Saturday, March 23, 2013

Nokkrir molar um sigurgöngu Nuggets


99% þeirra sem lesa þetta vita að Miami Heat er á næstlengstu sigurgöngu í sögu NBA deildarinnar, en hún var einmitt að tikka í 25 leiki rétt áður en þetta var skrifað.

Við höfum ekkert á móti liði Miami og höfum því ekki í huga að skrifa um þessa rosalegu sigurgöngu, því þið vitið öll að hún myndi enda með það sama í einu risastóru Jinx-Digranesi.

Miami er ekki eina liðið sem er á magnaðri siglingu, því Denver hefur líka unnið þrettán leiki í röð og okkur langar að deila með ykkur nokkrum punktum um Nuggets - þó í þeirri von að við förum nú ekki að jinxa liðið í drasl.

Denver var ekki fljótasta liðið upp úr startblokkunum í haust af þeirri einföldu ástæðu að liðið átti hrikalega töflu á fyrstu vikunum, þar sem leikmenn voru á endalausum keppnisferðalögum.

Eins og við spáðum fyrir nokkru, hefur Denver rifið sig upp og verið nær ósigrandi í heimavænu prógramminu. Það þýðir þó ekki að liðið hafi ekki staðið sig vel á útivöllum, þar sem nokkrir mjög góðir sigrar hafa dottið í pokann.

Denver er með gríðarlega sterkan heimavöll. Það er ekki bara af því stemningin í Pepsi-höllinni er góð, heldur stendur Denver svo hátt yfir sjávarmáli að gestaliðunum finnast lungun vera að brenna þegar þau reyna að elta heimamenn, sem alltaf reyna að keyra upp hraðann eins mikið og hægt er.

Nuggets er þannig það lið í NBA sem skorar flest stig úr hraðaupphlaupum - tæp 20 stig að meðaltali í leik.

Nokkrir af hreinustu íþróttamönnum deildarinnar leika með Denver og það kemur sér vel í áðurnefndum aðstæðum þegar keyra á andstæðinginn í kaf.

Nægir þar að nefna þá Andre Iguodala, Dýrmennið Kenneth Faried (nr. 35), Ty Lawson, Corey Brewer og kjarneðlisfræðinginn JaVale McGee.

Það er ekki aðeins í hraðaupphlaupunum sem Denver er í sérflokki, heldur skorar liðið langflest stig allra í NBA inni í teig. Þetta er ekki síst vegna þess að liðið reynir að keyra eins og því er unnt og fær jafnan mörg stig úr hraðaupphlaupum með sniðskotum og troðslum.

Það er ekki laust við að Denver í dag minni dálítið á Suns-hraðalestina undir stjórn Steve Nash þegar það spilar svona hraðann og langskotamiðaðan sóknarleik. Það var ekki fyrr en árið 1997 sem NBA deildin fór að halda tölfræði yfir stig skoruð inni í teig og fari svo sem horfir á Denver líklega eftir að stúta því meti.

Denver skorar í dag hvorki meira né minna en 58 stig að meðaltali í leik inni í teig, sem er með ólíkindum.

Met liðsins í stigum inni í teig í stökum leik í vetur er 78 stig gegn Lakers fyrir áramótin, en til gamans má geta þess að það er einmitt Lakers sem á metið í þessum tölfræðiþætti þegar það skoraði að meðaltali rúm 54 stig inni í teig árið 1998.

Það er því ljóst að Denver er í góðri stöðu til að slá þetta met, því það hefur til dæmis rofið 60 stiga múrinn inni í teig 27 sinnum í vetur.

Hugsið ykkur bara. Liðin í NBA deildinni drita þriggja stiga skotum sem aldrei fyrr, en þó kemur nokkuð oft fyrir að þau lakari séu rétt að slefa í um 70 stigin - þetta er Denver að skora inni í teig og á þá þristana, vítin og skotin af millifærinu eftir. Magnað alveg hreint.

Þessi sigurganga Denver er ein sú lengsta í sögu félagsins. Við rákumst einhvers staðar á mola um að liðið ekki tekið svona góða rispu síðan veturinn 1969-´70 þegar það lék í ABA deildinni.

Það er þekkt stærð að Denver er ekki með eina hreinræktaða ofurstjörnu í sínum röðum og þá má segja að langskotin séu ekki sterkasta hlið liðsins. Þar með eru þó helstu veikleikar Nuggets að verða upptaldir.

Stórstjarna eða ekki, það er fullt af snillingum í Denver og George Karl þjálfari getur leyft sér þann munað að rótera 10 mönnum á fullri keyrslu án þess að liðið missi dampinn - sérstaklega á heimavelli þar sem það hefur verið nær ósigrandi í vetur (31-3).

Nuggets hefur sannarlega verið að dansa eftir áramót. Frá 20. janúar vann liðið níu leiki í röð, fór svo í erfitt ferðalag þar sem það tapaði fjórum af fimm leikjum, en rétti svo hraustlega úr kútnum þegar það komst aftur á heimavöllinn og hefur nú unnið þrettán í röð á nákvæmlega mánuði.

Denver  er búið að lauma sér upp fyrir Clippers í þriðja sætið í Vesturdeildinni og okkur sýnist að það verði fjórða liðið í NBA til að ná 50 leikja markinu í vetur. Aðeins Miami, San Antonio og Oklahoma hafa náð því til þessa.

Það verður forvitnilegt ða fylgjast með Denver í úrslitakeppninni í vor og sjá hvernig liðinu tekst að eiga við það þegar hægist á leiknum og það fær ekki að hlaupa eins mikið og í deildakeppninni.

Hver verður það sem stígur á stokk hjá Denver og tekur að sér hlutverk neyðarkarls þegar allt verður undir?

Við fáum að sjá það eftir um það bil mánuð, en það er ljóst að Denver verður ekki auðvelt lið viðureignar í úrslitakeppninni ef marka má frábært gengi þess gegn hinum toppliðunum í Vesturdeildinni.

Á efstu myndinni í þessari færslu má sjá árangur Denver gegn hinum sjö liðunum sem útlit er fyrir að nái inn í úrslitakeppnina í Vesturdeildinni og hann er ekkert slor eins og þið sjáið.

Lakers-liðið er að finna sig betur og betur og mun líklega halda dampi á þessum síðasta mánuði deildakeppninnar þar sem það fer vonandi að endurheimta mannskapinn af meiðslalistanum.

Í fyrsta skiptið í langan tíma er Dallas aðeina að ranka við sér og hefur unnið sjö af síðustu tíu leikjum sínum.

Miði er möguleiki fyrir Dallas, en til þess þarf Lakers að byrja aftur að drulla á sig og við sjáum það ekki gerast á þessum vikum sem eftir eru.

Utah er jú þara á vappinu en getur ekki keypt sigur og er úr leik í kapphlaupinu eins og við sögðum ykkur um daginn.

Vonandi höfðuð þið gaman af þessum molum um hið fríska og skemmtilega Denver-lið. Við mælum eindregið með því að fólk taki spjaldtölvuna bara með á kamarinn og gluggi þar í þetta í ró og næði.

P.s. - Um leið er ekki úr vegi að minna á sjónvarpsleikina sem framundan eru á Stöð 2 Sport um páskana. Sannkallaðir hörkuleikir þar á ferð. Hugsið ykkur bara ef  Miami héldi nú bara áfram að vinna og við fengjum að sjá eitthvað sögulegt í beinni!

Chicago-Miami Miðvikudagur 27. Mars 00:00 (skírdagur)
San Antonio-Miami Sunnudagur 31. Mars kl 23:00 (páskadagur)
LA Clippers-Lakers Sunnudagur 7. Apríl 19:30