Thursday, July 1, 2010

Veigamesta frétt ársins: Jackson tekur eitt ár enn


Eins og við fórum fram á í færslu hér fyrir skömmu, hefur Phil Jackson ákveðið að þjálfa meistaralið Los Angeles Lakers eitt ár í viðbót. Þetta varð niðurstaða fundar hans við lækna, sem gáfu honum grænt ljós á einn slag enn.

Þetta eru frábær tíðindi fyrir Lakers-menn á sama hátt og þetta eru slæm tíðindi fyrir restina af deildinni, ekki síst keppinauta Lakers í Vesturdeildinni.

Hávaðinn í félagaskiptaglugganum er 90% í kring um liðin í Austurdeildinni, svo erfitt er að sjá að valdajafnvægið í vestrinu breytist það mikið að Lakers verði ógnað á toppnum þar.

Það verður gríðarlega áhugavert að sjá hvort Jackson tekst að koma sjötta meistarahringnum á Kobe Bryant líkt og á Michael Jordan - og hvort honum tekst að vinna þrjú ár í röð í fjórða skipti á þjálfaraferlinum.

Það er svo brjálaður möguleiki að það er erfitt að segja það upphátt.

Allir fréttamiðlar eru nú uppfullir af slúðri í kring um leikmenn með lausa samninga en fréttin um Phil Jackson hefur meira vægi í valdajafnvægi deildarinnar árið 2011 en hvað svo sem LeBron James og félagar ákveða að gera á næstu dögum.

Og það, gott fólk, er bara þannig.