Það væri hræsni af okkar hálfu að fara að gagnrýna mann fyrir að leggja hendur á vini sína, hvort sem um er að ræða körfuboltamann eða ekki. Góðir vinir geta verið alveg gjörsamlega óþolandi og stundum er bara ekki annað í stöðunni en að lemja þá aðeins.
Menn eins og Blake Griffin verða hinsvegar að reyna að hemja sig þegar kemur að þessu, því hann hefur allt of miklu að tapa. Það er víst of seint að reyna að ráðleggja honum - barnið er dottið ofan í þann brunn og löngu drukknað.
Öll gerum við mistök, þó það nú væri, en þau eru af dýrari og óþægilegri gerðinni sem hann Blake okkar gerði sig sekur um á dögunum, þegar hann ákvað að lemja 170 sentimetra háan vin sinn inni á og utan við veitingastað í Toronto. Við ætlum ekki að rekja þetta mál hér af því þetta eru gamlar fréttir og leiðinlegar. Við höfum alltaf meiri áhuga á að kryfja hvað svona lagað þýðir fyrir körfuboltann sjálfan.
Nú er Griffinn kominn með glóðurauga á báðum og ekki aðeins kominn í svörtu bókina fyrir asnaskap, heldur kórónaði hann þetta endanlega með því að mölva á sér hendina við að berja dreng tittinn vin sinn. Hvar er hafnaboltakylfa þegar menn þurfa á henni að halda?
Nei, svona grínlaust, þá eru þetta slæm tíðindi fyrir bæði Blake Griffin og Clippers... eða hvað?
En allt þetta havarí í kring um Griffin fékk okkur til að hugsa aðeins málið - rýna aðeins í Clippers-liðið og skoða hvað er í gangi þar á bæ. Það er nefnilega komin upp helvíti skondin staða hjá liðinu, því eins og flest ykkar vita líklega, er Clippers búið að vinna næstum því alla körfuboltaleikina sína síðan Griffin meiddist um jólin.
Og það er fjandi merkilegt.
Nú er leikjaplanið hjá Doc Rivers og félögum reyndar ekki búið að vera nein helför og ef við skoðum þessa átján leiki sem liðið hefur spilað síðan Griffin datt út vegna fyrri meiðsla sinna á annan í jólum, er ekki beint hægt að segja að það sé að spila við Golden State og San Antonio til skiptis.
Það er nóg af skítaliðum í NBA deildinni og Clippers-liðið er búið að glíma við nokkur þeirra síðan um jólin.
Málið er bara að liðið er búið að vinna fimmtán þeirra og tapa aðeins þremur. Það er fjandi gott fyrir hvaða lið sem er og það sem er athyglisverðast við þetta allt saman er að liðið var ekki nema 17-13 (57%) um jólin þegar Blake meiddist, en er búið að vinna 83% leikja sinna eftir að sá freknótti datt út!
Við vitum að lið eru vön að bíta í skjaldarrendur og leggja enn harðar að sér þegar lykilmaður eða menn detta út og oft ná þau að brúa bilið að einhverju leyti. En að það taki svona stórt stökk upp á við? Hvaða rugl er það?
Þarna komum við að kjarna málsins - og þar skiptir engu máli hvort Blake Griffin barði einhvern eða ekki, hvort hann hand- eða fótbrotnaði, eða hvort hann fílar Dave Lombardo eða Paul Bostaph. Það sem skiptir máli er hvort þetta Clippers-lið, með þennan mannskap, er yfir höfuð að gera sig.
Þetta er náttúrulega ekkert ný pæling - hvort Clippers sé að gera sig eður ei. Við erum öll búin að pæla í þessu á hverju vori í minnst þrjú ár. Það er eins og þeir séu alltaf hársbreidd frá því að gera eitthvað (meira) í úrslitakeppninni, en þetta vill einhvern veginn aldrei smella fyrir þá.
Þið munið kannski hvernig þetta var síðasta vor, þegar við héldum ef til vill að nú yrði þetta ár Clippers þegar Griffin og félagar náðu að slá San Antonio út í epísku einvígi í fyrstu umferðinni - langbesta einvíginu í allri úrslitakeppninni - sem geislaði af hreinum gæðum.
En það er/var alltaf það sama uppi á teningnum hjá aumingja Clippers. Það er alltaf einhver Chris Paul meiddur og þeir ná alltaf að guggna á því. Skitan þeirra gegn Houston í vor var óafsakanleg og hefði ef til vill átt að marka einhvers konar endalok fyrir þennan mannskap, en þið munið að það er rosalega auðvelt að sitja við skrifborð í Laugardalnum og segja atvinnuíþróttafélagi sem fer með veltu Samherja í skúringagræjur hvernig það á að starfa.
Það er ofureðlilegt að menn séu ragir við að sprengja upp lið sem er þó ekki lengra frá takmarki sínu, því við megum ekki gleyma því að Clippers hefur oftar en ekki verið á eða við toppinn yfir bestu sóknarlið deildarinnar og þó varnarleikurinn, fráköstin og bekkurinn hafi verið það sem upp á vantaði.
Það vantaði augljóslega eitthvað, en það vantar minna upp á hjá Clippers en hjá 25 öðrum klúbbum í deildinni.
Við erum búin að vera að spá í þetta púsluspil hjá Clippers í amk þrjú ár en þessi blússandi velgengni Clippers án hans síðustu vikur hefur fengið okkur til að hugsa dæmið upp á nýtt. Það er ekkert nýnæmi að Clippers gangi vel þó önnur hvor stórstjarnan detti út.
Á síðustu og þarsíðustu leiktíð duttu bæði Chris Paul og Blake Griffin út í nokkra daga/vikur og liðið hélt ágætis dampi á meðan. Chris Paul tók við keflinu og spilaði eins og kóngur þegar Griffin datt út, nákvæmlega eins og hann er að gera núna.
Og þegar Paul datt út í nokkra leiki síðast, fór Griffin frá því að vera frábær leikmaður yfir í að spila á MVP-kalíberi.
Svona eins og hann spilaði í fyrstu tíu leikjunum í úrslitakeppninni í fyrra, áður en Houston-liðið svæfði hann og restina af Clippers-liðinu.
Sumir taka ef til vill ekki eftir því, eða pæla bara ekki í því, að mannskapurinn hjá Clippers-liðinu passar í rauninni ekkert brjálæðislega vel saman.
Þar eigum við helst við þá Blake Griffin og DeAndre Jordan, sem báðum líður best þegar þeir eru troðandi yfir fólk eins og Zach Lowe útskýrði í grein sinni á dögunum (og mörgum greinum þar á undan).
Byrjunarliðsmenn Clippers eru hinsvegar svo hæfileikaríkir að þeir ná að láta sóknarleikinn ganga allt að því fullkomlega upp þrátt fyrir að þeir Griffin og Jordan eigi það ef til vill til að þvælast aðeins fyrir hvor öðrum.
Griffin gefur Jordan teiginn eftir og spilar uppi á lyklinum í staðinn og hefur myndað bullandi kemistíu með þeim Jordan og Paul, þar sem þeir skiptast á að grýta boltanum eitthvað út í loftið og láta Jordan stökkva á eftir honum og meiða fólk með honum. Engin eldflaugaverkfræði, en ákaflega hagkvæmt og árangursríkt, ekki síst gegn slakari vörnum deildarinnar.
Ofantalið eru þekktar staðreyndir, en téður Lowe fór með Griffin-pælinguna skrefinu lengra í áðurnefndum ljómandi fínum pistli sínum á ESPN á dögunum þar sem henn veltir því fyrir sér hvort framherjinn magnaði sé ef til vill ekki bara biti sem passi illa í Clippers-púslið heldur í raun í deildina alla. Það er mikið til í þessu og við höfum oft pælt í þessu.
Blake Griffin er svívirðilega hæfileikaríkur körfuboltamaður með magnað vopnabúr, en það er aftur hægt að setja spurningamerki við það hvort hann passar inn í þessa nýju NBA deild sem hann er partur af. Nú ætti það að vera alveg gefið að maður með hæfileika eins og Griffin ætti að geta blómstrað í hvaða liði sem er - og hann gerir það á sinn hátt - en þessir fáu veikleikar sem hann hefur, eru aftur á móti frekar óheppilegir fyrir mann í hans stöðu.
Í hinum fullkomna heimi eru allir fjarkar eins og blanda af Draymond Green hjá Golden State og Serge Ibaka hjá Oklahoma hvað það varðar að þeir eru bæði léttir á fótum og geta varið körfuna í vörn og geta teygt á vörnum út fyrir þriggja stiga línu í sókninni og helst verið góðir sendingamenn.
Með öðrum orðum, þurfa stórir menn í NBA í dag að geta spilað þrjár stöður í vörn og einar tvær í sókninni. Þetta eru glórulausar kröfur, en svona er þetta víst í dag.
Blake Griffin tékkar í nokkur boxin. Hann er með frábæra boltameðferð og framúrskarandi sendingamaður, svo góður að okkur er til efs að sé hægt að finna tíu leikmenn í sögunni í hans stöðu sem hafa gert þetta betur. En þá er það víst að verða upptalið.
Griffin er að vísu ljómandi fínn af millifærinu og út á átján til tuttugu fetin en þó hann sé aðeins farinn að fikta við að taka 3ja stiga skot, er ekki hægt að tikka í það box hjá honum ennþá. Mikilvægasta atriðið er svo líklega varnarleikurinn, það að verja dolluna sjálfa. Það er jú eitt mikilvægasta atriðið í körfuknattleik, en þar vantar nokkuð upp á hjá Griffin. Hann getur hoppað til tunglsins og til baka, en hann er bara ekki skotblokkari eins og menn eins og Serge Ibaka.
Zach Lowe kemst að þeirri niðurstöðu í grein sinni að líklega væri hollast fyrir Doc Rivers og félaga á skrifstofunni hjá Clippers að byrja á því að reyna að skipta DeAndre Jordan eða Chris Paul í burtu áður en þeir hugleiða að losa sig við Griffin.
Það getur vel verið að þú hafir skoðun á því hvort félagið ætti að losa einhvern af þeim eða alla, en okkur þykir ekki ástæða til að þvinga fram einhvert svar við þeirri spurningu.
Við höfum bara gaman af því að analísera Clippers-liðið og spilamennsku eins besta körfuboltamanns heims.
Lið sem er með Chris Paul, Blake Griffin, DeAndre Jordan og JJ Redick innanborðs getur ekki unnið innan við 50 leiki þó það fylli byrjunarliðið og bekkinn með veðurfræðingum af Rúv.
Eins og við komum inn á áðan, hlýtur að vera freistandi að reyna að hanga á þessu liði og treysta á að það detti í lukkupottinn einu sinni af því það er svo grátlega nálægt því að keppa um titil. Eða var það, því sennilega er Warriors-liðið í dag bara orðið allt of sterkt fyrir alla mótherja sína í deildinni.
En það er líka þar sem hnífurinn stendur í beljunni. Rivers og félagar eru búnir að þenja leikmannahópinn eins og þeir geta í allar áttir og hafa með örvæntingarfullum hætti reynt að fylla í skörðin sem staðið hafa opin hjá liðinu í nokkur ár (eins og til dæmis minni framherja staðan sem skiptist á milli þriggja manna sem valda hennni ekki í dag).
Erfiðasta púslið í NBA deildinni er alltaf blessuð launamálin og að fá þau til að ganga upp. Það er séð fyrir hverri krónu hjá Clippers og í raun er félagið bundið í báða skó, en það er líka umræða sem okkur dettur ekki í hug að glíma við, enda erum við engir hagfræðingar.
Því miður, eru yfir 90% líkur á því að við séum búin að sjá þessa bestu kynslóð í Los Angeles-sögu Clippers ná eins langt og hún mun nokkru sinni fara, því það eru innan við tíu prósent líkur á því að félagið geti vaðið út á leikmannamarkaðinn og beitt einhverjum sjónhverfingum og töfrabrögðum til að bæta sig nógu mikið til að verða raunverulegt meistaraefni.
Svona er það djöfullega erfitt að vinna í NBA deildinni. Hvort sem eigandi félagsins er elliær kynþáttahatari eða geðsjúkur grilljarðamæringur.