Saturday, November 30, 2013

Sælar stelpur, Spencer hérna


Spencer Hawes verður að fara að gæta að sér. Ef hann heldur áfram á þessari braut, þarf hann að spila Stjörnuleik í febrúar.

Sixers-miðherjinn geðþekki er að skora 17 stig, hirða 10 fráköst, gefa 3 stoðsendingar og verja 1,6 skot að meðaltali í leik. Þar að auki er hann að skjóta rúmlega 53% utan af velli og hittir úr 49% þriggja stiga skota sinna - sem er fjandi magnað því hann tekur hátt í fjögur langskot að meðaltali í leik.

Við komumst að því í nótt að Spencer Hawes er á ákveðinn hátt algjör andstæða Marc Gasol sem miðherji í NBA deildinni. Gasol er frábær miðherji sem skilar skítlélegum tölum alveg sama hvað hann spilar vel.

Nú ætlum við ekki að segja að Hawes greyið sé skítlélegur, en hann er klárlega ekki alveg eins góður og tölfræðin hans segir. Hann er náttúrulega að spila með liði sem vinnur ekkert rosalega marga leiki.

Við skulum samt ekkert vera að velta okkur upp úr því, heldur njóta þess sem Hawes er að bjóða upp á í vetur. Af hverju að vera að setja út á það, þá sjaldan að miðherji gerir eitthvað í NBA deildinni.