Tuesday, October 30, 2012

Harden farinn, Oklahoma tekur skref aftur á bak




Við höfum fengið óhemju magn af pósti og skilaboðum vegna nýjustu leikmannaskiptanna í NBA deildinni og það er auðvitað engin furða. Okkur langar að leggja hérna fram nokkrar línur um málið, þó seint sé.*

Stjórn Oklahoma City, silfurdrengjanna frá í sumar, ákvað nokkuð óvænt að skipta James Harden og skiptimynt til Houston Rockets í staðinn fyrir Kevin Martin og skiptimynt.

Ekki móðgast þó við notum orðið skiptimynt, þessir tveir leikmenn eru þungamiðjan í skiptunum hvað svo sem verður með ungu mennina og valréttina í framtíðinni.

Kjarasamningar og launaþak eru hugtök sem eru hvorki innan áhuga- né þekkingarsviðs okkar en það litla sem við höfum kynnt okkur um einstök efnisatriði þessara viðskipta, segir okkur að þau komi sér ágætlega fyrir bæði félög þegar allt er talið.

Það kemur þó endanlega ekki í ljós fyrr en eftir nokkur ár.

Harden hafði verið í sviðsljósinu um nokkurt skeið því samningar hans voru að losna. Oklahoma er lítið félag á litlum markaði og eigandi þess er skíthæll (sjá: Seattle Supersonics) og því var alltaf vitað að það yrði erfitt fyrir að að semja við Harden.

Thunder hafði þegar samið við þá Kevin Durant, Russell Westbrook og Serge Ibaka. Það kostaði sitt og þegar við bætum við feitum samningi Kendrick Perkins, var ljóst að ekki var mikið pláss eftir til að bæta við einum feitum samningi í viðbót.

Oklahoma var þó tilbúið að ganga ansi langt og bauð Harden samning sem var ekki langt frá hámarkinu, en hefði þýtt að launakostnaður hefði orðið ansi hár á næstu árum og snarminnkað svigrúm í leikmannamálum. Það er ekkert grín að borga lúxusskatt í nútíma NBA og það er ekki eitthvað sem lítil félög gera að gamni sínu.

Harden er sterkur og kornungur leikmaður sem var að leita að sínum fyrsta stóra samningi á ferlinum.

Auðvitað hefði sjötti maður ársins viljað halda áfram að spila með Thunder. Frábært lið og góður mórall, framtíðin björt og hlutverkið klárt. Það kom til greina.

En hvaða NBA leikmaður vill ekki fá tækifæri til að komast á topplaun og prófa að vera andlit metnaðarfulls félags sem er miklu stærra en Thunder.

Það er ekki ljóst hvað gerðist. Hvort stjórn Thunder var í kjúkling við Harden eða ekki. Skiptir eiginlega ekki máli. Það sem skiptir máli er að algjör lykilmaður í næstbesta liði deildarinnar er horfinn á braut.

Harden sinnti í raun tvöföldu hlutverki hjá Oklahoma á síðustu leiktíð. Spilaði bæði stöðu leikstjórnanda og skotbakvarðar þegar hann var inná - og hann var auðvitað inná lengur en flestir varamenn. Helsti styrkur Harden sem leikmanns liggur í því hvað hann er yfirnáttúrulega hagkvæmur sóknarmaður. Hann sprengir alla hagkvæmniskala og fær tölfræðigúrúa til að slefa.

Kevin Martin hefur reyndar líka verið nokkuð hagkvæmur leikmaður á sínum ferli. Er góður skotmaður og lúmskur í að koma sér á línuna, en þar með er það því miður upptalið. Hann er skelfilega lélegur varnarmaður, hefur verið í vandræðum með meiðsli, hann er lítill, léttur og aumur og gefur þér ekkert nema stig.

Eitt mikilvægasta atriðið í skiptunum hvað Oklahoma varðar, er svo hvernig Martin passar inn í móralinn í liðinu. Hann er nefnilega nokkuð fýlugjarn og hefur átt til að stangast á við þjálfara sína.

Oklahoma getur leyft sér þann munað að skipta Harden út og fá hreinræktaðan skotbakvörð í staðinn af því Eric Maynor, varaleikstjórnandi liðsins, snýr aftur í vetur eftir að hafa verið í meiðslum alla síðustu leiktíð. Miklar vonir eru bundnar við Maynor og Thunder er tvímælalaust sterkara lið þegar hann tekur við varaleikstjórn í stað Derek Fisher.

Þá er bara að sjá hvort Kevin Martin stendur undir hlutverki sínu.

Oklahoma City verður ekkert allt í einu lélegt lið þó það skipti James Harden í burtu, en að okkar mati veikir þetta liðið mikið. Oklahoma hafði þann möguleika að halda Harden út komandi leiktíð og reyna aftur við titilinn - sjá svo til. Það lá ekkert á að sleppa honum, en hinsvegar skiljanlegt að stjórnin hafi kýlt á þetta fína tækifæri þegar það gast.

Við nennum samt ekki að velta upp úr peningamálum og pótensjal. Ekki í þessum pistli. Við erum bara að hugsa um hvað þessi skipti þýða fyrir Thunder núna - á þessari leiktíð og næstu. Við erum óskaplega hrædd um að það eina sem þessi skipti þýða í ár sé að helsti keppinautur Miami Heat í deildinni hafi rétt í þessu verið að veikjast töluvert. Þannig sjáum við það bara og getum ekki neitað því að það vekur upp dálitla gremju.

Það er dálítið deprímerandi að sjá hvernig sýstemið virkar. Sjá hvernig félag eins og Oklahoma sem hafði heppnina með sér í nýliðavalinu og gerði allt rétt, hefur einfaldlega ekki burði til að halda sér við toppinn. Eða virðist ekki hafa burði til þess.

Nú eru að taka við nýjar reglur um launamál og samninga í NBA og þetta þrengir nokkuð að. Það er ekki hægt annað en setja spurningamerki við það hvað Houston er að eyða miklu í menn eins og Jeremy Lin og Omer Asik (og kannski Harden líka).

Það voru samningar eins og þessir sem settu allt á hliðina og ollu verkbanni á síðustu leiktíð. Það virðist enginn læra neitt af því. Enn þyrfti helst að verja þessa heimsku eigendur fyrir bullinu í sjálfum sér.

Það hefur verið í tísku að gefa bæði OKC og Houston c.a. B+ fyrir þessi viðskipti og það er skiljanlegt. Við erum hinsvegar ekki svona jákvæð.

Það var rétt sem Bill Simmons skrifaði fyrir skömmu, Oklahoma átti bara að drullast til að borga Harden og hafa áhyggjur af peningamálunum seinna.

Lið sem er svona nálægt þeim stóra á ekki að breyta svona til hjá sér þegar það stendur á þröskuldinum, við förum aldrei af þeirri skoðun.

Það tekur okkur mörg ár að sjá hvað kemur út úr þessum skiptum, en beinar afleiðingar þess þýða einfaldlega að næstbesta körfuboltalið í heimi er ekki eins sterkt og það var. Það eina jákvæða við þetta er að Oklahoma sleppur við dramatíkina sem óneitanlega hefði valdið ónæði þegar fjölmiðlar héldu samningaviðræðum Harden efst í fréttum dag eftir dag.

Houston gerir vel að fá Harden, flottan leikmann, en við efumst um framtíðina og peningana sem fara í Lin og Asik.

Oklahoma situr eftir veikara. Ungir og upprennandi leikmenn liðsins eru alltaf að bæta sig og Kevin Martin veit alveg hvar körfuna er að finna, en því miður er það bara hvergi nærri nóg til að fylla skarð James Harden.

Og hafðu það, fjandakornið!

* - Þetta átti að vera stutt hugleiðing. Immit.