Saturday, November 30, 2013

Að tapa fyrir Kings


Þessar tvær skemmtilegu myndir tók ljósmyndarinn Rocky Widner. Sú fyrri (t.v.) var tekin árið 2003 þegar LeBron James spilaði sinn fyrsta leik í NBA deildinni. Þá tapaði hann fyrir heimamönnum í Kings með liði sínu Cleveland Cavaliers.

Seinni myndin var svo tekin snemma á þessu ári, tæpum tíu árum seinna. Þar er James aftur á flugi en nú með Miami Heat og í þetta skiptið vann hann auðvitað sigur, verandi tvöfaldur meistari og besti leikmaður heims.

Eins og þið sjáið á gólfinu eru báðar myndirnar teknar í Sacramento. Það boðar fátt annað en gott að tapa sínum fyrsta NBA leik gegn Kings á útivelli ef marka má söguna.

Það vill svo skemmtilega til að Kevin Garnett þreytti einnig frumraun sína í Sacramento og mátti hann líka sætta sig við tap.

Ferill miðherjans Sam Bowie var reyndar ekki jafn farsæll. Hann spilaði sinn fyrsta leik á ferlinum gegn Kings árið 1984 en náði aldrei að halda heilsu - var í meiðslaveseni allan ferilinn.

Ætli það hafi ekki verið af því hann vann fyrsta leikinn sinn gegn Kings.

Umrætt tímabil var liðið reyndar ekki komið til Sacramento, heldur var það á síðasta árinu sínu í Kansas sem Kansas City Kings. Félagið var í Kansas á árunum 1972 til 1985.

Árið 1983 spilaði svo skotbakvörðurinn Byron Scott sinn fyrsta NBA leik með Los Angeles Lakers gegn Kings í Kansas. Scott lét sér nægja að setja eina körfu í leiknum, meðan Kareem Abdul-Jabbar (25/10) og Magic Johnson (16/11) drógu vagninn fyrir Lakers.

Þarna eruð þið komin með ágætis trivíu fyrir næsta pöbb kvis. Það var lítið.
P.s. - Á myndinni hér fyrir ofan sjáið þið goðsögnina Reggie Theus, sem var einn þeirra leikmanna sem fluttu með félaginu frá Kansas alla leið vestur til Sacramento. Þú ert ekkert að hjóla það.