Thursday, February 4, 2016
Það eiga allir rétt á að sjá Golden State
Hvað er hægt að segja annað eftir aðra eins flugeldasýningu og Golden State bauð upp á þegar það vann 44. leikinn sinn í vetur í stórskotaeinvígi við Washington í höfuðborginni. Mönnum hefur verið þakkað fyrir annað eins og Steph Curry og félagar sýndu í nótt, í brjáluðum óld-skúl 134-121 sigri sínum.
Eins og svo oft í vetur, fór Curry fyrir sínum mönnum, en í þetta sinn af meiri krafti en áður. Leikmenn Washington skynjuðu að þetta gæti orðið helvíti langt kvöld þegar hann sallaði sjö þriggja stiga körfum í andlitið á þeim í fyrsta leikhluta. Curry skoraði 36 stig í hálfleik og hefur þrisvar sinnum skorað 35+ stig í hálfleik á ferlinum - oftar en nokkur annar maður í NBA deildinni á síðasta áratug.
Hann lauk keppni í nótt með 51 stig úr 28 skotum, þar af ellefu þrista. Það var ekki verið að eltast við nein met á þeim bænum frekar en venjulega. NBA metið yfir flesta þrista í leik er 12. Þú getur rétt ímyndað þér hvort Curry hefði átt séns á að setja tvo þrista í öðrum, þriðja og fjórða leikhluta í nótt ef hann hefði virkjað sinn innri Kobe...
John Wall var frábær hjá Washington með 41 stig og 10 stoðsendingar, en hefði alveg eins getað ekið um völlinn á Land Rover með blæju, syngjandi lög með Stjórninni. Ekkert sem hann hefði getað gert hefði breytt niðurstöðu leiksins, þó við verðum að gefa Wiz kredit fyrir að reyna að hanga inni í leiknum.
Mikið var skrifað í metabækur eftir þennan leik eins og að því virðist í hvert skipti sem þetta Warriors-lið dettur í smá stuð.
Klay Thompson skoraði 24 stig og sex þrista en það tók enginn eftir því.
Draymond Green skoraði 12 stig, hirti 10 fráköst, gaf 12 stoðsendingar og varði 5 skot - það tóku fáir eftir því líka, þó hann sé búinn að slá þrennumetið á tímabili hjá Warriors (10) þó sé ekki einu sinni kominn Stjörnuleikur.
Það sjúkasta við þetta allt saman, ef þið spyrjið okkur, er tölfræðin hans Steph Curry í bull-skotunum. Þá erum við ekki að meina öll sirkus-skotin sem hann hitti úr inni í teig, þó nóg væri af þeim. Nei, við erum að meina skotin hans sem koma bókstaflega neðan úr bæ.
Þriggja stiga línan í NBA er í c.a. 7,3 metra fjarlægð frá körfunni í NBA og þykir flestum það alveg nóg, nema Curry. Hann er búinn að taka 99 skot í vetur af meira en 8,2 metra færi og hitta úr 50 þeirra. Það er náttúrulega alveg eðlilegt, eins og sést á því að restin af leikmönnunum í NBA deildinni eru að skjóta 24% af þessu sama færi.
Það er í fúlustu alvöru kominn tími til fyrir hinn almenna íslenska bol að taka sér tak og fara að horfa á NBA ef hann er ekki þegar að því.
Fólk sem hefur á einhvern hátt gaman af íþróttum á að horfa á Curry og Golden State spila körfubolta núna, því það verður talað um þessa spilamennsku eftir tuttugu ár og það verður talað um hana eftir fimmtíu ár.
Það er bylting í gangi. Nú er mál að gefa enska boltanum, spænska boltanum, handboltanum, íshokkíinu, blönduðu bardagaíþróttunum, hestunum og briddsinu pásu í bili og fara að horfa á Golden State. Það er algjört hneyksli að missa af þessu!
Farið því og látið fólk vita. Það eiga allir rétt á því að vita að sé eitthvað til sem heitir Stephen Curry og Golden State, svo rjúkið út í glugga eða út á götu og öskrið:
"KARLAR, KONUR OG BÖRN! ÞIÐ VERÐIÐ AÐ HORFA Á GOLDEN STATE... NÚNA! TAKIÐ YKKUR TAK OG VERÐIÐ VITNI AÐ KRAFTAVERKINU!"
Eða eitthvað þannig.
Grínlaust, þetta er rugl!
Efnisflokkar:
Draymond Green
,
Metabækurnar
,
Netbrennur
,
Stephen Curry
,
Warriors
,
Þristar