Tuesday, October 2, 2012

Fjölmiðladagurinn: Nuggets


Fjölmiðladagurinn árlegi í NBA deildinni fór fram mánudaginn 1. október. 

NBA Ísland kíkti í heimsókn til nokkurra liða í deildinni og lagði fram nokkrar athugasemdir, hvort sem það var viðeigandi eða ekki. Þetta tekur nokkrar færslur og í þeirri síðustu tökum við saman skemmtilegustu myndir fjölmiðladagsins 2012.

Það verður gaman að fylgjast með Denver Nuggets í vetur. Þar er á ferðinni hörkulið sem er án stórstjörnu og liggur undir gagnrýni fyrir það. Á móti kemur að Denver hefur spilað sig nokkuð vel út úr Carmelo-umsátrinu og á heiður skilinn fyrir það. Nýjasti liðsmaðurinn, Andre Iguodala frá Sixers, ætti að smella nokkuð auðveldlega inn í liðið og veita því nauðsynlegan varnarleik.

Denver frumsýndi nýjan aukabúning á fjölmiðladeginum. Gárungarnir segja að leikmennirnir líti út eins og ofvaxnar franskar kartöflur í þessu dressi. Okkur finnst þetta geggjaður búningur og fullkominn fyrir utan ljósbláa litinn, sem á alls ekki að vera með þeim gula. Gúddsjitt.

Verkfærin sem Lawson og Gallo munda á myndunum eru dæmi um furðulega hluti sem poppa alltaf upp í einni eða fleiri tökum á fjölmiðladeginum. Líklega eiga hakarnir að vera vísun í nafn liðsins og gullleitaruprunann, en það er gjörsamlega út í hött að mynda leikmenn með þá.

Skemmtileg myndin hérna fyrir neðan af jafnöldrunum Andre Miller og George Karl, skælbrosandi eins og venjulega.