Saturday, November 30, 2013

Carmelo Anthony reynir að vinna körfuboltaleiki


Denver tók á móti New York í nótt. Sumir eru hreinlega búnir að gleyma því, en þessar viðureignir eru dálítið sérstakar fyrir þær sakir að aðalskorari New York var jú einu sinni aðalstjarna Denver-liðsins.

Carmelo Anthony á ekki skemmtilegar minningar frá gamla heimavellinum, því á síðustu leiktíð spilaði hann illa í Denver og þurfti loks að fara meiddur af leikvelli. Ekki var það mikið skárra í ár. Anthony hitti frekar illa úr skotunum sínum og þar á meðal var loftbolti sem hefði getað sent leikinn í framlengingu. Loftboltinn kom reyndar til af því Anthony lét 193 sentimetra háan Randy Foye verja frá sér skotið.





New York er búið að vinna 108 leiki síðan Carmelo Anthony gekk í raðir liðsins, en Denver hefur unnið 122 leiki á sama tímaskeiði. Denver hefur ekki unnið seríu í úrslitakeppni eftir að Anthony fór (0-3), sem er svo sem í takt við það sem tíðkaðist meðan hann var þar, ef eitt ár er undanskilið. New York hefur tekist að vinna eina seríu í úrslitakeppni, þegar það lufsaðist í gegn um Boston í vor og er því á svipuðum slóðum og Denver á þeim bænum (1-3).

New York (3-12) byrjar leiktíðina vægast sagt hörmulega og er búið að tapa átta leikjum í röð. Flestum þykir eflaust erfitt að kyngja því þegar liðið þeirra tapar átta leikjum í röð, en reyndar er nú ekki svo langt síðan Knicks tapaði átta í röð (feb. 2010). Denver (9-6) hefur hinsvegar unnið níu af síðustu tólf eftir hikst í byrjun (0-3).

Það vantar mikið í liði Knicks þegar Tyson Chandler er ekki í vinnunni, flestir vita hvað hann er duglegur varnarmaður.

Það er samt athyglisvert að það hafði lítil sem engin áhrif á liðið í fyrra þegar Chandler meiddist, það hélt samt áfram að vinna.

Við erum enn ekki búin að fatta af hverju New York vann svona marga leiki á síðustu leiktíð, en gæti verið að eitthvað af því tengist jafnvel leiðtogahæfileikum Jason Kidd og eldri borgaranna sem voru í liðinu þá?

Margir eru hissa á að ekkert gangi hjá Knicks þessa dagana, en að okkar mati er þetta gengi frekar nær raunveruleikanum en velgengnin á síðustu leiktíð.

Fólk er búið að bíða rosalega lengi eftir fyrsta meistaratitlinum hans Carmelo Anthony. Við ráðleggjum þessu fólki að halda ekki niðri í sér andanum. Við erum búin að reikna þetta út á vísindalegan hátt: New York á í dag 14,7% betri líkur á að vinna meistaratitilinn en Fram á Skagaströnd.

Knicks hefur ekki unnið meistaratitilinn í 40 ár og það er ljóst að engin breyting verður á því á næstunni. Félagið er að fá átakanlega lítið út úr ofborguðum milljarðamæringunum sínum, sem liggja og baða sig upp úr drullunni eins og ofalin svín.

Við höfum ekki hugmynd um hvað Carmelo Anthony segir við son sinn þegar hann liggur á dánarbeðinu þegar að því kemur. En við erum nokkuð örugg um það það verður ekki;

"Ó, mig auma, sonur! Ég vildi að ég hefði tekið fleiri skot þegar ég var atvinnumaður í körfubolta, þá hefðum við kannski unnið eitthvað, fjandakornið! Kreegah, ´Melo bundolo!"