Sunday, March 27, 2011

Vangaveltur um verðmætasta leikmann ársins



Stan Van Gundy, þjálfari Orlando Magic, olli nokkru fjaðrafoki um daginn þegar hann hélt því fram að fjölmiðlar væru þegar búnir að ákveða að Derrick Rose hjá Chicago yrði valinn verðmætasti leikmaður deildarinnar í vor.

Það er nokkuð til í þessu hjá Van Gundy, miðlarnir eru búnir að hampa Rose mikið í vetur, en málið er bara að drengurinn hefur unnið til þess. Hann hefur verið límið í þessu Chicago liði sem virðist komið til að vera meðal þeirra bestu í deildinni. Bæði Carlos Boozer og Joakim Noah misstu úr marga leiki í vetur en liðið missti ekki dampinn, þökk sé hinum unga leikstjórnanda.

Við skrifum líka mikið af velgengni Bulls á Tom Thibodeau þjálfara. Hann hefur heldur betur staðið sig vel á sínu fyrsta ári sem aðalþjálfari. Hann er maðurinn á bak við varnarleikinn sem tryggði Boston Celtics titilinn 2008 eins og flestir vita, en það er alls ekki gefið að aðstoðarþjálfari geti tekið þetta stökk. Hann vissi hvað hann var að gera þegar hann réði sig til Bulls. Þar var góður efniviður, sigurhefð og stór markaður.

Það er dálítið skrítið að standa frammi fyrir því að svona ungur leikmaður eins og Rose skuli koma svona sterklega til greina sem verðmætasti leikmaður ársins, en hann á bara skilið að vera í þessum pakka. Þú getur mótmælt því eins og þú vilt, það hlustar enginn á þig.

Hver ætti annars að fá þennan eftirsótta titil ef það er ekki Rose?

Þið vitið hvernig staðið er að valinu. Til að gera langa sögu stutta er sá maður valinn MVP sem stendur hvað mest upp úr hjá einu af liðunum sem eru að vinna í kring um 60 leiki. Þannig hefur þetta verið undanfarin ár og það breytist ekki í vor.

Fjölmiðlamenn reyna alltaf að koma einum og einum leikmanni frá miðlungsliði inn í umræðuna, en það er bara staðreynd að verðmætasti leikmaðurinn kemur frá einu af toppliðunum.

Ef þetta er haft að leiðarljósi, er ekki erfitt að rúlla yfir listann og skoða hverjir hafa staðið sig best hjá toppliðunum í deildinni og hvort þeir koma til greina sem MVP ef tekið er mið af valinu síðustu ár.

1. San Antonio - Enginn sem skarar fram úr. Of mikið lið.

2. Chicago - Derrick Rose er yfirburðamaður hjá spútnikliði vetrarins eins og komið hefur fram

3. LA Lakers - Ekki séns. Gasol ekki með nógu góðar tölur og Kobe með lægsta stigaskor sitt síðan ´04 og fæstar mínútur síðan árið 1998.

4. Boston - Sjá San Antonio. Rondo er besti maður liðsins í deildakeppninni, en hann hefur misst dampinn eftir rosalega byrjun. Kevin Garnett er búinn að líkjast 2008 útgáfunni af sér, en skilar ekki nógu góðum tölum.

5. Dallas - Dirk Nowitzki hefur spilað mjög vel í vetur, en missti úr nokkra leiki vegna meiðsla og er að spila fæstar mínútur síðan á nýliðaárinu sínu. Hann er samt að setja persónulegt met í skotnýtingu. Dirk fær einhver atkvæði en fær styttuna aldrei aftur, kannski sem betur fer fyrir hann.

6. Miami - Auðvitað hafa LeBron James og Dwyane Wade verið góðir eins og venjulega. James fær slatta af atkvæðum í MVP valinu og á þau alveg skilið. Hann er nú einu sinni besti körfuboltamaður í heimi frá október til maí. Samt erfitt að sjá hann hirða styttuna þriðja árið í röð, sérstaklega ef Chicago endar fyrir ofan Miami. Það er erfitt að fá MVP atkvæði ef þú ert ein af tveimur og hálfri ofurstjörnu í sama liðinu.

7. Oklahoma - Kevin Durant hefur ekki verið eins góður í vetur og hann var í fyrra. Fleiri tala hreinlega um Russell Westbrook sem MVP kandídat en Durant. Westbrook er búinn að vera rosalegur í vetur, en styttan fer ekki til Oklahoma þó þeir fóstbræður fái eflaust einhver atkvæði. Þeirra tími er ekki kominn enn.

8. Orlando - Dwight Howard hefur verið að spila nokkuð vel í vetur. Við verðum bara að gefa honum það. Orlando hefur hinsvegar veikst og er ekki lengur elítulið í Austurdeildinni. Howard mun fá slatta af atkvæðum í vor, en liðið hans er sem stendur með áttunda besta árangurinn í deildinni og það vinnur gegn honum.

Þegar við lítum yfir þennan lista, blasir tvennt við okkur. Annars vegar að kjörið á verðmætasta manni ársins verður ekki eins afgerandi og það hefur verið undanfarin ár og hinsvegar að það er rosalega erfitt að veðja á móti Derrick Rose.

Það var bara skrum þegar menn voru að tala um hann sem MVP kandídat framan af vetri, en í dag er það bara ofureðlilegt. Það skemmir heldur ekki fyrir honum að vera að vinna hvern leikinn á fætur öðrum fyrir Chicago að undanförnu.

Ef Chicago heldur dampi þessa c.a. 10 leiki sem eftir eru, yrðum við mjög hissa ef gengið yrði fram hjá Rose og þannig virðist landið liggja núna.