Thursday, July 4, 2013

Meiðslafaraldurinn 2013: Austurdeildin


Meiðsli hafa alltaf verið hluti af pakkanum í NBA deildinni eins og annars staðar, en við höfum aldrei vitað annan eins meiðslafaraldur og reið yfir á nýafstaðinni leiktíð.

Nú höfum við því miður enga vísindalega tölfræði fyrir okkur í þessu mati, en við rákumst á einhverjar greinar um þetta efni í vetur og þær tóku undir þetta. Það er algjör synd að skuli ekki vera til síður sem halda almennilega utan um meiðsli í NBA deildinni, því þau geta jú haft gríðarleg áhrif á þróun mála eins og við sáum í vetur.

Öll þessi meiðsli vöktu forvitni okkar og án þess að fara of djúpt í meiðslatölfræðina, ætlum við hér á eftir að renna létt yfir deildina, skoða helstu meiðsli og hvaða áhrif þau höfðu á stöðu mála í deildakeppni og síðar úrslitakeppninni.

Léleg lið lenda líka í meiðslum

Ef við byrjum á að líta á kjallarann í Austurdeildinni, var auðvitað ekki sérlega glæsilegt um að litast þar í vetur frekar en undanfarin ár og við höfum oft greint frá í skrifum okkar. Það hjálpar hinsvegar ekki til þegar meiðsli eru farin að gera léleg lið að skítlélegum liðum og sú var raunin í vetur.

Dæmi um þetta má nefna lið eins og Cleveland og Washington, sem voru afleit lengst af í vetur en sýndu þó á köflum að það gætu átt eftir að verða spennandi tímar fram undan.

Það getur verið gaman að horfa á Cleveland spila þó ekki væri nema bara vegna Kyrie Irving, en svo illa vildi til að hann og Dion Waiters misstu af um 20 leikjum hvor vegna meiðsla og það er eitthvað sem lið eins og Cleveland má alls ekki við.

Mesta áfallið hjá Cavs var samt án efa meiðsli Brasilíumannsins Anderson Varejao, sem leiddi deildina í fráköstum og var orðaður við Stjörnuleikinn þegar hann féll úr leik eftir aðeins 25 leiki.

Ferlegt ólán.

Lið Washington er betur mannað en Cleveland en meiðsli settu stórt strik í reikninginn þar eins og í Cleveland.

Þannig spiluðu ungu mennirnir Bradley Beal og John Wall ekki nema um 50 leiki og meiðslakálfurinn Nene missti úr 20 leiki eins og hann er vanur.

Washington vann ekki nema 29 leiki í vetur sem leið, en sýndi ljómandi fín tilþrif í þeim leikjum sem mannskapurinn var sæmilega heill. Sérstaklega var varnarleikurinn hjá Wiz merkilega góður og er sannarlega eitthvað til að byggja á ef þessir menn ná einhvern tímann að hanga heilir í meira en nokkrar vikur í senn.

Það var Orlando sem rak lestina í Austurdeildinni árið 2013 en þar er auðvitað verið að stokka allt upp á nýtt.

Þetta lið var drasl fyrir en ekki skánaði það þegar Big Baby Davis fótbrotnaði og sauðnautið Hedo Turkoglu lét nappa sig og féll á lyfjaprófi.

Það er magnaður fjandi að Philadelphia og Toronto hafi ekki verið nema fjórum leikjum frá sæti í úrslitakeppninni í Austurdeildinni, en svona er lífið í austrinu.

Það hefði sjálfsagt ekki breytt einhverju óskaplega miklu, en verðum þó að hafa í huga að Philadelphia gat ekki notað meiðslakálfinn sinn Andrew Bynum í svo mikið sem mínútu í allan vetur. Meiðsli gerðu líka vart við sig hjá Raptors (Andrea Bargnani spilaði aðeins 35 leiki), en þar er verið að róa á ný mið og ekki vanþörf á því heldur.

Rjóminn í austrinu

Ef við vippum okkur upp töfluna og að liðunum sem komust í úrslitakeppnina í austrinu, nemum við strax staðar á Celtics í sjöunda sætinu. Það varð fljótlega ljóst að Boston menn færu ekki langt þetta árið þegar sprækasti maður liðsins Rajon Rondo sleit krossbönd um miðbik tímabilsins.

Hann var fjarri því eini maðurinn hjá Celtics sem bitinn var í botninn af meiðsladraugnum. Jared Sullinger spilaði aðeins 45 leiki, Chris Wilcox 61, Kevin Garnett 68 og Avery Bradley aðeins 50. Það var því frekar lemstrað Boston-lið sem mætti New York í fyrstu umferð úrslitakeppninnar í vor.

Atlanta naut ekki krafta Louis Williams nema í hálfa leiktíðina, en öllum er auðvitað slétt sama um það.

Í heiðurssætinu í Austurdeildinni þegar kemur að meiðslum situr auðvitað Chicago Bulls.

Einhvern veginn í fjandanum tókst liðinu samt að vinna 45 leiki og komast í aðra umferð úrslitakeppninnar.

Það þrátt fyrir að Derrick Rose kæmi ekkert við sögu, Rip Hamilton missti úr 30 leiki, Taj Gibson og Kirk Hinrich 20 og Joakim Noah spilaði aðeins 66 leiki sárþjáður af iljarfellsbólgu.

Eins og flestir muna voru svo meiðslin rétt að byrja þegar deildakeppninni lauk, því aukin meiðsli og síðar veikindi áttu eftir að gjörsamlega stúta liðinu. Meðal annars var Luol Deng við dauðans dyr á sjúkrahúsi vegna alvarlegra veikinda.

Það var ekki hægt annað en hrífast af þessu Bulls liði í vor. Barátta þess var til fyrirmyndar og þjálfarinn hefði líklega átt að vera kjörinn þjálfari ársins, en sem betur fer fyrir hann varð ekki af því.

Mótherji Chicago í fyrstu umferðinni, Brooklyn, átti í sínum meiðslavandræðum í vetur. Þeir Joe Johnson, Gerald Wallace og Kris Humphries misstu samtals af 40 leikjum hjá Nets og Johnson var að glíma við bölvaða iljarfellsbólguna líkt og Joakim Noah í úrslitakeppninni. Það afsakar þó ekki afleita og andlausa frammistöðu liðsins á þem vettvangi.

Nokkrir af leikmönnum New York voru í meiðslum í vetur eins og venjulega. Efstur á blaði þar var að sjálfssögðu Amare Stoudemire, sem missti úr 29 leiki að þessu sinni.

Þeir Carmelo Anthony og Tyson Chandler misstu reyndar aðeins úr 15 leiki hvor í deildakeppninni, en það leyndi sér ekki að meiðsli hægðu nokkuð á þeim báðum í úrslitakeppninni. Chandler var ólíkur sjálfum sér og réði ekkert við Roy Hibbert hjá Indiana í miðjunni, meðan Melo hlóð múrsteinum leik eftir leik.

Heppnin með Heat

Það var ekkert leyndarmál í allan vetur að Miami væri með besta liðið í Austurdeildinni þangað til annað kæmi í ljós. Mótherji meistaranna í úrslitum Austurdeildarinnar var Indiana og það vill svo vel til að Pacers var eitt af þeim liðum sem var hvað heppnast með meiðsli í deildinni.

Vissulega var þeirra fyrrum aðalmaður Danny Granger meiddur nánast allan veturinn og kom ekkert við sögu í úrslitakeppninni, en þar fyrir utan slapp liðið mjög vel við meiðsli enda kornungir og frískir menn þar í mörgum stöðum.

Miami var ekki alveg laust við meiðsli frekar en önnur lið í Austurdeildinni, en meistararnir voru nógu heilir heilsu til að verja titilinn sinn eins og þið vitið og það kallast að hafa heppnina með sér. Við erum ekki að meina að það hafi verið heppni sem réði því að Miami næði að vinna síðasta leikinn sinn í sumar, en þið vitið orðið að öll meistaralið í sögu NBA hafa verið með heppnina með sér í liði á einum eða öðrum tímapunkti á leið sinni að titlinum.

Það má með sanni segja um Miami og meistaratitilinn árið 2013.

Hvaða lið voru helstu keppinautar LeBron James og félaga síðasta vetur? Jú, silfurlið Oklahoma City frá árinu á undan missti Russell Westbrook (og James Harden, reyndar ekki vegna meiðsla, merkilegt nokk), ungt og sprækt lið Indiana var án Danny Granger, hafi Boston átt einn séns inni fór hann með Rajon Rondo og þá var Chicago án Derrick Rose.

Það fór svo að lokum að Miami lagði San Antonio í lokaúrslitunum eins og þið munið. Það hefði náttúrulega verið út úr karakter ef meiðsli hefðu allt í einu hætt að koma fyrir í lokaúrslitunum. Nei, það fótbrotnaði enginn eða sleit krossbönd, en það er ómögulegt að segja hvernig þetta hefði farið ef Tony Parker hefði ekki tognað á læri hjá Spurs.

Dwyane Wade var líka meiddur hjá Miami og kannski má segja að meistararnir hefðu þurft minna en sjö leiki til að slá Spurs út ef hann hefði gengið heill til skógar. Hann er hinsvegar næstum alltaf meiddur hvort sem er, svo það skiptir ef til vill ekki miklu máli.

Enginn afsláttur

Já, börnin góð, svona var þetta í austrinu í vetur. Miami var kannski með örlitla meistaraheppni á sínu bandi á leiktíðinni, en okkur dettur ekki í hug að fara eitthvað að setja út á það. Ekkert lið verður meistari á heppninni einni saman og Heat fékk verðugan andstæðing í lokaúrslitaeinvíginu sem reyndist hið besta á öldinni.

Þeir sem drekka Hatorade daglega vilja eflaust setja * fyrir aftan titilinn hjá Miami árið 2013 alveg eins og á verkbannsárinu 2012.

Það yrði þá til að gefa til kynna að sigurinn sé mengaður og eitthvað ómerkilegri en aðrir titlar.

Við neitum því ekki að slíkar hugsanir hafa læðst að okkur, en eins og við sögðum rétt áðan - var lokaúrslitaeinvígið svo magnað að það kemur ekki til greina að setja * aftan við sigur Miami árið 2013.

Við verðum að viðurkenna að öll þessi meiðsli komu okkur í dálítið þunglyndi og var okkur satt best að segja hætt að lítast á blikuna. Myndu liðin ná að smala saman fimm heilum gaurum fyrir leikina í úrslitakeppninni með þessu framhaldi? Það var nú ekki mikið meira en svo á köflum hjá Chicago.

En eins og alltaf, stóð úrslitakeppnin fyllilega undir væntingum þegar allt var talið. Fyrstu þrjár umferðirnar voru fjarri því að vera þær bestu í sögunni þó inn á milli væru frábær einvígi á borð við Spurs-Warriors. Úrslitarimman var hinsvegar sú besta síðan árið 1998 að mati mjög margra spekúlanta og við tökum undir það.

Það rættist því úr þessu eins og alltaf og án þess að við ætlum að fara að jinxa næsta tímabil of mikið, er bara ekki fræðilegur möguleiki á því að svona meiðslaalda gangi yfir deildina annað árið í röð. Hugsið ykkur bara hvað verður gaman að sjá Derrick Rose snúa aftur með Chicago, Danny Granger með Indiana og Brooklyn með tvo gamla refi sem ætla að taka einn slag í viðbót.

Það verður erfitt verkefni fyrir meistara Miami að fara í gegn um Austurdeildina fjórða árið í röð næsta vor, en eitt er alveg bókað - það verður óheyrilega skemmtilegt að fylgjast með þeim reyna það.