Wednesday, September 30, 2015

Vörutalning í Vesturdeild


Um daginn kíktum við á Austurdeildina í NBA og komumst að raun um að hún inniheldur aðeins eitt alvöru körfuboltalið. Þegar við segjum alvöru körfuboltalið, erum við að meina lið sem hefur burði til að vinna meistaratitilinn. Þetta var Cleveland eins og þið munið. Það er séns þar.

Nú er hinsvegar kominn tími til að skoða Vesturdeildina, þar sem allt er miklu blómlegra eins og verið hefur síðustu ár. Við skulum velta því fyrir okkur saman hvaða lið í vestrinu hafa brag og burði til að keppa um titil næsta sumar.

Það er nauðsynlegt að taka svona vörutalningar annað slagið, því hlutirnir eru afskaplega fljótir að breytast í NBA deildinni eins og þið vitið. Menn meiðast, mönnum er skipt, menn eru látnir fara, menn eldast, menn fá liðsstyrk og mönnum vex fiskur um hrygg.

GOLDEN STATE WARRIORS

Ríkjandi meistarar í NBA deildinni eru ekki endilega alltaf liðið sem þykir líklegast til að vinna titilinn árið eftir, en þannig er það tvímælalaust í þetta árið.

Meistarar Golden State (það á eftir að taka okkur um það bil þrettán ár að venjast því að skrifa þessi þrjú orð) áttu sannkallaða draumavertíð á síðasta keppnistímabili þegar þeir spóluðu sig fyrstir í mark án þess að lenda í teljandi torfærum á leiðinni.

Það er því ekki óeðlilegt að margir tippi á að Warriors nái að endurtaka leikinn næsta sumar. Golden State kemur til leiks með sama lið og í fyrra, sem er mjög jákvætt í þessu tilviki, því lykilmenn liðsins eru flestir á fínum aldri og eiga nóg eftir.

Hressandi tilhugsun fyrir mótherja Warriors að geta átt von á því að Stephen Curry, Klay Thompson, Draymond Green, Harrison Barnes og Festus Ezeli eigi bara eftir að verða betri og betri næstu árin.

Andre Iguodala og Andrew Bogut eru ekki að verða betri, en ef þeir sleppa við þið vitið hvað og spila sinn leik, verða þeir áfram lykilmenn í leiftursstríði Dubs. Og hugsið ykkur, Kerr og þjálfarateymið hans eru rétt svo búnir með reynsluaksturinn á þessu liði, nú geta þeir farið að gera krúsidúllur.

Þeir segja að það sé hrikalega erfitt að vinna titilinn tvö ár í röð í NBA deildinni, en þrátt fyrir það er Golden State líklegast til að toppa 2016 af þeirri einföldu ástæðu að það er besta liðið - og er að verða betra. Eins og það sé ekki nógu gott fyrir. Þið sjáið því að við höfum ákveðið að stilla Golden State upp skör ofar en restinni af vesturliðunum, sem hlýtur að teljast eðlilegt að svo búnu.

En hvað með hin liðin sem ætla að vera með í slagnum í vestrinu? Kíkjum aðeins á þau.





HOUSTON ROCKETS

Það kom mörgum á óvart að Houston næði alla leið í úrslit Vesturdeildarinnar í vor. Sérstaklega kom það okkur á óvart, því við höfðum einmitt ekki séð nokkurn skapaðan hlut hjá þessu liði í úrslitakeppninni undanfarin ár sem benti til að það ætlaði að fara að vinna eitthvað.

Dallas varð engin hindrun í fyrstu umferð úrslitakeppninnar en þegar kom að ógnarsterku Clippers-liðinu í annari umferð, hafði Houston heppnina loksins með sér eftir að hafa gleymt henni heima árið á undan þegar það lét Portland henda sér í sumarfrí.

Nú gæti einhver sagt að heppni hafi ekkert með það að gera hvort liðið sigrar í sjö leikja seríu - betra liðið vinni einfaldlega alltaf undir þeim kringumstæðum. Einvígi Clippers og Rockets fékk okkur aftur á móti til að efast um þá lógík, slíkar voru sveiflurnar.

Houston var blátt og marið, tárvott, tætt og rifið - gleymt og grafið. Það fipaðist í strax í byrjun á móti Chris Paul-lausu Clippers og lét það rassskella sig í fyrsta leik.

Lenti svo undir 3-1 og allir byrjuðu að skrifa minningargreinar um Rockets, enda var gjörsamlega átakanlegt að horfa upp á spilamennskuna. Baráttuandinn var á bak og burt og það vottaði varla fyrir karakter.

Við förum svo aldrei ofan af því að það var Clippers-liðið sjálft sem sneri einvíginu en ekki Houston.

Jú, jú, hann Josh Smith átti svo sem sinn þátt í viðsnúningnum þegar hann illaðist og tryggði Rockets sigur í fimmta leiknum, en við skrifuðum þetta á Clippers. Liðið varð bara allt í einu bensínlaust á Miklubrautinni og það gerðist svo skyndilega að það komst ekki einu sinni út í kant.

Það er meiriháttar furðulegt að horfa upp á svona lagað gerast en svona er úrslitakeppnin dásamleg - heldur bara áfram að gefa okkur gjafir sem okkur hefði ekki órað fyrir að fá.

Houston var með heppnina með sér í liði gegn Clippers og hún var enn til staðar þegar það mætti Golden State í úrslitum Vesturdeildarinnar. Það hlýtur að flokkast sem smá heppni hjá Houston ef besti leikmaður Warriors ákveður að fara í glæfralegt heljarstökk í miðjum körfuboltaleik. Curry var dálítið rangeygður í smá stund á eftir, en betra liðið vann þessa rimmu eins og aðrar.

Þegar lið er slegið út úr úrslitakeppninni fáum við jafnan að sjá veikleika þess og þannig var það sannarlega með Rockets í vor.

Fyrir utan það að liðið réði bókstaflega ekkert við Warriors á hvorugum enda vallarins, kom það bersýnilega í ljós að James Harden þurfti hjálp við að teyma liðið áfram. Hann þurfti að fá klókan og kláran mann með sér sem gæti bæði leyst hann af hólmi í stigaskorun og leikstjórn.

Svona maður er kallaður Ty Lawson og hann gekk í raðir liðsins í haust frá Denver, þar sem það var litið hornauga að hann væri gjarnan undir áhrifum áfengis - jafnvel þegar hann var að stjórna bifreiðum - sem er auðvitað ekkert gamanmál.

Það gefur augaleið að svona hegðun gengur ekki en Houston er í þannig stöðu að það getur ekki sleppt því að taka sénsinn á manni eins og Lawson þegar hann losnar.

Ef Houston nær að halda Lawson frá etanóli, ávana- og fíkniefnum í vetur, en aldrei að vita hvað þetta lið getur farið langt. Þið munið kannski að meiðsli settu strik í reikninginn hjá Houston í vor, því liðið var án tveggja lykilmanna í úrslitakeppninni. Ef við gefum okkur að þeir verði með næsta
vor og Lawson nái að hanga edrú, þá verður ekkert gamanmál að mæta Rockets.





LOS ANGELES CLIPPERS

Endalokin voru afskaplega sorgleg hjá Clippers í vor eins og þið munið kannski, enda myndi hvaða lið sem er hengja haus eftir að hafa klúðrað einvígi þar sem það komst yfir 3-1.

Eins og við var að búast kölluðu margir þetta skitu hjá Clippers, stíflað kok eða köfnun og höfnun eins og Clyde Frazier hefði örugglega kallað það. Við höfnuðum því að hluta til, en þegar allt er skoðað, sprakk liðið einfaldlega á limminu.

Það er kannski ódýrt að útskýra hrakfarir Clippers með þessum hætti, en hafðu í huga að það veit ekki nokkur maður hvað limm er, svo þetta á sjálfssagt eftir að koma heim og saman.

Alveg eins og hjá Houston, fengum við að sjá veikleika Clippers í björtum ljósum í hverjum einasta leik í úrslitakeppninni. Helsti veikleiki liðsins á síðustu leiktíð var að varamannabekkur þess var ekkert sérstaklega góður í körfubolta. Þú kemst bara ákveðið langt með Chris Paul og Blake Griffin ef þú leysir þá af hólmi með Megasi og Ólafíu Hrönn.

Einhverjir spekúlantar segja að nú sé liðið búið að laga þetta með hrókeringum sínum á leikmannamarkaðnum í sumar, en það er kannski full mikil bjartsýni. Mennirnir sem bættust í hópinn eru engir Draumaliðsleikmenn en þeir eiga þó eftir að skipa Clippers meiru en forverar þeirra ef þeir greinast með starfandi púls.

Mikið má vera ef varamannabekkur Clippers verður ekki betri í vetur en í fyrra, en gallinn er að leikmennirnir sem verma hann eru álíka stöðugir og Íslendingur í athugasemdakerfi. Við erum mjög hrifin af þessu liði og það á bókað eftir að ná langt ef allt er í lagi, en þú hlýtur samt að sjá að lið með meistarametnað sem ætlar að treysta á framlag frá Josh Smith og Lance Stephenson er á ansi þunnum ís.

Og öfugt við helvítis limmið áðan, vitum við öll hvað það þýðir að vera á þunnum ís.

Það þýðir að menn eins og Smith og Stephenson eru alveg jafn líklegir til að skjóta þig í sumarfrí eins og í næstu umferð úrslitakeppninnar.

Það sem stendur upp úr hjá Clippers í sumar er að liðið skuli hafa náð að föndra handa sér nokkra varamenn þrátt fyrir að vera bundið í báða skó launalega.

Framkvæmdastjórahlutinn af Doc Rivers fær sem sagt prik þarna fyrir að ná að setja plástur á opna sárið sem hann opnaði sjálfur. Þá er bara spurning hvort plásturinn heldur. Rétt eins og Golden State ætti Clippers að styrkjast eitthvað örlítið á milli tímabila út á bætingar yngri leikmanna og reynslu þeirra eldri (af að spila saman).

Við bíðum t.d. forvitin eftir að sjá hvaða línu Blake Griffin tekur í deildarkeppninni í vetur eftir að hafa gjörsamlega farið hamförum í úrslitakeppninni í vor. Sá drengur er einfaldlega orðinn alvöru leikmaður, eða ertu búin(n) að gleyma því að hann var með 26/13/6/1/1 að meðaltali í leik í úrslitakeppninni? Nákvæmlega.

Clippers verður ógnarsterkt í allan vetur hvort sem sveppirnir á varamannabekknum skila einhverju eða ekki. Það kom hinsvegar átakanlega í ljós í úrslitakeppninni í vor að þú kemst ekki langt í Vesturdeildinni ef þú þarft að keyra á fimm mönnum (venjulega hafa þeir verið sex hjá Clippers, en Jamal Crawford spilaði eins og blettahýena á smjörsýru í úrslitakeppninni eins og svo oft áður) og því verður liðið eiginlega að vona að Lance Stephenson vakni upp frá dauðum og fari að spila eins og hann gerði hjá Indiana forðum.

Ef það kemur á daginn að Clippers geti leyft sér að hvíla lykilmenn sína almennilega í næstu úrslitakeppni er alls ekki útilokað að þetta lið nái að fara mjög langt. Það er óskaplega mjótt á munum þarna við toppinn í Vesturdeildinni og við höfum líka séð smá heppni til eða frá hafa úrslitaþýðingu í hverri umferð. Þar nægir að nefna einvígi Clippers gegn bæði San Antonio og Houston í vor, þar sem úrslit svo margra leikja réðust á boltaskoppi hingað eða þangað.


SAN ANTONIO SPURS

Það eru skemmtilega skiptar skoðanir á því hvernig San Antonio Spurs á eftir að ganga í vetur og það er engin furða, því aðrar eins breytingar hafa ekki verið gerðar á liði Spurs síðan í fyrri heimsstyrjöld.

Ómögulegt er að spá fyrir um hvernig LaMarcus Aldridge kemur til með að falla inn í leik Spurs, en það er ljóst að bæði hann og klúbburinn þurfa líklega að miðla málum eitthvað. Framlína San Antonio er ansi myndarleg þó félagið hafi látið miðherjana Aron Baynes og Tiago Splitter fara, en í staðinn koma Aldridge og David West og tryggja að liðið er komið með langbestu framlínu deildarinnar.

Sumir setja spurningamerki við ákvörðun Spurs að láta báða hreinræktuðu miðherjana sína fara og taka inn tvo kraftframherja í staðinn, en haldið þið virkilega að San Antonio hefði látið þá fara ef það teldi að það ætti ekki séns án þeirra í úrslitakeppninni? Ekki við heldur.

Þessi ráðstöfun Spurs er að okkar mati ekki annað en enn einn áfellisdómurinn yfir miðherjastöðunni í NBA deildinni.

Gregg Popovich vita hvað þeir eru að gera og þeir hafa greinilega ekki áhyggjur af því að menn eins og Marc Gasol eða Dwight Howard fari eitthvað að pakka þeim saman í miðjunni í framtíðinni.

LaMarcus Aldridge hefur látið það opinskátt í ljós að hann sé ekki hrifinn af því að spila stöðu miðherja, svo það kemur væntanlega í hlut Tim Duncan og Boris Diaw að manna hana hjá Spurs.

Öllu meira áhygguefni í okkar bókum er hvernig þjálfarateymið hyggst púsla Aldridge inn í sóknarleik liðsins, sem eins og þið vitið hefur gengið út á öfluga boltahreyfingu og gengið smurt af því allir leikmenn liðsins hafa kunnað hann afturábak og áfram.

Boltastoppari eins og LaMarcus Aldridge gæti átt eftir að lenda í basli með að aðlagast þessu, maður sem er vanur að fá að klappa boltanum sekúndum saman í annari hverri sókn. Nema Popovich dusti þá rykið af sýsteminu sínu frá því um aldamótin, þar sem allt gekk út á að grýta og grænda. Það verður að teljast afar ólíklegt.

Þið sjáið að við höfum dálítlar áhyggjur af framlínu Spurs þó hún sé afskaplega vel mönnuð. Það eru samt ekki stærstu áhyggjurnar. Engan veginn.

Það sem við höfum raunverulegar áhyggjur af er bakvarðasveit Spurs, því þar er búið að losa þá Corey Joseph og Marco Belinelli og fá lítið í staðinn.

Stærsta vandamálið er svo að Manu Ginobili er búinn á því og Tony Parker er búinn að spila langt undir getu mánuðum saman, trúlega vegna blöndu af sliti, þreytu, álagi og meiðslum.

Möguleikar San Antonio á að gera eitthvað í úrslitakeppninni haldast að okkar mati í hendur við frammistöðu Tony Parker og því þarf eitthvað mikið að breytast í hans leik ef vel á að fara.

Þið munið kannski eftir því hvað Parker var ólíkur sjálfum sér í einvígi San Antonio og LA Clippers í vor. Parker átti þá við meiðsli að stríða og gat ekki beitt sér að fullu, enda féllu meistararnir úr leik í fyrstu umferð - þó það hafi reyndar tekið klassíska seríu til að moka þeim út.

Það verður því áhugavert að sjá hvernig Gregg Popovich og félögum tekst að púsla þessu saman hjá San Antonio í vetur. Menn og konur skiptast í tvær fylkingar þegar kemur að möguleikum liðsins að þessu sinni, margir eru bjartsýnir en aðrir (eins og við) eru frekar svartsýnir á veturinn hjá Spurs. Spurningin er sem sagt hvorn hópinn San Antonio lætur líta illa út þetta árið. Við tippum á okkur, af því það er alltaf þannig.



OKLAHOMA CITY THUNDER

Munið þið hvernig við gáfumst upp á Chicago og sögðum því að fara í rass og rófu á síðustu leiktíð? Það væri geðveiki að ganga svo langt með Oklahoma City, ekki geta leikmenn þar á bæ gert neitt að því þó þeir meiðist alltaf þegar þeir eiga að fara og vinna meistaratitil. Nei, við erum kannski ekki búin að gefast upp á Oklahoma, en þó eru ansi margir búnir að gleyma þessu liði í stóra samhenginu og það er ekki bara af því Oklahomaborg er meira krummaskuð en Eskifjörður miðað við höfðatölu.

Ef þið voruð búin að gleyma því, er Oklahoma alveg ógeðslega sterkt körfuboltalið. Eða, var það að minnsta kosti. Aðeins meiðsli komu í veg fyrir að þetta lið færi aaaansi langt á síðustu árum og það er grábölvað. Sérstaklega fyrir okkur sem höfum hleypt Russell Westbrook inn að hjartarótum okkar.

Þið eruð eflaust ósammála okkur með það, en Oklahoma er að okkar mati langáhugaverðasta liðið í NBA á komandi leiktíð. Að hluta til í deildarkeppninni og svo auðvitað fyrir alvöru í úrslitakeppninni.

Við sem höfum lesið NBA söguna erum öll skjálfandi á beinunum yfir brákuðum beinunum í löppunum á Kevin Durant. Stórir menn og brotin bein eru yfirleitt ekki ávísun á neitt annað en svartmálm og þunglyndi í NBA deildinni.

Því liggjum við á bæn fyrir hann KD vin okkar. Hann er svo dásamlega vel innréttaður piltur að hann á ekki skilið að lenda í meiðslum sem hóta að taka hann varanlega úr umferð. Það yrði bara óbærilegt - óbærilegra Milan Kundera.

Fyrir utan bölvuð meiðslin sem hafa verið að gera okkur öll geðveik, er nú ný breyta í Oklahoma-samhenginu sem við eigum eftir að sjá: Nýr þjálfari.

Flestir eru spenntir að sjá hvað Billy Donovan gerir sem þjálfari í NBA deildinni eftir að hafa gert fína hluti í einhverju sem kallað er háskólakörfuboltinn í Bandaríkjunum. Donovan rennir ekki alveg blint í NBA sjóinn og verður með nýrekinn Pelikanaþjálfarann Monty Williams við hlið sér á
bekknum, sem er jákvætt.

Við eigum samt að sjá hvernig Donovan gengur að vinna með Kevin Durant og sérstaklega Russell Westbrook. Það er sannarlega stærsta spurningin hjá Oklahoma í vetur.

Ef Donovan er klár, á hann ekki eftir að breyta mjög miklu hjá þessu liði til að byrja með, því það þarf ekki að breyta miklu hjá því í deildarkeppninni.

Ef Donovan er hinsvegar mjög klár, á hann eftir að breyta leik liðsins nóg til að koma því yfir hindranirnar sem hafa orðið á vegi þess þegar það er á annað borð með lykilleikmenn sína heila.

Þetta hljómar einfalt, en er það sannarlega ekki og kannski fáum við að sjá að Scott Brooks hafi bara verið ágætist þjálfari eftir allt saman. Vonandi ekki, en... well.

Þau ykkar sem lesið NBA Ísland vitið líklega að við höfum verið ósátt við stefnu Oklahoma í leikmannamálum allar götur síðan það lét James Harden fara forðum. Þetta ósætti minnkaði ekki þegar félagið ákvað að semja við Dion Waiters og hefur nú náð hámarki eftir eftir að það gaf Enes Kanter samning sem nemur 92% vergri landsframleiðslu Búlgaríu.

Enes Kanter er versti varnarmaður í NBA deildinni. Munið þið hvað við gerðum alltaf grín að Carlos Boozer fyrir að vera lélegur varnarmaður? Hann er Dennis Rodman við hliðina á Kanter.

Og það versta við það hvað Kanter er lélegur varnarmaður er ekki að hann kunni ekki að spila vörn. Það versta við það er að hann hefur engan áhuga á að spila góða vörn. Honum er bara drullusama.

Ætli hann sjái það ekki þannig fyrir sér að hann fái ekki borgað fyrir að spila vörn. Það er svo sem sannleikskorn í því, hann fær borgað fyrir að skila 20/10 leikjum, en gallinn er bara að í hvert skipti sem Kanter skilar 20/10 leik, færir hann mótherja sínum 25/15 leik á hinum enda vallarins.

Þegar félag vinnur svona einbeitt gegn vilja okkar trekk í trekk, er augljóst að við förum í fýlu og drama. Hvað eru þessir menn að hugsa? Langar þá ekki að vinna titla? Ætla þessir vitleysingar virkilega að vera með lið með Kevin Durant, Russell Westbrook og Serge Ibaka í 5-6 ár á hátindi ferilsins og hafa ekkert upp úr því annað en eina skitna ferð í úrslitin (2012)?

Sem betur fer fáum við svör við öllum þessum spurningum á næstu árum en vitið þið hvað? Við erum ekki bjartsýn fyrir hönd Oklahoma. Ekki baun. Ungu stjörnurnar í liðinu tryggja að það getur ekki verið annað en gott, en þið fyrirgefið okkur ef við spáum ekki meistaratitli á lið með óreyndan NBA þjálfara, brothættar stjörnur og menn eins og Dion Waiters og Enes Kanter í lykilhlutverkum.

Við munum sannarlega manna Westbrook-vaktina og taka frá sæti á Westbrook-vagninum eins og við erum vön, en við erum hætt að hafa meistaravonir fyrir hönd þessa frábæra liðs. Það er bara of sárt að verða alltaf fyrir þessum vonbrigðum á hverju ári.