Thursday, April 14, 2011
Tilfinningaþrungið kvöld hjá Kings:
Það var hrikalega sorglegt að sjá Sacramento Kings ljúka keppni í nótt. Flestir hallast að því að þetta hafi verið síðasti leikur liðsins í Sacramento og að það muni flytja í sumar. Svona er þetta í NBA deildinni í dag. Græðgin veldur því að félögin í deildinni eru í stólaleik um að halda plássi sínu. Þetta bitnar allt á skattgreiðendum eins og aðrar hamfarir, stuðningsmönnunum.
Körfuboltafélagið Kings hefur svo sem ekki verið neitt stórveldi í Sacramento síðan það flutti þangað frá Kansas City árið 1985, en þó er liðið sem spilaði í Sacramento upp úr aldamótunum enn í miklu uppáhaldi hjá mörgum. Það var skipað mönnum eins og Vlade Divac og Chris Webber og náði því að vera með besta árangur allra liða í deildinni einu sinni.
Frægt einvígi Kings og Lakers í úrslitakeppninni á þessum árum verður alltaf á sínum stað í sögubókunum og það var sorglega vel við hæfi að það kæmi einmitt í hlut Lakers að stela sigri í leik sem var mögulega sá síðasti sem spilaður verður í Sacramento.
Derek Fisher, formaður leikmannasamtakanna gekk til leikmanna Sacramento eftir leikinn og bað með þeim bæn. Kobe Bryant skaut Kings í kaf og skemmti sér konunglega. Ah, Svarta Mamban.
Það er ekki gott að segja hvort það er aldurinn á okkur eða hvað það er, en við fylltumst viðkvæmni þegar við fylgdumst með lokakvöldinu hjá Kings í nótt. Þetta er rosalega leiðinlegt allt saman. Við ákváðum að henda hérna inn nokkrum myndum frá lokakvöldinu og sendum með myndband sem sýnir sjónvarpsmenn Kings til margra ára kveðja með tár á hvarmi.
Efnisflokkar:
Kings