Þú hefur sennilega ekkert við Kevin Johnson að gera ef þú ert svo heppinn að vera þegar með Mark Price í liðinu þínu.
Þannig sáu forráðamenn Cleveland þetta leiktíðina 1987-88 þegar Johnson var hluti af leikmannaskiptum Cleveland og Phoenix, sem áttu eftir að hafa mikil áhrif á báða klúbba - aðallega til batnaðar.
Ári síðar var Mark Price orðinn Stjörnuleikmaður og Kevin Johnson árið þar á eftir. Okkur verður oft hugsað til þessara tveggja frábæru leikstjórnenda, sem settu svip sinn á NBA deildina í kring um 1990.
Þeir Price og Johnson voru gjörólíkir leikmenn sem léku í NBA deild sem var gjörólík þeirri sem við fylgjumst með í dag.
Báðir hefðu þeir sómað sér vel í nútíma NBA, en þó sérstaklega Price, sem segja má að hafi verið á undan sinni samtíð.
Liðsfélagi hans frá Cleveland, Steve Kerr, lét einhvers staðar hafa eftir sér að Price hafi fullkomnað listina að kljúfa varnir andstæðinganna í tvímenningi - skottast milli þeirra í vegg og veltu.
Þess utan var Price margfaldur Stjörnuleikmaður og einn besti leikstjórnandi deildarinnar á sínum tíma, en leikstíll hans hefði hentað enn betur í dag. Price skaut mikið, skaut mikið af 3ja stiga skotum, löngu áður en það varð þessi stóri þáttur af öllum sóknarleik eins og það er í dag.
Hann hafði vissulega ekki hraðann hans Curry og fólk þurfti kannski ekki að byrja að dekka hann um leið og hann kom yfir miðju, en að öðru leyti er Price sennilega besta Curry-eftirlíkingin sem okkur dettur í hug.
Cleveland fór frá því að vera drasl yfir í að vera ljómandi gott körfuboltalið undir stjórn Mark Price á sínum tíma. Hann fékk mikla hjálp við þetta verkefni frá mönnum eins og Brad Daugherty og fleirum. Þetta lið komst aldrei yfir Jordan-þröskuldinn í austrinu en var samt hörkulið.
Og Price var hjartað í því, þar sem hann varð meðal annars fyrsti maðurinn annar en Larry Bird til að bjóða upp á 50/40/90 leiktíð árið 1989 þegar hann skilaði 19 stigum og 8 stoðsendingum með skotnýtingu upp á 53%, 44% í þristum og 90% á línunni.
Ástæðan fyrir því að við fórum að pæla í þeim Price og Johnson var að við rákumst á gamlar tölfræðiskýrslur og þegar það gerist, eigum við það til að fara að fabúlera. Og þá koma svona pistlar eins og andskotinn út í bláinn og ekkert samhengi í neinu.
Þegar við vorum að leika okkur að skoða tölfræðina hans Kevin Johnson hjá Phoenix kom eitt og annað skemmtilegt í ljós.
Við höfum alltaf vitað hvað Johnson var góður leikmaður, en við vorum t.d. búin að gleyma því hvernig liðið hans leit út umrædda leiktíð - veturinn 1988-89.
Eins og við minntumst á áðan, voru þriggja stiga skot ekki komin í svona svakalega tísku og í dag árið 1989. En það var nefnilega mesta synd, því ef eitthvað lið hefði getað látið vaða fyrir utan, var það einmitt þetta Phoenix-lið. Ekki vantaði mannskapinn í það - mönnum bara flaug þetta ekki í hug.
Eða hvað myndir þú gera ef þú værir með Dan Majerle, Craig Hodges, Steve Kerr, Jeff Hornacek og Eddie Johnson í liðinu þínu, skorunarmaskínu eins og Tom Chambers og frábæran leikstjórnanda eins og Kevin Johnson sem getur komist fram hjá manninum sínum og inn í teig í hvert einasta skipti sem honum dettur það í hug?
Já, þú myndir líklega skjóta. Við vitum að við hefðum gert það.
Pældu í þessum skyttum! Dan Majerle tók tvisvar þátt í 3ja stiga skotkeppninni um Stjörnuhelgina og þeir Kerr, Hornacek og Hodges unnu hana - oft!
Og þeir tóku ekki einu sinni flest skot í Suns-liðinu árið 1989. Það var Eddie Johnson sem gerði það - tók næstum helminginn af þeim. Og hitti eins og fjandinn, 41%.
Chambers tók líka fleiri 3ja stiga skot en allir kóngarnir, sem er skondið, því hann var aldrei sérstök langskytta. Setti eitt af þremur þetta árið og var innan við 31% á ferlinum.
Hugsið ykkur að vera með allt þetta fæjerpáver í liðinu sínu og nota það ekki neitt. Phoenix-liðið árið 1989 tók samanlagt 481 3ja stiga skot á leiktíðinni og setti 168 þeirra niður (35%).
Ef þetta Suns-lið hefði verið einstaklingur, hefði það verið sjötta afkastamesta langskytta síðustu leiktíðar í NBA deildinni. Stephen Curry tók næstum því 650 þrista 2015 - og setti 286 þeirra niður!
Damian Lillard tók 572 þriggja stiga skot og það vill svo skemmtilega til að félagarnir James Harden og Trevor Ariza hjá Houston tóku báðir 555 slík í vetur.
Þá tók Klay Thompson félagi Curry hjá Warriors einnig fleiri þrista en ´89 lið Suns, eða 545.
Veistu hvað okkur finnst samt merkilegast við þetta Suns-lið?
Já, þú giskaðir rétt. Það sem er fáránlegast við þetta tiltekna lið er að Kevin Johnson var ekki valinn í vesturliðið í Stjörnuleiknum í Houston árið 1989.
Og það þó Magic Johnson væri meiddur og gæti ekki tekið þátt í leiknum. Nei, þeir ákváðu að senda Kareem gamla frekar í leikinn þó hann hefði ekkert erindi þangað. Hann var fjórði miðherji vesturliðsins (Hakeem Olajuwon, Kevin Duckworth, Mark Eaton) þetta árið. John Stockton var eini leikstjórnandi vestursins og lauk keppni með þrennu (11, stigum, 17 stoðsendingum og 12 töpuðum boltum).
Kannski komst Kevin Johnson ekki í Stjörnuliðið af því hann var með svo lélega tölfræði þetta árið...
Nei, bíddu aðeins. Hann var með 20 stig, 12 stoðsendingar*, 4 fráköst 1,7 stolna, 50% skotnýtingu, 88% vítanýtingu, spilaði 29 mínútur í leik (3. mesta í deildinni) og var kjörinn sá leikmaður sem tók mestum framförum í NBA deildinni á tímabilinu.
O.k, kannski ekki það.
En kannski var liðið sem hann var að spila með bara svona lélegt? U, nei. Phoenix var með 29 sigra og 17 töp um Stjörnuleikshelgina. O.k. - ekki það heldur.
Phoenix fékk einn fulltrúa í Stjörnuleiknum, hann Tom Chambers (25 stig, 8 fráköst), sem var fínt. En Kevin Johnson fékk ekki að fara með honum til Houston - og ekki Eddie Johnson heldur (21 stig).
Jabbar var með 10 stig og 4,5 fráköst að meðaltali hjá Lakers ´89 og hætti að spila um vorið.
Við erum alveg handviss um að við höfum bjargað mannslífum með þessum fróðleik, þó hann haldi samhengi á svipaðan hátt og Troll 2.
-------------------------------------------------------------------
* - Það er líka alveg eðlilegt að 12,2 stoðsendingar í leik hafi ekki dugað leikmanni nema í 3. sæti á lista stoðsendingahæstu leikmanna ársins í NBA árið 1989, en svona var að spila í deild með John Stockton (13,6 stoðsendingar í leik) og Magic Johnson (12,8 stoðsendingar í leik).