Friday, July 5, 2013

Meiðslafaraldurinn 2013: Vesturdeildin


Meiðsli settu svo leiðinlega stóran svip á deilda- og úrslitakeppni NBA á síðustu leiktíð að okkur fannst ekki annað hægt en að skrifa aðeins um það.

Í gær sögðum við ykkur frá meiðslunum sem herjuðu á liðin í Austurdeildinni en í kvöld færum við okkur yfir í Vesturdeildina þar sem meiðsli höfðu líka mjög mikil áhrif á gang mála í vetur og vor. Alveg eins og í fyrri pistlinum byrjum við á botninum og færum okkur upp á við.

Það eru léleg lið í Vesturdeildinni alveg eins og í Austurdeildinni, en þau eru talsvert færri fyrir vestan.

Sum lið eru bara léleg alveg sama hvort þau glíma við meiðsli eða ekki og þannig hefur það til dæmis verið hjá Sacramento um árabil.

Það var Phoenix sem rak lestina í vestrinu í vetur með 25 sigra, New Orleans vann 27 og Sacramento 28. Öll þrjú glímdu við talsverð meiðsli og máttu engan veginn við því.

Þar má til dæmis nefna endalaust vesenið á skotbakverðinum Eric Gordon hjá New Orleans. Gordon virðist ekki með nokkru móti geta haldið sér heilum og eins og til að bæta gráu ofan á svart, missti liðið Antonio "Brúnar" Davis líka af 20 leikjum.

Ef Dílaskarfarnir verða aðeins heppnari með meiðsli næsta vetur, ættu þeir að geta verið með ágætis lið því þeir eru þegar þetta er skrifað að landa vængmanninum Tyreke Evans frá Sacramento og eru með áhugaverðan nýliða í fyrir framtíðina í Nerlens Noel.

Úlfavaktin/Læknavaktin

Næsta lið fyrir ofan þessi þrjú í töflunni er aumingja Minnesota Timberwolves með 31 sigur.

Úlfarnir eru kapítuli út af fyrir sig og raunar væri hægt að skrifa sér pistil um ólukkuna sem elt hefur þann klúbb undanfarin misseri.

Eins og þið munið myndaðist gríðarleg spenna fyrir Úlfunum hjá flestum NBA áhugamönnum þegar Ricky Rubio kom loksins til Minnesota.

Hugtakið Úlfavaktin varð til og fljótlega varð mjög þröngt á Rubio- og Úlfavagninum. Flest okkar sem fylgjumst með NBA vorum gríðarlega spennt fyrir möguleikunum sem voru uppi á borðinu hjá Úlfunum fyrir síðustu leiktíð.

Meiðsli höfðu tekið sinn toll árið áður, en nú kæmi ekkert slíkt til greina. Úlfarnir fengu  meira að segja spennandi liðsstyrk í formi Andrei Kirilenko og Brandon Roy. Hvorugur þessara kappa hefur sloppið vel við meiðsli á ferlinum og á því varð ekki mikil breyting.

Það sem fór hinsvegar alveg með þetta er að Kevin Love náði aldrei að komast í gang með liðinu af því hann var alltaf að mölva á sér lúkurnar.

Ástþór skilaði aðeins 18 leikjum í vetur og skyttan Chase Budinger aðeins 20, sem þó var skárra en aumingja Brandon Roy - sem náði aðeins fimm leikjum og gafst upp á kommbakkinu sínu.

Þar með var það þó ekki upptalið - aldeilis ekki. Ricky Rubio missti auðvitað úr 25 leiki eftir að hafa slitið krossband vorið áður og þeir Andrei Kirilenko og Nikola Pekovic misstu báðir úr um það bil 20 leiki. Svo hrikaleg voru meiðslin á Úlfunum að Luke Ridnour var eini maðurinn sem náði að spila 82 leiki.

Þetta var hrikalega erfitt hjá Úlfunum á síðustu leiktíð og okkur dettur ekki í hug að fara eitthvað að jinxa liðið aftur með því að fara að tala um hvað það sé spennandi fyrir næsta tímabil. Reyndar er það svo að við erum dálítið búin að missa trúna á Úlfana sem Spútniklið.

Fram undan eru erfið mál sem þarf að ljúka eins og að framlengja samninga við Kevin Love og Nikola Pekovic - og það verður að teljast ólíklegt að félagið nái að halda Kirilenko áfram. Við erum ekki alveg viss af hverju, en sjarminn er horfinn af Úlfunum.

Nú verður eitthvað annað lið að taka við kyndlinum sem Spútnik- og/eða League Pass lið vetrarins. Úlfarnir eru búnir að fá næga sénsa, en óheppni hefur gert það að verkum að ekkert hefur orðið úr hlutunum hjá þeim.

Sem betur fer varð þessi umfjöllun um Úlfana bara stutt og hnitmiðuð...

Svona eru vonbrigðin hrikaleg.

Næstum því...

Portland (33 sigrar) kom næst í stöðutöflunni í Vesturdeildinni, en það er eitt af fáum liðum sem slapp nokkurn veginn stórslysalaust í gegn um leiktíðina. Það var líka eins gott, því breiddin hjá liðinu var álíka góð og hjá Indiana Pacers - engin.

Næstu tvö lið í töflunni, Dallas (41) og Utah (43) voru bæði á höttunum eftir sæti í úrslitakeppninni en urðu að játa sig sigruð og sitja heima.

Þar var meiðslum sannarlega um að kenna, þó hvorugt þessara liða hafi verið líklegt til afreka í úrslitakeppninni með 5-10 sigrum í viðbót í deildakeppninni.

Hjá Dallas spilaði Dirk Nowitzki aðeins 53 leiki og var afar lengi í gang eftir hnémeiðsli. Þá spilaði Shawn Marion aðeins 67 leiki og Chris Kaman aðeins 66.

Utah Jazz missti eina fúnkerandi leikstjórnanda sinn (Mo Williams)  hálfa leiktíðina og það eitt og sér var bara of stór biti til að kyngja. Þú hefðir kannski unnið nokkra leiki með þá Earl Watson og Jamaal Tinsley í leikstjórnandastöðunni ef við værum stödd á árinu 2003, en því miður fyrir Jazz er áratugur síðan og þessir tveir eiga jafn mikið erindi í byrjunarmínútur í NBA og Ingvi Hrafn.

Houston náði að lauma sér inn í úrslitakeppnina eftir skemmtilegan Spútnikvetur þar sem stefnan var að skora nógu fjandi mörg stig og drita þristum eins og þrek leyfði.

Rockets slapp við stórkostleg meiðsli en þau bönkuðu upp á í úrslitakeppninni þegar Jeremy Lin gat lítið sem ekkert beitt sér í seríunni gegn Oklahoma City (4 stig, 25% skotnýting). Houston náði að gera einvígið spennandi á kafla en náði ekki að fara lengra án leikstjórnanda síns.

Ónýtt ár

Mörg lið urðu fyrir barðinu á meiðsladraugnum í vetur, en líklega fór ekkert eins illa og Los Angeles Lakers. Fyrir leiktíðina var þeim gulklæddu spáð góðum árangri enda voru leikmenn eins og Dwight Howard og Steve Nash komnir til að aðstoða Kobe og Pau.

Þessi draumur breyttist fljótlega í martröð, því allir leikmenn liðsins sem eitthvað gátu á annað borð (og fleiri) glímdu við erfið meiðsli - allan veturinn.

Annars fabúleruðum við talsvert um stöðuna á Lakers í pistlinum um Dwight Howard sem datt hérna inn fyrir skömmu. Þar meðal annars komið inn á meiðsli lykilmanna.

Það hefði verið dálítil bjartsýni að spá LA Lakers titlinum í upphafi síðustu leiktíðar, en á hinn bóginn er alveg öruggt að það hefði unnið miklu fleiri en þessa 45 sigra sem það landaði.

Kannski var það bara nokkuð gott hjá Lakers að komast í úrslitakeppnina þrátt fyrir öll þessi meiðsli, en þar beið þess ekki annað en að vera fallbyssufóður fyrir San Antonio Spurs. Þar hefði hvorki Dallas né Utah gert betur.

Flottir flóamenn

Golden State var sannarlega ein af filgúdd fréttum síðustu leiktíðar. Við skömmumst okkar ekkert fyrir að viðurkenna að við gerðum grín að félaginu þegar það réði Mark Jackson sem aðalþjálfara og hlógum að fólki sem tók sénsinn og tippaði á að Warriors færi nú loksins í úrslitakeppnina.

Það hlaut að enda með því að Flóamenn kæmust í bölvaða úrslitakeppnina og var ekkert annað en sómi af þessu skemmtilega liði á stóra sviðinu.

Golden State væri hinsvegar ekki Golden State ef það hefði sloppið alveg við meiðsli.

David Lee féll þannig úr leik hjá liðinu snemma í úrslitakeppninni og þeir Steph Curry og Andrew Bogut voru meira og minna á felgunni.

Nú ætlum við ekki að segja að Warriors hefði slegið San Antonio út í annari umferð úrslitakeppninnar ef allir leikmenn hefðu verið heilir, en það hefði sannarlega verið gaman að sjá hvað hefði gerst.

Golden State fær öruggt A hjá okkur fyrir frammistöðu sína á síðustu leiktíð, en við óttumst að meiðsli eigi alltaf eftir að hóta að skemma öll plön hjá liðinu. Það er óðs manns æði að ætla Andrew Bogut að vera allt í einu heill og ekki eru ökklarnir á Curry traustvekjandi. Að því sögðu vonum við innilega að þetta bráðskemmtilega lið hafi heppnina með sér í framtíðinni.

Annað lið sem stóð sig prýðilega vel í úrslitakeppninni í vor var Memphis Grizzlies, en þangað gleymdi meiðsladraugurinn alveg að fara að þessu sinni og megnið af lykilmönnum liðsins spilaði í kring um 80 leiki.

Sömu sögu var ekki að segja um mótherja Memphis í fyrstu umferðinni, LA Clippers. Alveg eins og á síðustu leiktíð, lenti Blake Griffin í meiðslum á versta mögulega tíma í úrslitakeppninni. Það hafði kannski ekki úrslitaþýðingu í einvíginu, en þeir Marc Gasol og Zach Randolph óðu yfir Clippers á skítugum skónum þegar Griffin naut ekki lengur við.

Þetta var því annað árið í röð sem Clippers þurfti að sætta sig við að falla snemma úr leik í úrslitakeppninni og ef við segjum hlutina bara eins og þeir eru, var liðið bara lélegt. Meiðsli spiluðu inn í bæði árin, sérstaklega 2012, en þau voru ekki ástæðan fyrir því að liðið fór snemma í sumarfrí.

Clippers er bara ekki nógu vel byggt fyrir úrslitakeppni og var þjálfað af manni sem var ekki starfi sínu vaxinn. Það verður gaman að sjá hvort að ný andlit í leikmannahópnum og Doc Rivers í þjálfarastólnum þýði bættan árangur í úrslitakeppninni. Allt er á sínum stað til að fara að gera eitthvað af viti. Meistaraþjálfari, besti leikstjórnandi í heimi og ungir og efnilegir piltar með í för. Koma svo, Clippers.

Snemma í sumarfrí

Einhverjir spáðu því að Denver myndi ganga nokkuð vel í deildakeppninni. Ekki við.

Hverjum átti að detta í hug að Denver tæki 57 leiki?

En jú, George Karl náði að púsla saman liði sem nýtti sér heimavöllinn til hins ítrasta og hakkaði hvern andstæðinginn á fætur öðrum með hröðum leik sínum.

Eins og Clippers, reyndist þetta Denver lið hinsvegar ekki vel byggt fyrir átökin í úrslitakeppninni og mátti sætta sig við tap í fyrstu umferð þrátt fyrir að ná 3. sætinu í Vestureildinni. Auðvitað spiluðu meiðsli sína rullu í að knésetja Nuggets.

Það gerðist í formi krossbandaslits Danilo Gallinari og þar með var liðið búið að missa sína helstu skotógn utan af velli og einn sinn besta leikmann. Það er samt algjör óþarfi að gráta fyrir þeirra hönd, lið Warriors var líka krambúlerað eins og við sögðum ykkur áðan.

Læri, læri, tækifæri

Við fyrstu sýn virðist San Antonio hafa sloppið nokkuð vel við meiðsli í vetur, enda komst liðið alla leið í lokaúrslitin í fyrsta skipti í háa herrans tíð.

Þegar nánar er skoðað, má samt setja fram eins og eitt spurningamerki.

Það var ekki stórmál frekar en venjulega fyrir Spurs þó Tony Parker og Manu Ginobili misstu úr góðan slatta af leikjum í deildakeppninni, en þegar í úrslitakeppnina var komið var allt annað uppi á teningnum.

Parker spilaði eins og engill fram í lokaúrslit en gerði það á meiddu læri sem hægði augljóslega nokkuð á honum.

Var það nóg til að gera gæfumuninn í svona hnífjöfnu einvígi þar sem úrslitin ráðast ekki fyrr en á lokasekúndunum í leik sjö í finals? Hugsanlega.

Þetta er veikur málflutningur og Dwyane Wade var sömuleiðis meiddur hjá Miami, en markmiðið með þessum pistli var að benda á hvað meiðsli höfðu mikil áhrif á landslagið í vetur.

Rotið án Russ

Þá eigum við ekki annað eftir en að taka fyrir Oklahoma City, en að okkar mati voru það meiðsli Russell Westbrook sem voru þýðingarmest af þeim öllum.

Oklahoma var að flestra mati liðið sem átti að fara upp úr Vesturdeildinni og jafnvel ná fram hefndum á Miami í lokaúrslitunum.

Ekkert slíkt var þó í spilunum og það var eiginlega hálf sorglegt að sjá liðið hrynja án Westbrook.

Þegar við erum að skoða hvort Oklahoma hafi verið kandídat í lokaúrslitin, verðum við samt að hafa í huga að í vor var enginn James Harden hjá Thunder eins og árið áður.

Í staðinn var hann í liði andstæðinganna og að reyna að skjóta sína gömlu félaga í kaf.

Það var mjög augljóst að Oklahoma varð strax lakara lið við að missa Harden. Við ætlum hér að nota tækifærið og minna á að við lýstum yfir áhyggjum yfir því strax í haust að Martin næði ekki að fylla nema hluta af skarðinu eftir Harden - sérstaklega í úrslitakeppninni.

Hann átti leik og leik sem var þokkalegur, en heilt yfir var hann bara alls ekki nógu góður. Þarna kom bersýnilega í ljós hvað Harden var saknað - alveg eins og Westbrook auðvitað.

Þá erum við búin að segja ykkur frá nokkrum af helstu og örlagaríkustu meiðslunum sem lögðust á liðin í bæði austri og vestri og ekki annað eftir en að taka smá súmmeringu á þetta allt saman. Lagt verður upp með að hafa þessa súmmeringu stutta, en þið vitið nú hvernig það endar stundum.

Það kemur í ljós í næsta pistli.