og því hvort leikmennirnir sem spiluðu undir hans stjórn á sínum tíma áttu feður eða höfðu jákvæðar/heppilegar föðurímyndir og fabúlera um hvort það væri atriðið sem stæði þeim fyrir þrifum sem leikmenn.

Auðvitað getur meira en vel verið að svona issjú skipti máli þegar kemur að kjarna leikmanna bæði sem manna og atvinnumanna og það getur líka vel verið að þetta sé allt saman rétt hjá George Karl, en þú ferð ekki að gaspra um svona lagað í bókinni þinni. Þetta eru hlutir sem eiga ekki að fara út úr búningsherberginu og þarna er því um trúnaðarbrest að ræða - Karl er þarna að brjóta óskráða reglu sem gildir í samskiptum leikmanna og þjálfara sem eiga að vera vopna- og fóstbræður.

Það sem stendur upp úr hvað Denver-hraun Karl varðar, er að okkar mati hvað Carmelo Anthony tók þroskaða afstöðu - háa veginn góða - þegar fjölmiðlar reyndu að fá hann til að hrauna til baka. Hann er kannski ekki mesti sigurvegari í heimi, hann Melo, en hann hefur þroskast gríðarlega síðan hann kom inn í deildina á sínum tíma.
En eins og þið sem fylgist með hafið lesið, virðist George hvergi nærri hættur, því nú síðast var hann byrjaður að hrauna yfir Damian Lillard hjá Portland!

Eins og búast mátti við, var Terry Stotts þjálfari Portland fljótur að gagnrýna George harðlega fyrir þessi leiðindi. Það er ekki nema von að Stotts hafi verið vonsvikinn, því hann bæði spilaði fyrir Karl á sínum tíma og var aðstoðarþjálfari hans um árabil bæði hjá Seattle Supersonics og Milwaukee Bucks.

Við höfum lesið fleiri en eina grein um George Karl í gegn um árin þar sem látið hefur verið í veðri vaka að hann sé ef til vill ekki besti karakter í heimi. Að hann hafi verið fremur leiðinlegur við leikmenn sína, tækifærissinaður og gjarn á að henda þeim undir rútuna.

Þessi bók hans sem er að koma út virðist renna stoðum undir þessar kenningar en við höfum reyndar líka lesið greinar um það að George sé ofmetinn þjálfari ofan á allt saman. Ef fólk vill fara í þá áttina, er svo sem hægt að benda á það hvað hann þjálfaði lengi í deildinni og hvað hann náði miklum árangri á þessum 30 árum sínum eða svo.

Karl var aldrei nálægt því að vinna meistaratitil á ferlinum, en hann var svo sem aldrei með nein ofurlið í höndunum, þó þau væru oftast ljómandi góð. Því eru menn ekki sammála um hvað hann á mikinn heiður skilinn fyrir árangur liðanna hans. Hann fór með Seattle í lokaúrslit gegn Chicago árið 1996, en þar átti liðið aldrei séns eftir að hafa lent 3-0 undir í einvíginu. Á myndinni hér fyrir ofan sérðu fjóra af lykilmönnum ´96 liðs Sonics. Frá vinstri: Gary Payton, Shawn Kemp, George Karl, Sam Perkins og Detlef Schrempf.

Karl fékk svo langþráða nafnbótina Þjálfari ársins eftir margra ára skak með Denver þegar það náði að vinna 57 leiki árið 2012, en  það var engin innistæða fyrir þeim árangri frekar en venjulega - Denver liðið hans datt nánast alltaf út í fyrstu umferð úrslitakeppninnar.

Það er svo sem óþarfi fyrir okkur að vera að velta okkur upp úr þessu bulli í George Karl, en það eina sem okkur langar að segja er að okkur þykir það eiginlega með ólíkindum að maður eins og Karl skuli láta svona ómerkilegheit út úr sér á prenti - maður kominn á þennan aldur - og verandi nýbúinn að hafa betur í baráttunni við krabbamein og allar græjur! Nei, best að gefa þá bara út bók og drulla yfir allt og alla sem maður hefur unnið með um ævina! Því ekki það!

Það sem Karl er að láta hafa á eftir sér á prenti í þessari bók sinni er ómerkilegt og ber vott um biturð, tvöfeldni og öðru fremur óhemju lélegan karakter. Við áttum okkur á því að menn verða að segja eitthvað ef þeir ætla sér að selja bækur, en þarna fer Karl yfir strikið og þó við séum sammála honum með margt af því sem hann segir, á margt af því ekkert erindi á prent.

George Karl er augljóslega ekkert sérstaklega merkilegur karakter og hann er svo sem ekki eini sigursæli þjálfarinn í sögu NBA sem virðist vera skítakarakter.

Það fer vel á því að hann skuli sitja í 5. sæti listans aðeins þremur sætum eða svo fyrir ofan annan skítakarakter, Larry "á ég að lána þér húfu og vettlinga til að hafa meðan þú liggur þarna undir rútunni sem ég er að fara að henda þér fyrir á meðan ég fer í viðræður um að þjálfa annað félag þegar ég er með lið í miðri úrslitakeppni" Brown.

Já, það eru sauðir í þjálfarastéttinni eins og öðrum, þó við viljum auðvitað öll halda að þjálfarar séu snillingar upp til hópa eins og Gregg Popovich.

---------------------------------------------------------------------------------------------------------

* - Lesendur NBA Ísland eru svo heppnir að fá sník pík á báðar bókarkápurnar sem hannaðar voru fyrir nýju bókina hans George Karl hér í þessari færslu. Það var lítið.