Það var nýtt fyrir okkur öllum að fara með karlalandsliðinu okkar á stórmót í körfubolta og tilfinningarnar innra með okkur að loknu móti eru því einnig framandi. Það er erfitt að lýsa hugarástandinu eftir EM, en trúlega eigum við það öll sameiginlegt að vera full af þakklæti og stolti.
Strákarnir okkar voru í sannkölluðum martraðarriðli á mótinu, en við förum aldrei ofan af því að það var af hinu góða. Af hverju ekki að hitta keisarann ef maður fer til Rómar á annað borð?
Eins og alþjóð veit, náðum við ekki að vinna leik á mótinu þó oft stæði það tæpt, aldrei eins tæpt og í lokaleiknum gegn Tyrkjum í gær. Auðvitað hefði verið gaman að vinna svona sterka þjóð í lokaleiknum á mótinu, en risaskotið hans Loga sem kom okkur í framlengingu tryggði að við fengum öll eitthvað ógleymanlegt fyrir peninginn. Það var frábær punktur aftan við þessa ævintýralegu daga í Berlín.
Án þess að fara út í einhvern þjóðernisfasisma, er það alveg rétt að körfuboltafjölskyldan okkar ytra gerði þetta mót líka eftirminnilegt, eins og karfan.is náði að sýna okkur eftir lokaleikinn.
Nú ætlum við ekki að hætta okkur út á þann hála ís að fara að leikgreina spilamennsku íslenska liðsins, en það vakti athygli okkar hvað strákarnir náðu að halda planinu sínu vel í vörn og sókn. Ef við eigum að vera alveg hreinskilin, bjuggumst við frekar við því að íslenska liðið yrði gólfmotta fyrir þessa sterku mótherja en að það ætti eftir að standa í þeim.
Trúlega hafa fleiri en færri sem á annað borð vissu hvað liðið var að fara út í í þessum riðli, reiknað með að töpin yrðu stærri. Pappírslegur gæðamunur á liðunum var einfaldlega það mikill og við höfum tekið eftir því að margur Íslendingurinn sem heima sat gerði sér enga grein fyrir því.
Við sáum nokkrar athugasemdir frá Jónum utan úr bæ á Facebook þar sem þeir voru að hneykslast á þessari glórulausu jákvæðni og hrósi í garð landsliðsins eftir hvern tapleikinn á fætur öðrum. Þetta fólk áttaði sig ekki á samhenginu og ekkert við því að gera, en kannski væri bara hollt fyrir okkur öll að tileinka okkur svona hugarfar í garð allra landsliðanna okkar.
Auðvitað er það glórulaust að svona dvergþjóð eins og Ísland sé að ná svona góðum árangri í boltaíþróttunum. Það er bara þannig - og það er bara allt í lagi fyrir okkur að vera þakklát fyrir það, fjandinn hafi það!
Þessir dagar í Berlín voru hreint út sagt súrrealískir og gildir þá einu hvort við erum að tala um upplifun þeirra sem voru í stúkunni eða heima í stofu. Þjóðernisrembingslaust, fylltumst við stolti að horfa á baráttuhundana okkar standa í hverjum ofjörlunum á fætur öðrum.
En við vorum ekki inni í þessum leikjum bara út á gömlu íslensku baráttuna eina saman, liðið spilaði nefnilega bara drullu góðan körfubolta á löngum stundum og hristi duglega upp í heimsfrægum andstæðingunum.
Strákunum okkar var alveg sama hvort mótherjinn hverju sinni var stjarna úr Asociación de Clubs de Baloncesto eða National Basketball Association. Þarna er í góðu lagi að hrósa þjálfaranum okkar Craig Pedersen og hans öfluga teymi.
Hvað liðið sjálft varðar, ætlum við ekki að fjalla um frammistöðu einstaka leikmanna. Vissulega spila menn misstóra rullu í liðinu, en við sjáum ekki ástæðu til að taka einn fram fyrir annan í því sambandi. Íslenska liðið spilaði nefnilega sem lið á þessu móti, alveg eins og áhorfendurnir á bandi þess, enda var fólk farið að hafa orð á því ytra hvað íslenska stuðningssveitin var hress og skemmtileg. Við roðnum pínulítið við að skrifa svona lagað, en þetta er ekki þjóðernishroki, þetta eru staðreyndir (þó þær séu klisjukenndar fyrir allan peninginn).
Það er sannarlega ekki gefið fyrir lið eins og karlalandsliðið okkar í körfubolta að komast á svona stórmót og það getur vel verið að við fáum ekki tækifæri til að endurtaka leikinn í bráð. Sennilega eru líkurnar minni en meiri á að við fáum að upplifa annað eins á allra næstu árum. Það gerir dagana í Berlín enn sætari og tryggir að enginn mun gleyma þessari veislu svo lengi sem hann lifir.
Nú erum við búin að brjóta ísinn á stórmóti og bráðum frá íslensku fótboltastrákarnir að gera slíkt hið sama. Við lifum á spennandi tímum, krakkar. Tökum þetta allt saman inn og njótum þess í botn.
NBA Ísland óskar strákunum í landsliðinu, öllu þeirra fylgdarliði og ekki síst stuðningssveitinni sem fór með til Berlín til hamingju með frammistöðuna á EM og þakkar í leiðinni fyrir sig. Þetta var ævintýri og það voru forréttindi að fá að fylgjast með þessum sögulega viðburði.