Friday, July 5, 2013

Meiðslafaraldurinn 2013: Samantekt


Okkur líður eins og við höfum verið að enda við að skrifa bók um meiðslin í NBA á síðustu leiktíð.

Þessir pistlar voru engir smá hlemmar, en það sýnir bara hvítt á svörtu hvað meiðsli settu dökkan blett á leiktíðina.

Við vorum þegar búin að segja ykkur að við þekkjum til Hatorade-drykkjumanna sem setja * á eftir meistaratitlum Miami í fyrra og í ár.

Í fyrra út af verkbanninu og í ár út af öllum meiðslunum.

Og miðað við þessa geðsjúku upptalningu okkar í síðustu tveimur pistlum, mætti ætla að eitthvað væri til í því.

Róum okkur samt.

Ekkert lið verður NBA meistari án þess að þurfa að hafa mjög mikið fyrir því og Miami fékk svo sannarlega að smakka á því á leið sinni að titlinum í sumar. Hann var verðskuldaður og rétt eins og öll lið sem orðið hafa meistarar í NBA, hafði Miami heppnina með sér á stöku stað.

Stundum ljónheppni.

Þá erum við ekki bara að tala um að skotin hafi dottið hjá þeim í oddaleikjunum í síðustu tveimur umferðunum. Líka um meiðsli andstæðinganna - keppinautanna um titilinn. Teljum saman að gamni nokkur lið sem ætluðu sér að velta Miami af stalli áður en meiðsli gerðu þær vonir að engu.

Oklahoma - Westbrook meiddur
San Antonio - Parker spilaði meiddur í lokaúrslitunum
Denver - Gallinari meiddist
LA Clippers - Blake Griffin meiddist
Golden State - David Lee meiddist og Curry tæpur
Houston - Jeremy Lin meiddist
LA Lakers - Allir meiddir
Dallas - Dirk Nowitzki meiddur
Minnesota - Allir meiddir

Indiana - Danny Granger meiddur
Boston - Rajon Rondo og fleiri, meiddir
New York - Carmelo Anthony og Tyson Chandler spiluðu þrátt fyrir meiðsli.
Chicago - Allir meiddir
Brooklyn  - Joe Johnson spilaði meiddur
Atlanta - Louis Williams meiddur
Philadelphia - Andrew Bynum og Jason Richardson meiddir

Þetta eru fjandi margir leikmenn í fjandi mörgum liðum. Leikmennirnir sem við töldum upp hér að ofan voru vissulega mismikið meiddir, en allt hafði þetta áhrif. Við höfum aldrei séð neitt í líkingu við þetta áður. Ekki nálægt því.

Já, heppnin. Það er tvennt sem þú verður að hafa með þér fyrir utan hæfileika til að vinna meistaratitla - heppni og heilsu - og þetta hafði Miami nokkurn veginn (Wade og Miller tæpir á tíðum). Þetta rann aftur upp fyrir okkur þegar við skoðuðum brakketið aftur.

Haldið þið að það sé tilviljun að liðin fjögur í undanúrslitunum, Miami, Indiana, San Antonio og Memphis, hafi verið fjögur af þeim liðum sem sluppu hvað best við meiðsli í NBA í vetur og vor?

Ekki aldeilis.

Það talar enginn um það en við kennum álaginu á síðustu leiktíð um hluta af þessum meiðslum í vetur. Keyrslan í fyrra var fáránleg og við erum handviss um að eitthvað af þessum meiðslum eru bein eða óbein afleiðing geðveikinnar í fyrra.

Við skulum vona að þetta verði ekki svona hrikalegt á næstu leiktíð, það á ekki að vera hægt. Svona meiðsli snerta ekki bara valdajafnvægið í deildinni, þau hafa líka áhrif á t.d. miðasölu. Við rákumst til að mynda á nokkra tölur sem sýndu hvað meðalverð á leiki hrundi í kjölfar þess að stjörnurnar meiddust.

Þannig lækkaði meðalverð á Lakers-leiki mest um hvorki meira né minna en 80% eftir að Kobe Bryant sleit hásinina í vor.

Hæst var meðalverðið tæpir 250 dollarar þann 11. apríl, Kobe meiðist þann 14. apríl og þann 18. var meðalverðið komið niður í 96 dollara. Viku síðar hrundi það svo í 57 dollara.

Eitthvað spilar það sjálfsagt inn í að deildakeppnin var að klárast, en við verðum að hafa hugfast að Lakers var að berjast um að komast í úrslitakeppnina, svo það var engin ástæða til annars en að rukka vel fyrir miðana. Lakers-miðar eru jú alltaf Lakers-miðar.

Sömu sögu var að segja hjá stórveldinu á hinni ströndinni, Boston Celtics. Þegar Rajon Rondo meiddist eftir áramótin var miðinn á Celtics-leiki að fara á að meðaltali 132 dollara.

Skömmu eftir að Rondo datt úr leik, var verðið hrunið niður í 78 dollara og fór  ekki aftur upp fyrir 100 dollarana fyrr en um miðjan febrúar þegar liðið fór á nokkuð óvænta sigurgöngu eftir að Rondo datt út.

Meðalmiðaverð hjá Chicago Bulls lækkaði um 87% vikuna eftir að Derrick Rose meiddist á sínum tíma. Miðaverðið féll um 70% hjá Houston eftir að Jeremy Lin meiddist og fór niður um 66% hjá Oklahoma þegar Russell Westbrook datt úr leik í byrjun úrslitakeppninnar.

Þar með látum við þessari umfjöllun um meiðslaveturinn mikla lokið.

Að lokum minnum við á að þið getið hjálpað til við reksturinn á NBA Ísland með því að smella á gula takkann merktan "Þitt framlag" hægra megin á síðunni og haft samband á nbaisland@gmail.com ef það gengur/hentar ekki.

Við viljum líka alltaf heyra frá ykkur. Það er búið að vera rosalega gott hljóð í ykkur undanfarnar vikur og okkur þykir alltaf vænt um að heyra í jákvæðu fólki sem er ánægt með Íslandið sitt.