Sunday, April 24, 2011

Takmarkalaus gleði í Portland


Það er alltaf gaman að sjá sögulega atburði í beinni útsendingu og í nótt fengum við dýrari týpuna þegar Brandon Roy skaut Portland til sigurs á Dallas 84-82 í ótrúlegum fjórða leikhluta. Staðan í einvíginu því jöfn 2-2 og allir leikir unnist á heimavelli.

Það leit nákvæmlega ekkert út fyrir að Portland myndi vinna þennan leik, enda var liðið mest 23 stigum undir í síðari hálfleiknum og 18 stigum undir fyrir lokaleikhlutann. Þá kom Brandon Roy til skjalanna og skoraði 18 stig í leikhlutanum, fleiri en allt Dallas-liðið sem gjörsamlega gerði í brækurnar.

Það var rosalega gaman að sjá Roy eiga þennan stjörnuleik. Fyrir stuttu var alls ekki ljóst hvort ferli hans væri hreinlega lokið vegna þrálátra hnémeiðsla en hann hefur skrölt áfram með liði sínu á þrjóskunni. Fór í drama þegar hlutverk hans með liðinu var skorið niður en kom upp sem hetjan í kvöld. Eðal spilari og eðalpiltur hann Roy.

Þetta var aðeins í þriðja sinn í sögu úrslitakeppninnar sem lið nær að koma til baka eftir að hafa verið 18 eða fleiri stigum undir í upphafi fjórða leikhluta. Frábært hjá Portland og gríðarlega mikilvægur sigur. Eins flottur og sprettur Blazers var í lokin, er ekki annað hægt en að setja spurningamerki við leik Dallas-liðsins. Dirk Nowitzki fékk varla að sjá boltann og það var eins og kæmi algjört fát á liðsmenn Dallas sem þó eru með þeim reyndari í deildinni.

Það er dásamlegt að verða vitni að svona sögulegum leikjum eins og þessum. Þessi íþrótt er himnasending. Sjáðu bara gleðina í Portland í myndbrotinu hér fyrir neðan.