Saturday, September 5, 2015

Siglt inn í söguna


Nú standa yfir merkustu tímar í sögu boltaíþrótta á Íslandi, þar sem karlalandsliðið í knattspyrnu er við það að feta í fótspor kvennaliðsins og tryggja sér sæti á stórmóti og karlalandsliðið í körfubolta er þegar komið á stórmót.

Það var einmitt í dag sem strákarnir í körfuboltalandsliðinu þreyttu frumraun sína á stórmóti, þegar þeir töpuðu naumlega fyrir Þjóðverjum 71-65 í opnunarleik B-riðils Evrópumótsins í Berlín. Eins og tölurnar bera með sér, var munurinn á liðunum ekki mikill í leiknum þó heimamenn væru skrefinu á undan frá fyrstu mínútu.

Oft er það smá skammtur af heppni sem fleytir liðum yfir síðustu hindranirnar þegar þau ná árangri. Gott dæmi um það er Hollandsleikur knattspyrnulandsliðsins ytra á dögunum. Þar duttu nokkur atriði með íslenska liðinu sem höfðu úrslitaáhrif á leikinn. Meiðsli lykilmanns, rautt spjald og vítaspyrnudómur. Svona atriði duttu aldrei með íslenska landsliðinu hér áður, en nýleg dæmi sýna svo ekki verður um villst að lið skapa sér heppni sína mikið til sjálf.

Ástæðan fyrir því að við minnumst á þessa heppni er að ef körfuboltastrákarnir hefðu verið með slíka heppni með sér í Berlín í dag, hefðu þeir getað stolið leiknum og skrifað nýja kafla í körfuboltakatalógana.

Þýska liðið náði nokkrum sinnum yfir 10 stiga forystu í leiknum og virtist algjörlega með leikinn í hendi sér eftir þrjá leikhluta. En eins og í fyrri hálfleiknum, náði íslenska liðið smá áhlaupi og náði að minnka muninn í sex stig þegar skammt var eftir.

Ef áðurnefnd heppni hefði verið með okkur, hefðu skotin hans Jóns Arnórs á þeim tímapunkti dottið niður og við hefðum ekki tapað boltanum í sókninni á eftir. Þjóðverjarnir gáfu okkur séns á að stela þessu í lokin, en það hafðist ekki að þessu sinni.

Auk þess að vera án heppninnar í leiknum, hefði íslenska liðið líka þurft að fá meira sóknarframlag frá mönnum eins og Pavel og Loga.


Þá gengur einfaldlega ekki að skjóta 55% úr vítum í svona leik og verða af 10 stigum á þeim bænum. Það var eflaust þarna sem taugatitringurinn kom best í ljós og við verðum sennilega að fyrirgefa þetta í ljósi þess hve risavaxið verkefnið var.

Það getur komið fyrir á bæstu bæjum að klikka á vítum - meira að segja Dirk Nowitzki klikkaði á tveimur vítum í röð, sem gerist á tíu ára fresti.

Já, Dirk Nowitzki. Þeir voru að spila við Dirk Nowitzki...

Það má vel vera að þú trúir ekki á móralska sigra í körfubolta, að tap sér alltaf tap, alveg sama hvernig á það er lítið - sama hvort það er með tveggja stiga mun eða fjörutíu stiga mun.

Stundum erum við hérna á ritstjórninni svona neikvæð og svartsýn á hlutina, en okkur dettur ekki í hug að vera það þegar kemur að landsliðinu okkar - sérstaklega eftir frammistöðu eins og þessa sem við fengum í Berlín í dag.

Strákarnir eiga hrós skilið fyrir frammistöðuna í dag. Þeir börðust auðvitað eins og ljón, skárra væri það nú, en það sem okkur fannst merkilegra var að þeir létu tilefnið ekki stíga sér til höfuðs.

Reyndasti leikmaður liðsins Jón Arnór Stefánsson viðurkenndi að hann hefði aldrei verið eins taugatrekktur fyrir nokkurn leik og hann var í dag. Það var sannarlega ekki að sjá á honum, enda átti drengurinn frábæran leik og var besti maður vallarins að okkar mati.

Það er með endemum að leikmaður í þessum gæðaflokki skuli vera samningslaus. Hann nær að standa upp úr og skína gegn hvaða mótherjum sem er.

Jón er í Evrópuklassa og myndi sóma sér vel með hvaða liði sem er. Við höfum haldið því fram í tíu ár að hann ætti fullt erindi inn í NBA deildina, því hann er betri en margir bakverðir sem eru með vinnu þar.

Næsta verkefni á dagskrá hjá landsliðinu er Ítalía annað kvöld klukkan 16:00. Þetta er sunnudagurinn 6. september 2015, nánar tiltekið. Þar gildir að gleyma leiknum í dag, þó bragðið í munninum eftir hann sé súrt.

Það má reikna með því að lykilmenn liðsins verði þreyttir og eftir sig á morgun en það verður bara að hafa það. Því ekki að fara dýpra á bekkinn eftir því sem líður á mótið? Allt sem við gerum á þessu
móti er að vinna - pressan er engin, við erum að spila með peninga hússins.

Mikið óskaplega er það sérstakt en um leið gaman fyrir okkur öll - boltafólkið - að fá að upplifa svona spennandi tíma. Fyrir tíu árum síðan hefði enginn ódrukkinn maður spáð því að landsliðin okkar hefðu náð öðrum eins árangri og þau eru að sýna þessa dagana.

Því er vægast sagt súrrealískt að vera að horfra upp á BÆÐI fótboltann (væntanlega) og körfuna í Öskubuskuævintýrum á sama tíma.

Því er ekki úr vegi að hvetja fólk til að gleyma ekki að staldra aðeins við og þefa af blómunum í allri þessari hamingju. Gefum okkur tíma til að njóta þessara spennandi tíma. Þessi helgi er risavaxin og við skulum öll reyna að fá sem mest út úr þessu ævintýri.