Monday, September 7, 2015
Allir á EM
Karlalandsliðið okkar í knattspyrnu tryggði sér í gærkvöldi sæti á EM á næsta ári með því að ná sér í stig gegn Kazakstan á heimavelli. Við viljum nota þetta tækifæri til að óska piltunum, þjálfarateyminu og öllum aðstandendum liðsins til hamingju með þennan ótrúlega árangur.
Það er í einu orði sagt frábært að fá að upplifa það að tvö af landsliðunum okkar séu að ryðjast áður ótroðnar slóðir - og það á sama tíma. Sjötti september verður líklega merktur með rauðu í dagatalinu hjá mörgum, þar sem strákaliðið okkar komst loksins á stórmót. Þeir eiga hrós skilið ekki síður en félagar þeirra í körfunni og nú er hálf þjóðín farin að skipuleggja sumarfríið sitt í kring um EM í Frakklandi næsta sumar.
Það er hálf furðulegt að hugsa til þess hvaða árangur hefur náðst hjá þessum liðum, svo magnaður er hann. Víða mátti sjá og heyra fólk í geðshræringu í kring um knattspyrnuleikinn. Gleðitár runnu niður kinnar og gæsahúð var á öðrum hverjum manni og konu. Fólk veit hreinlega ekki hvernig það á að haga sér í allri þessari hamingju.
Efnisflokkar:
Knattspyrna
,
Og nú að allt öðru
,
Ruglað saman reitum
,
Sigurgöngur
,
Sigurvegarar
,
Sögubækur
,
Tímamót