Hvað tökum við til bragðs ef nýjasti þáttur hlaðvarpsins fer í klósettið vegna tæknivandræða og eyðileggur nokkrar dýrmætar vinnustundir aðfararnótt þriðjudags? Við getum annað hvort bölvað og ragnað í klukkutíma og farið að sofa eða ákveðið að skrifa pistil um efni þáttarins í staðinn. Við ákváðum að gera bæði: skrifa meðan við bölvuðum
Efni 49. þáttar hlaðvarpsins átti að vera umræða um hvaða lið myndu gera tilkall til meistaratignar í NBA deildinni næsta sumar, í tilefni þess að nú er ekki nema rétt rúmur mánuður þangað til deildarkeppnin hefst.
Þessi pistill verður ekki jafn tæmandi og hlaðvarpið sem endaði í ruslinu. Þú átt alveg örugglega ekki eftir að lesa hann á hlaupabrettinu í World Class og guð forði okkur frá því að þú lesir hann á meðan þú ekur til vinnu. En við vonum að hann verði fræðandi. Kíkjum aðeins á þetta og byrjum í austrinu:
Austurdeildin á síðustu leiktíð var sennilega sú lélegasta í sögu deildarinnar, að minnsta kosti sú lang, langlélegasta síðan við byrjuðum að fylgjast með NBA fyrir um aldarfjórðungi síðan. Það er mál manna að austrið verði ekki eins arfaslakt í vetur og það var í fyrra, en við skulum þó ekki baka neinar kökur enn sem komið er.
Það má nefnilega vel vera að einhver af liðunum í austrinu fari frá því að vera brandari upp í að vera skítléleg, en það þýðir engan veginn að Cleveland fái einhverja samkeppni á leið sinni í lokaúrslitin 2016. Raunar er Cleveland með það mikla yfirburði í Austurdeildinni að við höfum aldrei upplifað annað eins - ekki einu sinni nálægt því.
Á síðustu leiktíð gátum við gefið okkur að lið eins og Chicago, Atlanta eða Washington gætu amk strítt Cleveland. Við vorum meira að segja svo tröllheimsk að við spáðum því að Chicago yrði liðið sem færi upp úr austrinu í lokaúrslitin.
Spáin var gerð síðasta haust eftir að við sáum Cleveland spila eins og drasl, með meingallað lið og LeBron James á hálfu gasi. Við höfðum svo rangt fyrir okkur að það er líkamlega vont.
Kallið okkur haters, en það segir meira um restina af liðunum í Austurdeildinni en styrk Cleveland hvernig málin þróuðust í úrslitakeppni Austurdeildarinnar á síðustu leiktíð. Sérstaklega voru það Atlanta og Chicago sem ollu okkur vonbrigðum þar - svo miklum að við myndum frekar segja að þau hafi gert sig að fíflum en valdið okkur vonbrigðum. Og ekki væla um meiðsli - það voru meiri meiðsli hjá Cleveland en öllum mótherjunum.
Feisaðu það. Cleveland var eina "góða" liðið í Austurdeildinni sem gerði sig ekki að fífli. Það er bara þannig.
Chicago, Atlanta og Toronto - liðin sem deildu efstu fjórum sætunum með Cleveland - spiluðu eins og þau væru í keppni um hvert þeirra gæti litið verr út í úrslitakeppninni.
Sumum finnst kannski of hart og jafnvel dónalegt að segja svona, en við skulum taka debat við hvern sem er, hvenær sem er.
Þessi lið voru drasl og gerðu sig að fífli og þess vegna gerum við þeim það ekki til geðs að virða þau viðlits í haust. Við bara nennum ekki að skrifa um drasl! Taliði við okkur þegar þið farið að spila eins og menn!
Sumir, margir reyndar, halda að Milwaukee verði Spútnikliðið í austrinu í vetur, en það eru draumórar. Jú, jú, það er gaman að fylgjast með gríska stafrófinu leika listir sínar, en þar með er það upptalið.
Einhver gæti haldið að Miami gæti gert eitthvað næsta vetur og því ekki það? Það er ekki eins og þurfi mikið til að komast á topp fjóra í austrinu. Miami er með drullufínt lið á pappírunum, en því miður fyrir Wade og félaga, þurfa of margir hlutir að falla fullkomlega með þeim til að þeir eigi séns á að ná raunverulegum árangri (komast í úrslit Austurdeildar).
Rétt eins og Cleveland þarf að lenda í ógurlegri meiðslakrísu (þ.e. missa LeBron) ef það á ekki að komast upp úr austrinu, þarf Miami að lenda í yfirnáttúrulegu meiðslaleysi til að komast í lokaúrslit eða þar um bil.
Sko, alveg eins og í fyrra, verða einhver lið að vinna einhverja leiki í Austurdeildinni. Það er því alveg viðbúið að einhver af þessum lélegu liðum eigi eftir að vinna fleiri leiki en við reiknuðum með, en gætið þess að láta það ekki blekkja ykkur. Austurdeildin er rusl ennþá og verður það eitthvað áfram og við skulum vona að sagnfræðingar fari nú ekki að velta sér upp úr því eftir 20 ár þegar þeir sjá hvað LeBron James kláraði hana oft í röð á ferlinum.
Auðvitað er LeBron heppinn að vera að spila í deild sem er svona mikið rusl á síðari hluta ferilsins og þurfa ekki að bera lið sitt í gegn um stórhindranir eins og lið á borð við Detroit og Boston voru hér áður, en munum að hann getur ekki annað en spilað við liðin sem eru fyrir framan hann hverju sinni - og að hann er ekki fyrsta stórstjarnan sem fær svona huggulega leið í úrslitin um nokkurra ára bil (sjá: Magic Johnson á níunda áratugnum, þegar Vesturdeildin var rusl).
En að Cleveland-liðinu sjálfu. Þetta lið sýndi okkur heldur betur klærnar í úrslitakeppninni síðasta vor og það var út af fyrir sig magnað að það færi jafn langt og raun bar vitni í ljósi meiðslanna sem á það herjuðu.
Það er einmitt þess vegna sem verður forvitnilegt að fylgjast með þessu liði spila í vetur. Það kemur nánast óbreytt til leiks í haust, þó enn sjái ekki fyrir endann á öllu meiðslabullinu síðan á síðustu leiktíð.
Þannig eiga til dæmis þeir Kyrie Irving, Kevin Love og Anderson Varejao allir eftir að ýmist ná sér af meiðslum og/eða spila sig í gang á ný eftir langvarandi meiðsli, en það góða er að þeir hafa nægan tíma til þess. Ekki dregst þetta lið langt aftur úr í töflunni þó það tapi nokkrum leikjum á haustmánuðum.
Cleveland fór frá því að vera ósköp brothætt og götótt lið á fyrstu vikum tímabilsins í fyrra yfir í að vera hörkulið með vorinu. Þessar bætingar komu í kjölfar klókra leikmannaskipta (Mozgov, JR Smith og Shumpert) og heimsóknar LeBron James á heilsuhælið í Hveragerði.
Öll þessi meiðsli hafa komið í veg fyrir að leikmönnum Cleveland tækist að finna taktinn og hin sönnu einkenni liðsins. Reyndar voru neyðareinkenni liðsins þegar leið á úrslitakeppnina nokkuð árangursrík, en þau gengu út á skipulagðan varnarleik og LeBron í einn á fimm í sóknarleiknum. James finnst gaman að spila þessa taktík, en við vonum allra vegna að liðið þurfi ekki að grípa til hennar á ný.
Það er erfitt að ímynda sér að Cleveland nái að spila þennan sama hörkuvarnarleik á komandi leiktíð, einfaldlega af því það verður með annan mannskap í lykilstöðum.
Kevin Love og Kyrie Irving verða alltaf byrjunarliðsmenn hjá Cleveland um leið og þeir ná heilsu en þeir verða aldrei nokkru sinni færir um að spila varnarleik líkt og þann sem varamenn þeirra spiluðu í lokaumferðum úrslitakeppninnar á síðustu leiktíð.
Í staðinn koma þeir með vægast sagt ógnvænlegan sóknarleik inn á borðið og sá sóknarleikur verður nóg til að fella meirihlutann af liðunum í NBA deildinni flesta daga. Sóknarleikur Cleveland var á tíðum vandræðalegur með allar þessar kanónur í fyrra, en hann var samt betri en hjá mörgum liðum. Hugsið ykkur hvað hann getur orðið góður ef þetta lið nær nú að spila sig almennilega saman einn daginn.
Þetta ætti að fleyta LeBron og félögum auðveldlega í úrslit, en svo verður forvitnilegt að sjá hvað tekur við eftir það. Lið sem verða NBA meistarar án þess að vera inni á topp tíu í varnarleik eru álíka algeng og hvítir hrafnar. Það verður spennandi að sjá hvort Cleveland ætlar að brjóta þá hefð í vetur.