Thursday, April 14, 2011

Deildakeppninni er lokið


Jæja, krakkar. Þá er deildakeppninni lokið í NBA og úrslitakeppnin að hefjast á laugardaginn.

Áður en það ball byrjar eigum við eftir að afhenda verðlaun fyrir tímabilið og spá svo í spilin fyrir úrslitakeppnina. Hafið ekki áhyggjur, við hér á ritstjórninni munum svo sannarlega niðurlægja okkur með því að spá í spilin eins og undanfarið. Það verður ákveðin áskorun að koma með verri spá fyrir úrslitakeppnina en í fyrra þegar við ætluðum Cleveland Cavaliers að fara alla leið, en okkur er trúandi til alls.

Við ætlum að leggja höfuðið aðeins í bleyti og velja verðmætasta leikmanninn og þjálfara ársins og kannski finnum við einhver fleiri verðlaun en þessi hefðbundnu. Það er alltaf svo freistandi að missa sig í neikvæðni og skítkasti líka.

Á töflunni hér fyrir neðan sérðu lokastöðuna í Vestur- og Austurdeildunum í vetur. Þú getur skemmt þér við að renna yfir hana og sjá hvernig hún stangast á við væntingar þínar fyrir tímabilið. Það er alltaf dálítið gaman.

Fyrir þá sem ekki vita það sýnir taflan einnig hvaða lið mætast í hvorri deild fyrir sig. Þannig mætir San Antonio (1) liði Memphis (8), LA Lakers (2) mætir New Orleans (7) og svo koll af kolli - eins í Austurdeildinni. Nánar um það síðar.