Friday, January 6, 2017

NBA Ísland ræðst á fílinn í herberginu


NBA Ísland hefur alltaf lagt mikið upp úr því að vera vefur sem segir sannleikann og þess vegna ætlum við nú að taka okkur til og ráðast á fílinn sem er búinn að vera í herberginu okkar í nokkurn tíma. Það stríðir beint gegn hagsmunum okkar að tala illa um NBA deildina okkar, en nú neyðumst við til að gera það, úr því við vorum svo vitlaus að gefa okkur út fyrir að skrifa heiðarlega. 

Það sem við þurfum að segja ykkur er svo sem ekki ný tíðindi, en við höfum aldrei komið fram og sagt þetta berum orðum - og áttum satt best að segja alls ekki von á því að upplifa þessa stöðu mála. En við komumst ekki hjá því að þegja yfir þessu lengur:

NBA deildin er eiginlega dálítið mikið drasl núna.

Það er bein móðgun við körfuboltaguðina að láta svona út úr sér, en þetta er staðreynd, gott fólk, því miður. Þessi staða hefur komið dálítið eins of skrattinn úr sauðaleggnum, því það er stutt síðan að deildin var mjög heilbrigð. Erum við að nota stór orð þegar við köllum deildina drasl? Já, ef til vill, en það eru bara svo mikil viðbrigði að vakna allt í einu upp við það að það er eins og góðu liðin hafi horfið úr deildinni. Ef þið trúið þessu neikvæðnitali okkar ekki, getum við vitnað í Charles Barkley, sem hafði þetta að segja um stöðu mála um daginn:


Skip Bayless, annar dásamlega jákvæður og vel liðinn sjónvarpsmaður, tók í sama streng fyrir nokkrum dögum þó hann hafi reyndar meira verið að gagnrýna Austurdeildina (sem er að sjálfssögðu mjög jákvætt) en NBA deildina í heild. Hann sagði:

"Ég  er búinn að fjalla um NBA deildina síðan ég var á L.A. Times á áttunda áratugnum og ég man aldrei eftir að hafa séð Austurdeildina svona lélega. Austrið er hreint út sagt átakanlega lélegt núna."

Austurdeildin er reyndar búin að vera rusl í mörg ár eins og við höfum sagt ykkur reglulega, en nú hefur það gerst sem við sáum ekki fyrir að myndi gerast - amk ekki svona snögglega - Vesturdeildin er orðin rusl líka. Bara sí svona! Það sem er hinsvegar ótrúlegra en hrun Vesturdeildarinnar, er að þó megnið af liðunum í NBA séu orðin rusl, hefur skemmtanagildi deildarinnar hreint ekki dalað. Þið trúið því kannski ekki, en það er samt staðreynd og hún kemur til af því að þó liðin í deildinni séu á þessum tímamótum eða í þessu millibilsástandi, er hún pakkfull af stórkostlegum körfuboltamönnum. 

Þetta hljómar mótsagnarkennt en þetta er alveg satt. Við erum ekki viss um að við munum eftir öðru eins framboði af frábærum leikmönnum í deildinni, sérstaklega mönnum sem eru jafnvel að gera hluti sem við höfum aldrei séð áður (t.d. geimverur eins og Russell Westbrook).


Með örfáum undantekningum er þessum stórkostlegu leikmönnum dreift það vel um deildina að þeir einir og sér eru ekki nóg til að búa til sterk körfuboltalið. Það er ekki fyrr en þeir fara að safnast óeðlilega mikið saman sem við förum að sjá almennileg körfuboltalið - og þau eru sko alvöru. Þar erum við að tala um lið eins og Golden State og Cleveland - lið sem væru samkeppnishæf á móti hvaða meistaraliðum sögunnar í sjö leikja seríu.

Við erum að hugsa um að gera öllum þessum frábæru leikmönnum betur skil í sérstakri færslu síðar, en ef við skoðum vandamálið með lélegu liðin nánar, má sjá að það er hægt að skipta liðunum í NBA deildinni niður í fjóra flokka: Meistara og meistaraefni, lið sem eru bleh og lið sem eru drasl. Smelltu á myndina til að stækka og gera.



Þegar rýnt er í þetta hávísindalega flokkunarkerfi okkar kemur í ljós að ástæðan fyrir veikingu deildarinnar í heild er katastrófískt brottfall úr flokki tvö niður í flokk þrjú. Það má vel vera að einhver ykkar séu ósammála því hvernig við drögum liðin í dilka en þessari skoðun er ekki ætlað að vera nákvæm upp á millimetra. Hún er svo við getum áttað okkur á stöðu mála. Því skuluð þið ekki fara að grenja þó liðið ykkar lendi í flokki þrjú en ekki tvö, eins og mörg ykkar eiga þó klárlega eftir að gera.

Myndin sýnir svo hvergi verður um villst að það er allt of mikið af liðum í NBA deildinni sem geta ekki crap og það er mjög miður. Það er líka hluti af útskýringunni á bak við hluti eins og enn eitt metið sem Golden State var að setja á dögunum, þegar það varð fyrsta liðið í sögunni til að vinna 30 af fyrstu 35 leikjum sínum í deildarkeppninni þrjú ár í röð. Þú ert ekkert að spila við San Antonio á hverjum degi í NBA í dag, sérstaklega ef þú ert að spila í austrinu. Sjáið til dæmis endasprettinn hjá Toronto Raptors í deildarkeppninni í vor? Þetta er bara grín.



Við höfum alltaf sagt það þegar við tölum um Austurdeildina sérstaklega að við verðum að hafa hugfast að einhver af þessum liðum verða að vinna þessa leiki og því ber að fara varlega í að ætla að t.d. þessi miðlungslið í austrinu séu eitthvað góð. Staðreyndin er nefnilega sú að þau geta ekki rassgat og hafa ekki getað í mörg ár. Sjáið bara hvað LeBron James með sín ljómandi góðu Cleveland og Miami-lið hefur átt í gríðarlegum erfiðleikum með að komast í lokaúrslit, eða hitt þó heldur.

Eins og áður sagði, er ástandið heldur farið að grána núna af því að Vesturdeildin er orðin litlu skárri en systir hennar í austri, sem er staðreynd sem fer alveg óstjórnlega í egóið á okkur, yfirlýstum einræðisherrum Vesturdeildarinnar til margra ára.

Þetta er skítaástand akkúrat núna, en þó við séum ekki þekkt fyrir bjartsýni, sjáum við bjartari tíma framundan. Það er nefnilega þannig að mjög mörg af þessum drasl- og bleh-liðum sem við töldum upp hér að ofan eru með ung og efnileg lið sem eiga eftir að láta finna fyrir sér áður en langt um líður. 


Þessi vitneskja, ofan á þá staðreynd að það er enn ógeðslega gaman að horfa á fjölda einstaklinga spila í NBA deildinni þó liðin þeirra séu í flestum tilvikum bleh eða verri, gerir það að verkum að við erum langt frá því að ætla að missa vonina eða fara í eitthvað þunglyndi.

NBA deildin mun skoppa til baka, eins og sagt er, og þangað til hún gerir það með stæl, getum við öll skemmt okkur konunglega við að horfa þennan aragrúa af framúrskarandi leikmönnum sem eru að leika listir sínar í deildinni þessa dagana.

Þessum mönnum verða gerð skil í öðrum og öllu jákvæðari pistli sem dettur inn fljótlega. Við verðum að lofa því svo við skiljum ykkur ekki eftir í einhverjum drullupolli örvæntingar og þunglyndis. Það er fullt af liðum í NBA deildinni sem eru á þröskuldi þess að verða góð. Einhver þeirra eiga eftir að gera í buxurnar, sum hver einfaldlega af því það er það sem þau gera, en nokkur þeirra eiga eftir að verða hrikaleg og sjá til þess að við eigum eftir að hlæja að þessari niðursveiflu í upphafi næsta áratugar.