Wednesday, July 3, 2013

Ristill: Dwight Howard heldur að okkur sé ekki




Dwight Howard er trúður.

Við höfum aldrei farið leynt með þá einlægu skoðun okkar á meintum miðherja Los Angeles Lakers. Þó það kosti okkur óbragð í munninum í alla nótt, verðum við segja skoðun okkar á stærsta fréttamáli NBA deildarinnar þessa dagana, sem er fegurðarsamkeppnin hans Dwight Howard.

Þetta er ekkert flókið, þó fjölmiðlar reyni að gera það. Aðeins tvö félög koma til greina fyrir barnið vöðvastælta - L.A. Lakers og Houston Rockets.

Fjölmiðlar vestan hafs reyna hvað þeir geta að búa til storm úr þessari golu, en það hlýtur að segja sig sjálft að félög eins og Atlanta Hawks, Dallas Mavericks og Golden State Warriors hafa ekkert í þennan slag að gera.

Ekki misskilja, Dwight Howard er alveg nógu mikið ólíkindatól til að semja við eitt þessara félaga, en það væri þá kannski í takt við annað hjá þeim ágæta manni.

Þegar við skoðum það hinsvegar frá rökrænu sjónarmiði, hefur hann engan áhuga á að spila á heimaslóðum sínum í Atlanta, Warriors þarf að stúta liðinu sínu til að fá hann og Dallas hefur bara ekki upp á nógu mikið að bjóða.

Dallas hefur jú flottan eiganda, klassa þjálfara, lága skatta og gullið loforð frá Dirk Nowitzki um að hann ætli að lækka við sig launin þegar núverandi samningur hans rennur út - en fyrir utan þetta er ósköp fátæklegt um að litast í Stóra D.

Þú vinnur enga titla með Dwight Howard og gömlum Dirk Nowitzki. Það er bara ekki nóg og það sjá allir - meira að segja Dwight Howard. Fyrir örfáum mánuðum leit út fyrir að Dallas yrði stórspilari á leikmannamarkaðnum og hver stórstjarnan á fætur annari var orðuð við félagið. Ekkert varð þó úr því og við verðum að segja að það hefur komið okkur nokkuð á óvart.

En að félögunum sem eru í stöðu til að landa vandræðaunglingnum - Lakers og Rockets.

Það hefði einhver mátt segja okkur það fyrir 18 mánuðum að Houston yrði komið í þessa stöðu sem það er í í dag - að vera hársbreidd frá því að verða áskorandi í Vesturdeildinni.

Það er samt staðreynd og gera má ráð fyrir því að púlsinn hjá forráðamönnum félagsins verði hár fram að helginni.

Houston var eitt af Spútnikliðunum á síðustu leiktíð, en ef það landar Dwight Howard og við gefum okkur að hann hangi heill næstu árin, er Rockets strax orðið eitt af sterkari liðum vestursins.

Það má vel vera að Howard fari óstjórnlega í taugarnar á okkur, en hann er samt fínn leikmaður á sinn hátt og miðherjastaðan er svo svínslega léleg í NBA í dag að ef þú landar einum af þessum fimm þokkalegu slánum í deildinni ertu strax kominn í fjandi góð mál.

Howard var nú ekki lengi að láta það berast út að það væri ekki nóg fyrir hann að fara til Rockets - félagið yrði að gjöra svo vel og semja við aðra stórstjörnu til viðbótar ef hann ætti að fara þangað - fyrr gæti það ekki keppt um titla.

Þetta er reyndar átakanlega rétt hjá Dwight Howard.

James Harden er eina stjarnan í liði Houston og hefur aðeins eins árs reynslu af því að vera aðaltappinn í sínu liði eftir að hafa sprungið svona hressilega út á síðustu leiktíð. Harden hefur að okkar mati allt sem til þarf til að vera aðalspaði í toppliði, en hann, Howard og nokkrir rulluspilarar er ekki nóg til að vinna titil. Það yrði hinsvegar óhemju sterk byrjun og þar erum við komin að rúsínunni í afturendanum, eins og Smári Tarfur orðar það svo skemmtilega.

Houston er í rauninni eina félagið sem "meikar sens" fyrir Howard á þessum tímapunkti.

Ok, það er kannski ekki meistaraefniviður þarna akkúrat núna, en ef Morey og félagar héldu rétt á spilunum næstu eitt til tvö árin, er ekkert sem segir að Houston geti ekki verið komið með sterkasta liðið í Vesturdeildinni áður en langt um líður.

Hjá Houston gæti Dwight Howard fengið að vera "maðurinn í miðjunni" í friði (hann þarf alltaf að fá pínu að vera maðurinn, barnið), þjálfaður af einum besta leikmanni sögunnar í að spila í kring um körfuna (McHale), þar væri hann með aðra stjörnu með sér sem tæki meiri ábyrgð en hann (eftir því sem hentaði), pressan væri miklu minni frá stuðningsmönnum og fjölmiðlum, markaðurinn fínn og skattarnir lágir. Þar að auki er félagið með klára menn á skrifstofunni og góðan sveigjanleika í fjármálunum.

Hvar er vandamálið?

Æ, já, Lakers.

Jú, Lakers er í aðstöðu til að borga Howard aðeins meira af peningum en Houston, þó skattamál og óguðlega hár lifistandard í Englaborginni séu reyndar fljót að jafna það út.

Málið er bara að það er svo mikið helvítis vesen að vera Lakers-maður þessi dægrin. Dwight Howard hefur sannarlega ekki gert það auðveldara með dramatíkinni í sér, en það er ekki bara honum að kenna.

Meiðslakrísan sem reið yfir gula helminginn af LA á síðustu leiktíð var í rauninni ágætis yfirvarp, því vandamál Lakers ná miklu lengra og dýpra en það.

Lakers er nefnilega farið að minna meira á New York Knicks en á Lakers og ef við eigum að missa okkur alveg í svartsýnina, er eins og hluti af félaginu hafi dáið með Jerry gamla Buss.

Einu sinni var þetta ekkert mál. Bestu leikmenn í heimi fóru til Lakers ef því Lakers var einfaldlega skíturinn. Þar var flottast að vera, flottast að spila. Hanga með fræga fólkinu og rokkurunum og vinna meistaratitla.

Frá Baylor, West og Chamberlain, til Kareem, Magic og Worthy, til Kobe, Shaq og Jackson. Þetta var ekki flókið - Lakers er búið að vera yfirburðaklúbburinn í NBA síðustu áratugi.

En núna er allt komið í rugl. Samningamál leikmanna og þjálfara eru í hakki og það er eins og sé enginn leiðtogi hjá félaginu sem heldur mönnum á mottunni, stappar niður fæti og segir: "svona gerum við þetta strákar!"

Lakers er bara í ruglinu í dag. Þessi blessuðu meiðsli hjá Kobe Bryant fóru auðvitað gjörsamlega með þetta, en þó leikmenn liðsins hafi kannski ekki fengið fullt tækifæri til að sanna sig á síðustu leiktíð, var aldrei á nokkrum tímapunkti neinn glans yfir leik liðsins.

Þetta Lakers-lið með Kobe, Pau, Heimsfrið og fleiri, var búið að vera fyrir þremur árum síðan, ekki í fyrra.

Enn og aftur, meiðslin hjálpuðu ekki, en hérna eru nokkrar ískaldar staðreyndir um Lakers:

Kobe Bryant skilaði rosalega fallegum og hagkvæmum (fyrir hann) tölum á síðustu leiktíð, en hann er (mjög eðlilega) alls ekki sá leikmaður sem hann var fyrir fjórum árum. Það sem meira máli skiptir varðandi Bryant er hinsvegar það að hann er ekki bara orðinn afleitur varnarmaður, heldur er hann HÆTTUR að spila vörn.

Það er kominn tími til að fólk fari að horfast í augu við þá staðreynd. Kobe Bryant var ekki varnarúrvali NBA deildarinnar á síðustu leiktíð í fyrsta skipti síðan Nasistar réðust inn í Pólland, en þar var hann árin fjögur þar á undan á orðstírnum einum saman.

Taktu þetta varnarleysi Kobe Bryant og bættu við það fertugum og höltum Steve Nash og þú ert kominn með eitt lélegasta bakvarðapar síðari tíma í varnarleik. Sorry, það er bara þannig. Horfðu á leikina - horfðu á tölfræðina og stöðutöfluna.

Og ekki voga þér að væna okkur um Hatoradedrykkju.

Við elskum Mömbuna alveg jafn mikið og jafnvel meira hver sem er.

Stundum þarf bara að tala um óþægilega hluti, eins og þegar við hérna á NBA Ísland erum að sníkja framlög og feedback frá ykkur. Þetta þarf að gerast annað slagið.

Framlína Lakers var ekki mikið gæfulegri en bakverðirnir. Pau Gasol var spólandi um á felgunni allan veturinn, Heimsfriður hluta af honum og Dwight Howard átti ekki nema sprett og sprett eftir bakuppskurð og vegna axlarmeiðsla.

Bættu við þetta einu versta úrvali aukaleikara í deildinni (og þeirri staðreynd að þeir voru jú líka meira og minna meiddir allan veturinn) og útkoman er ekki glæsileg. Kannski var það afrek eftir allt saman að liðið drattaðist í úrslitakeppnina.

En svo kemur náðarhöggið auðvitað í vor, þegar Bryant sleit hásin.

Howard hefði sennilega alltaf náð að gera eitthvað helvítis drama úr þessu sumri og látið ganga vel á eftir sér, en ef öll þessi meiðsli hefðu ekki verið að hrjá Lakers, væri staða hans hjá félaginu væntanlega aðeins vænlegri/bjartari.

Ó, og þar með vorum við næstum því búin að gleyma einu af aðalatriðunum - þjálfaramálunum.

Körfuboltafélagið Los Angeles Lakers hefur nefnilega hvergi drullað eins hrottalega á sig og í þeirri deildinni.

Mike Brown?
Mike D´Antoni?

Í alvöru?

Þið eruð LAKERS, grátandi upphátt!
Þið eruð ekki Milwaukee Bucks. Þið eruð LAKERS!

Og besti leikmenn í heimi eiga að berjast um að fá að fara til LA Lakers. Ekki til fokkíng Miami, ekki til Clippers, ekki til Cleveland eða Hveravalla!

Til LAKERS!

Nei, í stað þess að stjörnur deildarinnar séu að slást til síðasta manns um að fá að klæðast gula búningnum, þarf félagið að leigja sér fána og borða til að breiða á einhverja kofa út um allan bæ til að leggjast á hnén og grenja í Dwight flippin Howard að "fara nú ekki frá sér, snökt, snökt!"

Hvaða helvítis bull er þetta? Hver stýrir þessum klúbbi eiginlega?
Hafa vistmennirnir tekið völdin á hælinu?

Við vitum vel að heimurinn er að fara til andskotans og ungir og nýríkir íþróttamenn hugsa meira um brandið, bleiku buxurnar og fokkíng glerjalausu hipster gleraugun sín en nokkurn tímann hollustu eða til dæmis að mæta eins og menn í vinnuna og leggja sig fram fyrir trilljarðana sem þeir fá borgaða.

Samt. Þetta er fokkíng Lakers!

Gerðu það sem þú vilt, Dwight Howard. Farðu þangað sem þú vilt. Okkur er skítsama og óbragðið sem við minntumst á í upphafi pistilsins er farið að minna á blöndu af haggis og hundaskít (ef við gefum okkur að einhver hafi blandað slíku saman og fengið sér sopa).

Við höfum sagt ykkur það áður og stöndum við það. Dwight Howard verður aldrei NBA meistari sem fyrsti eða annar valkostur í sókn - og því skiptir engu máli hvort hann verður áfram í Englaborginni eða fer til Houston, Dallas eða Dalvíkur.

Eini sénsinn fyrir Howard er að ná að pota sér í sterkt lið með tvær stjörnur sem taka alla pressu af honum í sóknarleiknum, flotta rulluspilara og fyrsta klassa þjálfara. Hann er ekki maður í annað en að vera akkerið í vörninni og hirða fráköst.

Meira ræður hann ekki við. Hann bara fattar það sennilega ekki sjálfur.