Tuesday, January 10, 2017
Af Chauncey og Carlisle
Karl-Anthony Towns, eða Borgþór eins og við hérna á ritstjórninni köllum hann stundum, skoraði 20 stig (8 af 9 í skotum) fyrir Úlfana sína í fyrsta leikhluta í botnslag Minnesota og Dallas í nótt.
Hann ku þegar hafa afrekað að skora 22 stig í einum leikhluta fyrr í vetur og því er ljóst að pilturinn gerir harða atlögu að félagsmeti Úlfanna yfir stig í einum leikhluta.
Það vill svo skemmtilega og ólíklega til að það er enginn annar en Chauncey Billups sem á þetta met hjá Úlfunum. Það vildi til með þeim hætti að Billups tók sig til og sallaði 24 stigum, einmitt á Dallas, í þriðja leikhluta í stórsigri Úlfanna þann 19. febrúar árið 2002.
Myndin hér til hliðar er tekin þar sem Chauncey er að skora tvö af stigum sínum í þessum þriðja leikhluta, merkilegt nokk.
Billups skoraði reyndar ekki nema 36 stig í leiknum, sem var það langmesta sem hann skoraði í leik þetta árið. Hann skoraði raunar ekki nema þrisvar sinnum meira en 24 stig í heilum leik nema þrisvar fyrir utan umræddan leik leiktíðina 2001-02.
Þetta var annað og jafnframt síðasta tímabilið sem Billups spilaði með Úlfunum og þó Flip heitinn Saunders hafi haft miklar mætur á Billups sem leikmanni þá, eftir því sem sagan segir, heillaði hann þjálfarann sinn þó ekki nógu mikið til að fá að vera um kyrrt í Minnesota.
Rétt eins og í Boston, Toronto og Denver þar á undan, þurfti nú 25 ára gamall Billups að pakka saman og skipta um lið enn einn ganginn, en að þessu sinni lá leið hans til Detroit.
Í Bílaborginni, kom Billups inn í lið sem Rick Carlisle hafði tekið við árið áður og komið frá 32 sigrum upp í 50 sigra eins og honum einum var og er lagið.
Carlisle rétti Billups feginshendi leikstjórnartaumana að liði sínu fyrir leiktíðina 2003, því sveppir eins og Chucky Atkins, Dana Barros og Jon Barry höfðu ekki beinlínis farið á kostum í því hlutverki árið áður þó ágætis árangur næðist.
Það segir sína sögu að skotbakvörðurinn og stigahæsti maður liðsins, Jerry Stackhouse, skuli hafa verið stoðsendingahæsti maður liðsins leiktíðina 2002 með 5,3 stykki í leik.
Chucky Atkins og Jon Barry komu næstir, með 3,3 stoðsendingar að meðaltali í leik, sem er ekki beint glansinn. Hugsið ykkur bara; miðherjinn Ben Wallace var með fleiri varin skot að meðaltali í leik (3,5) en þeir höfðu stoðsendingar!
Metnaðurinn var svo rosalegur hjá Detroit-mönnum á þessum tíma, að eftir að Rick Carlisle hafði rifið liðið upp úr drullunni og þjálfað það til fimmtíu sigra, var hann rekinn eftir aðra leiktíð sína með liðið af því það náði ekki að gera betur en að jafna þann árangur árið eftir.
Þessi brottrekstur situr alltaf í okkur, því Carlisle var kjörinn þjálfari ársins á fyrra árinu sínu hjá Pistons af því hann þótti hafa búið til þetta ljómandi fína kjúklingasalat úr litlu öðru en kjúklingaskít sem fyrir var hjá félaginu.
Það eina sem getur afsakað að reka mann eins og Carlisle undir þessum kringumstæðum, var að eftirmaður hans næði að gera betur - og þá helst enn betur. Og þó maðurinn sem tæki við væri afskaplega leiðinlegur karakter, náði helvítið á honum að gera einmitt það.
Eins og mörg ykkar muna, náði jú Larry Brown að gera Detroit-liðið 2004 að meisturum á sínu fyrsta ári með liðið og fór með það í lokaúrslit aftur árið eftir þar sem það tapaði fyrir San Antonio í ótrúlegri seríu.
Þetta var einvígi þar sem boltaskopp til eða frá (eða heilaprump eins og að dekka ekki eina frægustu ögurstundarlangskyttu í sögu NBA deildarinnar eftir að hún er búin að taka innkast*) réði því að Detroit þurfti að sætta sig við tap í það skiptið.
Það breytti því ekki að Pistons-liðið fagnaði mjög svo óvæntum meistaratitli árið 2004 með því að leggja ofurlið Los Angeles Lakers mjög örugglega í lokaúrslitum, 4-1.
Aðeins tveimur árum eftir að enginn virtist finna not fyrir hann, var Chauncey Billups kjörinn verðmætasti leikmaður lokaúrslitanna árið 2004 þar sem hann skilaði 21 stigi, 5 stoðsendingum og 3 fráköstum að meðaltali í leikjunum fimm. Hann skaut líka 51% utan af velli, 47% í þristum og 93% af línunni, auk þess sem hann tapaði aðeins 13 boltum í úrslitaeinvíginu og batt saman leik þessa agaða sóknar- og frábæra varnarliðs sem Detroit var á þessum tíma.
Rick Carlisle lét ekki brottreksturinn frá Detroit hafa áhrif á sig og tók við Indiana Pacers strax leiktíðina 2003-04 og rétt eins og Detroit gerði undir hans stjórn áður, tók Indiana stórt stökk undir hans stjórn og vann hvorki meira né minna en 61 leik á fyrsta árinu hans.
Því miður fyrir Carlisle varð hann að bíta í það súra epli að tapa fyrir Detroit-liðinu hans Larry Brown í úrslitaeinvígi Austurdeildarinnar, en það reyndist svo aðeins byrjunin á ógæfu hans hjá félaginu.
Detroit reyndist Carlisle hinn versti albatrosi, því eins og kunnugir vita var það þar sem slagsmálin frægu milli Pacers og Pistons lögðu grunninn að því að eyðileggja allt fyrir þessu efnilega Indiana-liði, sem af ýmsum ástæðum náði aldrei að sýna almennilega hvað í því bjó.
Það var ekki vegna þess að hæfileikana vantaði - af þeim var nóg - það var bara stór skortur á einhverju sem við skulum kalla skapgerðartrefjum.
Rick Carlisle þótti alltaf einn besti þjálfari NBA deildarinnar og þykir enn, en það var ekki fyrr en árið 2011 sem hann náði endanlega að sanna sig fyrir neikvæðustu mönnum þegar hann gerði Dallas-liðið sitt að NBA meistara með því að vinna sigur á Sólstrandargæjunum frá Miami í lokaúrslitum.
Það var öðrum fremur Dirk Nowitzki sem dró vagninn fyrir Dallas á leið þess að titlinum árið 2011, en til gamans má geta þess að í þessu Dallas-liði var einn leikmaður sem Carlisle hafði í sínum röðum á fyrra árinu sínu með Detroit 2002.
Ef þú manst ekki hver það var, geturðu fundið svarið neðst í þessari færslu. Eigum við ekki að kalla þetta trivíu vikunnar eða eitthvað....
Þó meistaratitlarnir séu enn aðeins í eintölu hjá Rick Carlisle líkt og hjá Chauncey Billups, hefur hann jafnan náð ljómandi fínum árangri með liðum sínum, ekki síst í deildarkeppninni. Carlisle hefur reyndar ekki unnið einvígi í úrslitakeppninni síðan Dallas lagði Miami í lokaúrslitaeinvíginu 2011, en hann hefur heldur ekki haft úr miklu að moða hjá Mavericks síðan.
Það hefur gengið afleitlega að safna liði í kring um Dirk til að gefa honum sénsinn á einu titilkapphlaupi í viðbót og nú er útséð með það að hvort sem Þjóðverjinn hættir á þessu ári eða næsta, verður hann að láta sér þennan eina titil nægja á glæstum ferlinum.
Vandræðagangurinn á Dallas í vetur þýðir að útlit er fyrir að Carlisle muni þurfa að bíta í það súra epli aðeins í annað skiptið á ferlinum sem aðalþjálfari að ná ekki að vinna helming leikja sinna eða fleiri.
Það er búið að vera dálítið sorglegt að horfa upp á þá félaga Dirk og Carlisle það sem af er í vetur, því eins og sé ekki nóg að liðið sem þeir eru með í höndunum sé bara ekki nógu gott, hefur það líka verið hundóheppið með meiðsli líka. Svona rekur oft eitt annað í þessari blessuðu deild okkar.
Þeir Dirk og Carlisle vita báðir að þessum áfanga ferðalagsins er lokið og tími til kominn að róa á ný mið. Dirk mun væntanlega reyna fyrir sér sem uppistandari eða jafnvel freista þess að feta í fótspor Hoff-vélarinnar á leiklistarbrautinni, en Carlisle fer vonandi að fá samkeppnishæft lið upp í hendurnar á ný eftir fremur mögur ár að undanförnu.
Carlisle er allt of góður þjálfari til að vera að hjakka í einhverri meðalmennsku eða þaðan af verra. Hann var ungur maður þegar hann byrjaði að þjálfa, var orðinn tvífari Jim Carrey þegar hann vann titilinn, en í dag lítur hann bara út eins og þreytt og lúin amma hans Jim Carrey, ef við gefum okkur að hún hafi dabblað aðeins í krakkinu, svona á virkum dögum og um helgar.
Þetta er búinn að vera alveg dásamlegur sveimhuga pistill, varla um nokkurn skapaðan hlut, en það er hressandi að spóla annað slagið til baka og rifja upp gamla tíma. Við vonum að þið hafið jafn gaman af því og við.
--------------------------------------------------------------------------------------------------------
Leikmaðurinn sem við vorum að tala um að hefði spilað fyrir Rick Carlisle hjá Detroit árið 2002 og aftur hjá Dallas árið 2011 var miðherjinn lipri Brian Cardinal, sem á myndinni hér til hægri hótar að henda meistarabikarnum í gólfið í ofbeldisfullum fagnaðarlátunum 2011.
Sá stóri var vitanlega ekki að spila stóra rullu hjá honum, hvorki árið 2002 né 2011, en þó er gaman að segja frá því að hann skoraði 7 af 10 stigum sínum í úrslitakeppninni árið 2011 í lokaúrslitaeinvíginu gegn Miami.
Cardinal tók ekki eitt tveggja stiga skot alla úrslitakeppnina, en setti 3 af 4 3ja stiga skotum sínum í úrslitakeppninni ofan í - tvo þrista og eitt víti skoraði hann í lokaúrslitunum og fékk þennan fína meistarahring að launum.
* - Hér erum við að vísa í heilaprumpið hjá Rasheed Wallace hjá Detroit þegar hann ákvað að skilja Robert Horry eftir gaaalopinn (með því að hlaupa í óþarflega dramatíska tvöföldun á Ginobili niður í horninu) eftir að hann tók innkast á ögurstundu fyrir San Antonio í fimmta leik Spurs og Pistons í lokaúrslitunum árið 2005.
Horry kastaði boltanum inn á síðhærðan Manu Ginobili, sem kastaði boltanum aftur út á Stórskota-Stebba, sem jarðaði þrist og tryggði Spurs 3-2 forystu fyrir tvo síðustu leikina í San Antonio. Okkur eru enn minnistæð viðbrögð Benedikts Guðmundssonar þjálfara sem lýsti leiknum á Sýn sálugu, en hann fékk hálfgert flogakast í beinni yfir ákvörðun Rasheew Wallace að falla af manni sem þá þegar var búinn að tryggja sér orðspor sem ein magnaðasta ögurstundarstórskytta í sögu úrslitakeppni NBA deildarinnar.
Spurs tapaði sjötta leiknum en náði að klára þann sjöunda og tryggja sér titilinn. Þarna var Horry að vinna sjötta meistaratitilinn sinn á ferlinum og átti eftir að bæta einum í viðbót í safnið með Spurs tveimur árum síðar. Hér fyrir neðan geturðu rifjað upp hetjudáð Horry í umræddum leik.
Efnisflokkar:
Á ögurstundu
,
Chauncey Billups
,
Fret úr fortíðinni
,
Metabækurnar
,
NBA 101
,
Pacers
,
Pistons
,
Rick Carlisle
,
Robert Horry
,
Stórskota Stebbi
,
Timberwolves