Monday, March 28, 2011
NBA Ísland spáir í þjálfaramálin:
Valið á þjálfara ársins í NBA deildinni er á margan hátt kjánalegra fyrirbæri en valið á verðmætasta leikmanni ársins. Hefð hefur myndast fyrir því undanfarin ár að þjálfari ársins sé sá maður sem nær að gera sæmilega hluti með skítalið, góða hluti með sæmilegt lið eða frábæra hluti með ágætt lið. Þannig er lítil hætta á því að Phil Jackson og Doc Rivers fái mikið af atkvæðum frekar en venjulega.
Það eru sjaldnast bestu þjálfararnir í deildinni sem hljóta þessi verðlaun, oftar eru það menn sem ná spútnikárangri yfir eitt eða tvö tímabil með lið sem spila yfir getu. Ári eða tveimur eftir að þjálfarinn fær verðlaunin, brennur hann upp í starfinu af því liðið hættir að spila yfir getu og er rekinn. Dæmin sem sanna þetta eru ótrúlega mörg undanfarin ár.
Það er því eins gott fyrir Scott Brooks að hann komi Oklahoma langt i annari umferð úrslitakeppninnar í vor og helst lengra, því eins og fordæmin sýna hafa menn ekki beinlínis verið langlífir eftir að hafa hlotið nafnbótina þjálfari ársins.
2009-10 Scott Brooks Oklahoma City ?
2008-09 Mike Brown Cleveland Rekinn
2007-08 Byron Scott New Orleans Rekinn
2006-07 Sam Mitchell Toronto Rekinn
2005-06 Avery Johnson Dallas Rekinn
2004-05 Mike D'Antoni Phoenix Fékk ekki samning
En hvaða þjálfarar eiga þá eftir að fá atkvæði í kjörinu í vor?
Ljóst er að Gregg Popovich á eftir að fá slatta af atkvæðum. Hann hefur náð hreint út sagt ótrúlegum árangri með San Antonio í vetur - lið sem margir tippuðu á að yrði í basli með að komast í úrslitakeppnina.
Liðið hefur stungið svo rosalega af í Vesturdeildinni að það gæti haldið toppsætinu þrátt fyrir að hafa fengið meiðsladrauginn aðeins í heimsókn að undanförnu. Það er ekki gott að segja hvernig Popovich fer að þessu. Hann fær kredit fyrir að breyta leikstíl liðsins og keyra upp hraðann í stað þess að hökta meira á hálfum velli eins og áður. Popovich fær fullt af atkvæðum í vor og gæti fengið flest.
Tom Thibodeau hefur staðið sig frábærlega hjá Chicago og verður að teljast afar líklegur kandídat í þjálfara ársins. Hann er búinn að gera nákvæmlega það sem ætlast var til af honum og fara langt fram úr væntingum á sínu fyrsta tímabili. Við vissum að Chicago yrði fínt lið en trúlega hefði enginn þorað að spá því svona góðu gengi.
Breyturnar eru ekki margar frá í fyrra. Jújú, það er kominn ógn í teiginn í formi Carlos Boozer, Derrick Rose er að spila eins og MVP og liðið er búið að fá nokkra brúklega varamenn, en Thibodeau er maðurinn sem hefur gert gæfumuninn. Hann er að gera það sem Scott Skiles og Vinny del Negro náðu ekki að gera hjá Chicago. Nú vantar bara að fylgja þessu eftir með góðum spretti í úrslitakeppninni.
Þrír þjálfarar eiga svo eftir að fá krúttstig í kjörinu að þessu sinni. George Karl hjá Denver á eftir að fá einhver atkvæði og má það alveg, því hann er að mörgu leyti búinn að vinna erfiðasta starfið af öllum þjálfurum í vetur.
Það var ótrúlegt að sjá hvernig hann náði að halda vitleysingahælinu saman í Carmelo Anthony ruglinu öllu saman og síðan hann losnaði við Melo hefur Denver tekið 14-4 rispu og er bara í fínum málum (meðan New York drullar á sig).
Nate McMillan hjá Portland á líka eftir að fá krúttatkvæði af því hann er þjálfari Portland. Þar eru alltaf 15 manns á meiðslalista en alltaf nær Nate að halda liðinu á virðingarverðum stað í deildinni og komast í úrslitakeppni.
Okkur finnst hallærislegt að gefa mönnum of mörg stig fyrir að halda sjó í mótlæti, en staðreyndin er nú bara sú að Nate er mjög góður þjálfari og það er synd að maðurinn skuli aldrei vera með heilt lið í höndunum.
Að lokum á Doug Collins hjá Philadelphia klárlega eftir að fá slatta af atkvæðum fyrir að koma Philadelphia á beinu brautina eftir utanvegaakstur undanfarinna ára.
Það hefur gengið illa að stilla saman strengi þarna hjá Sixers, enda hefur liðinu verið raðað hálf asnalega saman. Collins er að nýta styrkleika liðsins til hins ýtrasta og verður að fá bein fyrir það.
Erik Spoelstra hjá Miami fær trúlega einhver samúðaratkvæði, en ekki frá okkur. Það má kannski kalla hann góðan að vera enn með vinnu eftir að ljóst varð að Miami tapaði meira en tíu leikjum í vetur.
Ætli við myndum ekki gefa Thibodeau okkar atkvæði. Popovich kærir sig hvort sem er ekki um þau. Þá er bara að vona að bölvunin sem fylgt hefur verðlaununum verði ekki til þess að hann og Scott Brooks missi starfið.
En er nokkuð gaman að velta þessu fyrir sér nema taka fallbaráttuna líka?
Tossaþjálfarar ársins eru Scott Skiles hjá Milwaukee, Larry Drew hjá Atlanta, John Kuester hjá Detroit, Vinny del Negro hjá LA Clippers, Kurt Rambis hjá Minnesota og Byron Scott hjá Cleveland. Þú mátt velja hver þeirra fær tossaverðlaunin í ár, þeir hafa allir drullað upp á herðar í vetur, hver á sinn hátt.
Efnisflokkar:
Þjálfaramál