Sigur Cleveland á Golden State í jólaleiknum um daginn og áhugaverð þróun í spilamennsku lykilmanna liðsins varð til þess að nú höfum við óvart skrifað smá skýrslu um stöðu mála hjá meisturunum á síðasta degi ársins 2016. Ykkur er velkomið að renna yfir hana, hún er meira að segja stutt, svona á miðað við það sem gengur og gerist á þessu vefsvæði.
Ef við skellum Cleveland í gegn um vandamálagreiningarskannann, dúkka fáar niðurstöður upp. Eina vandamálið í herbúðum Cleveland þessa dagana er að (nothæfra) leikmannahópurinn er of fámennur, sérstaklega í ljósi meiðsla JR Smith, sem mætir ekki til vinnu á ný fyrr en lóan kemur.
Þetta er svo sem ekki vandamál í sjálfu sér, því það er ekki eins og Cleveland sé að fá mikla samkeppni í deildarkeppninni í austrinu. Eina liðið sem ógnar meisturunum í keppninni um efsta sætið eystra er Toronto og þó Kanadaliðið sé að spila vel, er Cleveland ekkert hrætt við það - hvort sem það verður með heimavöll eða ekki þegar í úrslitakeppnina er komið.
Nei, það eina neikvæða við það að lykilmenn Cleveland séu að spila of margar mínútur í vetur er að LeBron James sé að spila of margar mínútur. Við erum búin að tuða um það í allan vetur, að of mikið álag á James er ekki smámál, heldur lögreglumál.
James varð 32 ára í gær og eftir um það bil tíu leiki, verður hann 33. maðurinn í sögu NBA til að spila 40.000 mínútur í deildarkeppninni. Þá eru ótaldar 8.383 mínúturnar sem hann hefur spilað í úrslitakeppni á ferlinum og til að gefa ykkur hugmynd um hvað það er stór viðbót við þessar 40.000, má geta þess að aðeins Kobe Bryant, Kareem Abdul-Jabbar og Tim Duncan hafa spilað fleiri mínútur en James í úrslitakeppni í sögu NBA. Hentu inn í þetta tæpum 2.500 mínútunum hans á undirbúningstímabilum og við erum komin vel yfir 50.000 mínútur að ótöldu landsliðsskaki.
LeBron James er einhver blanda af ofurmenni, geimveru, hálfguði og sæborg. Það er það eina sem útskýrir hvernig í ósköpunum skrokkurinn á manninum hefur staðið undir öllu þessu álagi án þess að meiðast nokkru sinni alvarlega.
En svona ef við tölum aðeins í alvöru, er frábært heilsufar LeBron James á körfuboltaferlinum álíka einstakt og lottóvinningur. Líkurnar á að atvinnumaður í deild með jafn miklu álagi og NBA meiðist ekki alvarlega á þrettán og hálfu ári og fimmtíu þúsund mínútum eru álíka góðar og að Jón Viðar Jónsson vakni í svo góðu skapi tvo daga í röð að hann ákveði að sleppa því að drekkja kettlingum í heila viku.
Þið sjáið að þetta mínútumál hans LeBron James liggur þungt á okkur, en það er ekki af ástæðulausu. Cleveland kemur til með að halda áfram að gefa James leik og leik í frí (liðið er búið að tapa öllum leikjunum sem hann hefur sleppt í vetur) en þó það sé hið besta mál, vegur það ekki upp á móti öllum þessum 40 mínútna leikjum hans að undanförnu.
Annað sem vekur athygli okkar hjá Cavs í vetur, fyrir utan mínúturnar hans James og þá staðreynd að hann er líka að spila eins og höfðingi eins og hann er vanur (t.d. búinn að laga 3ja stiga nýtinguna sína til muna, sem er ómetanleg staðreynd fyrir hann), er hvað þeir Kyrie Irving og Kevin Love eru líka búnir að vera flottir í vetur.
Kevin Love er hreinlega allt annar maður en hann var í fyrra, þegar meiðsli, taktleysi og andlegur núningur gerðu honum lífið ansi hreint leitt. Nú er hann hinsvegar búinn að fara með liðinu alla leið í úrslitakeppninni og finna sína rullu og sinn takt með liðinu sem gerir það að verkum að lífið er í alla staði léttara hjá honum.
Þetta skilar sér beint á tölfræðiskýrsluna eins og þið sjáið og þó hann sé aldrei að fara að taka einhver 25/15 tímabil með þessu Cleveland-liði, er lykiltölfræðin hans búin að taka áberandi kipp í vetur. Þar munar mestu um næstum fimm tikk upp á við í 3ja stiga nýtingunni og hvorki meira né minna en sex stiga bætingu að meðaltali í leik, sem er meira en umtalsvert.
Sömu sögu er að segja af Kyrie Irving. Það hefur ekki borið mikið á honum í vetur ef hetjukarfan hans í jólaleiknum gegn Warriors er undanskilin, en leikstjórnandinn knái er líka búinn að bæta sig helling í tölfræðinni og er að eiga sitt besta tímabil á ferlinum í stórum þáttum eins og stigum og skotnýtingu og er líka að hóta því að bæta sinn besta árangur í stoðsendingum, sem að okkar mati yrði mjög áhugavert.
Við komumst nefnilega að því fyrir tilviljun þegar við fórum að skoða tölfræðina hans Irving í dag, að hann er allt í einu farinn að gefa boltann eins og hann fái borgað fyrir það.
Vitið þið hvað Kyrie Irving átti marga 10+ stoðsendinga leiki á síðustu leiktíð? O.k. við skulum bara segja ykkur það. Hann gaf ekki einu sinni tíu stoðsendingar eða meira á síðustu leiktíð - hvorki í deild né úrslitakeppni. Ekki einu sinni! Það getur vel verið að hann sé meiri skorari en leikstjórnandi, en þetta á ekki að þekkjast.
Og hann byrjaði þessa leiktíð með svipuðum hætti. Hann gaf aðeins einu sinni 10 stoðsendingar í október og nóvember, en núna í desember eru stórfurðulegir hlutir að eiga sér stað.
Allt í einu er Kyrie Irving búinn að gefa tíu stoðsendingar eða meira í fimm af síðustu sjö leikjum Cleveland! Þar af 13 stoðsendinga leik gegn Milwaukee, sem var met hjá honum á ferlinum. Ja, batnandi mönnum og allt það...
Allt í einu er Kyrie Irving búinn að gefa tíu stoðsendingar eða meira í fimm af síðustu sjö leikjum Cleveland! Þar af 13 stoðsendinga leik gegn Milwaukee, sem var met hjá honum á ferlinum. Ja, batnandi mönnum og allt það...
Þetta voru nokkur orð um meistara Cleveland Cavaliers* og stöðu mála hjá þeim. Sigur liðsins á Warriors á jóladag sýnir að liðið er til alls líklegt í sumar ef það heldur heilsu og meira en það.
Eins og staðan er í dag, er Cleveland nefnilega komið í stöðu sem það hefur aldrei nokkru sinni lent í áður í sögu félagsins. Cleveland er sigurstranglegasta liðið í baráttunni um meistaratitilinn í NBA deildinni árið 2017.
Eins og staðan er í dag, er Cleveland nefnilega komið í stöðu sem það hefur aldrei nokkru sinni lent í áður í sögu félagsins. Cleveland er sigurstranglegasta liðið í baráttunni um meistaratitilinn í NBA deildinni árið 2017.
Þú getur dundað þér við að hugsa um þetta það sem eftir lifir af árinu 2016 - einu furðulegasta boltaíþróttaári allra tíma.
Ári Íslands, Leicester City og Cleveland Cavaliers.
------------------------------------------------------------------------------------------------------
Ári Íslands, Leicester City og Cleveland Cavaliers.
------------------------------------------------------------------------------------------------------
* - Það hættir aldrei að vera súrrealískt að tala um lið frá Cleveland sem meistara í einhverju.