Thursday, February 4, 2016

Hvernig varð Warriors-liðið svona gott?


Skondið. Við rákumst á grein í gær sem við skrifuðum um Warriors í desember árið 2012, þar sem við vorum á einlægan en samt nokkuð kaldhæðinn hátt að spá í það hvernig í fjandanum stæði á því að Golden State væri allt í einu farið að vinna körfuboltaleiki. Það var engin furða, því þið eruð sjálfsagt ekki búin að gleyma því að þetta Warriors-lið var brandari, okkur liggur við að segja áratugum saman.

Án þess að vera að berja okkur á brjóst, verðum við að minnast á það að í þessum pistli fyrir þremur árum vorum við að hrósa Warriors fyrir að hafa losað sig við Monta Ellis og bundum vonir við að liðið yrði betra eftir að hann færi. Það kom sannarlega á daginn, þó okkur hefði ekki órað fyrir því hvurslags bylting ætti eftir að eiga sér stað hjá félaginu. Það þarf svo sem enga eldflaugaverkfræðinga til að gefa sér það að körfuboltalið verði betra eftir að það losar sig við Monta Ellis, en gefið okkur þennan litla mola, fjandinn hafi það.

Við vorum ekki alltaf svona gáfuð, því þó við finnum ekki þau skrif (eða nennum ekki að leita að þeim) vorum við á einhverjum tímapunkti að rífast út í forráðamenn Warriors fyrir ákvarðanatöku þeirra. En þið getið ekki verið að bleima okkur fyrir að vera neikvæð út í félag sem átti sér áratuga langa sögu sem fjallaði ekki um neitt annað en undirmigur og brúnar brækur.

Spólum þrjú ár fram í tímann og þessi eitt sinn glórulausi klúbbur er kominn alveg út á hinn endann í litrófinu - hann er orðinn glórulaus af því hann er svo góður!

Við vitum að við erum alltaf að missa allar mögulegar gerðir af líkamsvessum yfir þessu Warriors-liði, en eins og við segjum ykkur alltaf, þetta lið er bara svo andskoti innspírerandi að við getum ekkert að þessu gert.

Kvöld eftir kvöld hristum við bara höfuðið og hlæjum út í nóttina á brjálæðislegri vampíruvaktinni, en hugsum um leið sorgmædd til alls fólksins sem vegna áhuga- eða þekkingarleysis síns - nú eða bara af því það er svo andskoti vitlaust - er ekki búið að uppgötva þessa bestu afþreyingu sem völ er á í heiminum um þessar mundir. Veit ekki af þessari fagurfræðilegu íþróttabyltingu sem er ólík öllu sem við höfum séð áður.

Það er alveg magnaður fjandi hve mörg félög í NBA deildinni hreinlega átta sig ekki á því að þau vaða um í villu og eyða milljörðum króna og dýrmætum mánuðum og árum undir því yfirskini að þau séu að búa til góð körfuboltalið. Við áttum okkur alveg á því að það er hunderfitt að byggja upp gott lið, hvað þá lið sem á að ná alvöru árangri, en ef sauðnautin sem stýra sorglegustu klúbbunum í NBA deildinni myndu gefa sér smá tíma til að skoða félög eins og Golden State, myndu þau átta sig á því á fimm mínútum að öll þeirra plön eru gjörsamlega fáránleg. Þetta á við rekstur eins og hefur verið stundaður hjá klúbbum eins og Sixers, Nets, Knicks og Kings undanfarin ár svo einhverjir séu nefndir.

Undirstöðuatriðið sem þarf helst að vera í lagi ef byggja á upp sæmilegt körfuboltalið er að vera með eigendur sem eru ekki súrrandi geðveikir.

Því miður  falla nokkrir klúbbar í NBA deildinni strax á þessu prófi og þið þekkið nokkra þeirra. Sjáið til dæmis eigendur Sacramento Kings og Brooklyn Nets. Þessir menn hafa ekki hugmynd um hvað þeir eru að gera og ákvarðanataka þeirra keyrir klúbbana þeirra í hvert átakanlegt strandið á fætur öðru.

Klúbbarnir sem eru svo heppnir að vera með sæmilega ógeðveika eigendur, hvað þá eigendur sem eru tilbúnir að eyða smá peningum og tilbúnir í að ráða fólk á skrifstofuna sem þeir treysta til að vinna vinnuna sína, eru strax með risavaxið forskot á alla hina.

Enn og aftur gerum við okkur grein fyrir því að skrifstofufólk sem hefur þekkingu og hæfileika til að byggja upp meistaralið í NBA deildinni vex ekki á trjánum. Langt í frá. En það eru nokkur atriði sem er hægt að hafa í huga þegar kemur að því að leita að fólki til að stýra körfuboltaklúbbum eins og öðrum sportklúbbum. Það er hægt að leitast við að ráða fólk sem er með góðar ferilskrár og allra helst fólk sem hefur reynslu af því að vinna körfuboltaleiki - kemur frá klúbbum með sigurhefð. Það er ekki til endalaust af svona fólki, en það er þarna innan um.

Golden State hefur náð að sanka að sér ljómandi fínum mannskap. Eigendurnir virðast sæmilega heilir, það er með goðsögn og reynslubolta eins og Jerry West í stjórninni, framkvæmdastjórnn Bob Meyers virðist vita hvað hann er að gera og þegar hér er komið við sögu, förum við að heyra nöfn sem við könnumst betur við.

Þessi lygilega velgengni sem Warriors nýtur um þessar mundir er uppskera gríðarlegrar vinnu, en það er ekki bara snilligáfa sem gerir það að verkum að dæmið hefur gengið upp hjá þeim. Það er líka góður dass af heppni í þessu öllu saman.

Þó þjálfaratíð Mark Jackson hafi að hluta til einkennst af hálfgerðum vitleysisgangi, sérstaklega þegar kom að samskiptum Jakcson við samstarfsfólk sitt, verður það ekki af honum tekið að hann átti sinn þátt í að koma félaginu á rétta braut. Eins og við sögðum ykkur var búinn að vera losarabragur á Warriors meira og minna áratugum saman, en Jackson tókst að ná vel til leikmanna og gera sitt til að breyta kúltúrnum hjá félaginu.

Jackson gerði líka óhemju vel þegar hann á einhvern stórfurðulegan hátt náði að gera Golden State að bullandi fínu varnarliði þó hann hefði enga fyrri reynslu af þjálfun. Sóknarleikur liðsins var vandræðalega lélegur, sérstaklega á miðað við efniviðinn sem var til staðar í leikmannahópnum, en varnarleikurinn góður og Jackson tókst líka að ná nokkuð vel til leikmanna eins og Stephen Curry og fylla þá af sjálfstrausti.

Samstarfsörðugleikar og lélegur sóknarleikur urðu Jackson að falli á sínum tíma og hann var látinn fara þrátt fyrir að hafa augljóslega rifið liðið alveg helling upp frá því sem áður var.

En nýjir eigendur voru ekki saddir, þeir vildu ná lengra og ákváðu að láta Jackson fara, sem var mjög umdeild ákvörðun út á við, þó þeir sem þekktu til hjá félaginu vildu meina að það hafi ekki verið annað í stöðunni en reka manninn.

Var það rakalaus útsjónasemi og snilld sem varð til þess að félagið réði Steve Kerr - annan nýliða í þjálfun - til að taka við af Jackson fyrir einu og hálfu ári?  Kannski að hluta til, en það getur enginn sagt 100% til um það hvort menn verða góðir þjálfarar í NBA eða ekki, sérstaklega ekki ef þeir eru ekki með neina reynslu.

Hvernig á óreyndur maður eins og Steve Kerr að geta hoppað inn í þjálfarastólinn og brillerað meðan reynsluboltar eins og David Blatt eru reknir eftir rúmt ár í starfi (þó menn séu auðvitað ekki sammála um hvort sú uppsögn var réttmæt eða ekki)? Það getur enginn sagt til um það.

En eins og þið hafið sennilega öll séð, stökk Kerr inn í djobbið og stóð sig eins og hann hefði aldrei nokkurn tímann gert neitt annað.

Og það eru engar ýkjur. Mann helvítið er 111-19 í deildarkeppninni og gerði liðið að meistara í sumar! Viltu ekki bara skottast út og toppa það? Einmitt.

Þegar búið er að detta í vel úthugsaðan lukkupottinn með þjálfarann, þarf að ráðast í flóknasta reikningsdæmið af þessu öllu - að púsla saman körfuboltaliðinu sjálfu í þeirri von um að fá það til að vinna körfuboltaleiki.

Við nennum engan veginn að rekja ævisögu allra leikmanna Warriors og rifja upp hvernig stóð á því að þeir komu til félagsins og hafa skilað því mikilvæga hlutverki sem þeir sinna í dag, en okkur langar samt að stikla á stóru yfir það sem skiptir mestu máli í þessu sambandi.

Það skiptir ákveðið miklu máli að vera lélegur í ákveðinn tíma þegar byggja á upp NBA lið nema þú heitir LA Lakers og getir lokkað til þín menn með lausa samninga (þó slíkt hafi ekki beinlínis gengið vel hjá félaginu undanfarin ár). Og bræður og systur, Golden State var lélegt - og það í mörg ár. Og mörg léleg ár skila nokkrum ferðum í lotteríið og þessar ferðir skiluðu piltum eins og Stephen Curry, Klay Thompson, Draymond Green, Festus Ezeli og Harrison Barnes, ungviðinu sem er þungamiðjan í liðinu.

Bættu við þetta nokkrum misgóðum fagmönnum eins og Andrew Bogut, Andre Iguodala, Shaun Livingston og Leandro Barbosa og þú ert að verða komin(n) með helvíti góðan pakka.

Eins og við tíunduðum svo ítarlega í pistli hérna um daginn, er svo ekki nóg að vera með góðan þjálfara og góða leikmenn ef vinna á titla í NBA - þú þarft að vera með amk einn Heiðurshallarmeðlim, helst tvo eða þrjá, og slatta af algjörum fagmönnum til að fylla rulluspilarastöðurnar.

Það var ekkert í stöðunni fyrir þremur árum að Golden State yrði með leikmann í sínum röðum sem spilaði betur en allir körfuboltamenn í heiminum árið 2015 og 16, leikmann sem væri svo hæfileikaríkur og sérstakur að hann ætti bókstaflega eftir að bylta leiknum! En þannig er þetta í dag. Stephen Curry var stjarna, ljómandi fín skytta, en ekkert meira en það. Hann var efnilegur og skotviss, en hann var með ökkla úr postulíni og var álíka mikill um sig á velli og Sigga Beinteins. Ekki beint þessi klassíska uppskrift að einum besta, ef ekki besta, körfuboltamanni í heimi, eh?

Munið þið líka hvað er ískyggilega stutt síðan að David Lee var aðalmaðurinn í fjarkanum hjá Golden State? Hann átti að vera meðreiðarsveinn Curry í veggnum og veltunni og halda áfram að spila eins og Stjörnuleikmaðurinn sem hann var, en meiðsli gerðu það að verkum að hrokagikkurinn Draymond Green fékk megnið af mínútunum hans í staðinn.


Og það var þessi tilviljun sem lagði síðasta steininn í þennan massífa arkítektúr sem er meistaralið Golden State í dag. Draymond Green blómstraði frá fyrstu mínútu þegar hann kom inn í liðið. Hann var ekki sóknarmaðurinn sem Lee var, en það skipti ekki nokkru einasta máli því bakvarðapar liðsins var orðið besta bakvarðapar heims og þjálfarinn var búinn að leggja grunn að sýstemi til að láta þá - og restina af liðinu - blómstra sem aldrei fyrr.


Eitt af því sem gerir Golden State að svona ógeðslega skemmtilegu og merkilegu liði er hvað það heldur alltaf áfram að koma okkur á óvart, eða í rauninni sjokkera okkur. Við horfðum á liðið verða betra og betra á síðustu leiktíð og við horfðum á Stephen Curry spila betur en nokkurn annan körfuboltamann. Og svo horfðum við á liðið vinna titil. Við sáum það hafa ágæta heppni með sér, en við sáum það vinna titilinn verðskuldað, án þess að hiksta oftar en tvisvar.

Þarna hefði einhver haldið að væri "komið gott" af svo má segja, því það kemur mjög oft fyrir í NBA deildinni að lið sem vinna meistaratitil verða feit og löt, södd, slá slöku við og missa jafnvel einn eða fleiri leikmenn í rúmið með "meira-veikina" eins og hún er kölluð; þegar leikmenn fá þá hugmynd í kollinn að af því þeir unnu meistaratitil, verði þeir að fá meiri peninga, meiri athygli, meiri sérmerferð og meiri spilatíma.

Jæja, ef hægt er að finna eitthvað sem er algjör andstæða þessarar leiðindaþróunar, er það framvinda mála hjá Golden State það sem af er þessari leiktíð.

Leikmenn liðsins þurftu að leita mjög vel til að finna eitthvað til að verða pirraðir yfir og virka sem hvatning fyrir þá til að halda áfram að bæta sig, en þeim tókst það og virðist takast það á hverjum degi. Reyndar eru leikmenn Warriors mjög ólíkir hvað þetta varðar og á meðan menn eins og Draymond Green þurfa helst að finna eitthvað til að verða pirraðir yfir til að koma sér í gírinn, er eins og aðrir leikmenn liðsins geti bara ýtt á takka þegar leikurinn byrjar og hlaupið beint í tortímingar-gírinn.

Svo brosa þeir bara út að eyrum meðan þeir gera eitthvað við andstæðinga sína sem jafngildir því að rífa garnirnar á þeim út um naflann og láta þá éta þær meðan þeir hoppa ofan á líkinu af þeim. Of grafískt? Já, sennilega,  en þið fattið hvað við erum að fara...

Golden State er sem sagt bara að verða betra og betra og betra og þó að sé febrúar og það sé ekki hægt að vinna titil í febrúar og það eigi margt eftir að gerast þangað til kemur maí og júní og menn geti meiðst og bla bla bla, verður það ólíklegra með hverri mínútunni sem líður að nokkuð lið geti átt mannlega möguleika í þessa drápsmaskínu sem Warriors-liðið er orðið.

Golden State var gott í fyrra, en það er orðið miklu, miklu betra núna - alveg eins og geggjaður þjálfarinn lofaði reyndar á síðustu leiktíð.

Og talandi um bætingar, er upplagt að ljúka þessari hugleiðingu einmitt með bætingum. Bætingum tveggja leikmanna í Warriors-liðinu sem hafa gert það að verkum að við eigum ekki til lýsingarorð yfir þá lengur.

Það getur vel verið að LeBron James sé eitthvað bla og Kevin Durant sé eitthvað bleh, en Stephen Curry er bara alveg nááákvæmlega sama hvað þeim eða ykkur finnst.

Hann er að spila hæð ofar en allir körfuboltamenn í heiminum í dag og það glettilega við þetta er að hann er líka að spila hæð ofar en hann var sjálfur að spila á síðustu leiktíð.

Þá var amk hægt að rífast aðeins um það að James Harden hefði líka verið góður og hefði á einhvern hátt skilið að fá einhver atkvæði í kjörinu á leikmanni ársins.

En ef þið hélduð að Curry hefði verið góður í fyrra - og við héldum náttúrulega öll með tölu að hann hefði verið góður í fyrra - þá vissum við ekki neitt!

Drenghelvítið er orðinn MIKLU betri.

Hann gerði það nákvæmlega sama og liðið allt í sumar. Í stað þess að panta sér ferð til Benidorm og detta bara í bjór og pizzur til að fagna frábærum árangri síðasta árs, fóru Curry og Warriors bara grimmir í gymmið og virðast allir hafa verið staðráðnir í því að verða betri.

Og fjandinn hafi það, þeir urðu betri. En engir eins og Curry og Draymond Green. Þeir eru í algjörum sérflokki, svo miklum sérflokki að þeir gætu báðir bara hoppað inn á Kaffi Strætó á morgun og verið á fylleríi fram í apríl - þeir yrðu samt í fyrsta úrvalsliði deildarinnar. Að minnsta kosti í okkar bókum, svo mikið er víst.

Það getur ekkert komið í veg fyrir að Curry verði í fyrsta úrvalsliði deildarinnar og það er reyndar orðið 90% öruggt að þeir verða þar leikstjórnendurnir Curry og Russell Westbrook.


En það verður líklega eitthvað erfiðara fyrir Draymond Green að komast þangað, því hann er jú að keppa við tappa eins og jú LeBron James, Kevin Durant, Kawhi Leonard, DeMarcus Cousins, Paul George og Blake Griffin, svo einhverjir amerískir landsliðsmenn séu nefndir.

Við vorum eitthvað að tala um fyrirbæri um daginn og við munum ekki betur en að þar höfum við útnefnt Stephen Curry fyrirbæri, sem er mikill heiður fyrir hann. En það sem er svo bæði lygilegt og ótrúlegt er, að Draymond Green er farinn að banka á dyrnar í þeim klúbbi líka. Hann er eiginlega hálfgert fyrirbæri líka.

Og þar komum við að rúsínunni í afturendanum í þessari hugleiðingu, því hvað Draymond Green er orðinn bjánalega góður í körfubolta og hvað það var allt í einu að renna upp fyrir okkur að hann á engan sinn líkan í NBA sögunni. Pældu í því!

Það hefur aldrei verið til leikmaður í NBA deildinni eins og Draymond Green. Hann er ekki eins áberandi fyrirbæri og til dæmis Magic Johnson eða Shaquille O´Neal eða jafnvel félagi hans Curry, en þegar nánar er að gáð, er hann með hæfileikapakka sem á engan sinn líkan. Ekki einu sinni nálægt því.

Draymond Green er búinn að bæta sig svo hrikalega sem körfuboltamaður á síðustu 18 mánuðum að það er næstum því hægt að segja að hann sé að verða veikleikalaus körfuboltamaður. Pældu í því!

99% körfuboltamanna eru með veikleika. LeBron James er með veikleika, Kevin Durant er með veikleika. Fokkíng Steph Curry hefur veikleika sem körfuboltamaður! En það er hægt að rífast um það að Draymond Green hafi enga marktæka veikleika í sinni stöðu - eða sínum stöðum - á vellinum.

Green er kraftframherji að upplagi og það sem menn töldu augljósast að honum og gerði það að verkum að hann var ekki tekinn inni á topp fimm í nýliðavalinu, er sú staðreynd að hann er ekki nema rétt um tveir metrar á hæð - ef það. En það skiptir bara ekki nokkru einasta máli, af því maðurinn er með handleggi eins og órangútan og ver skot eins og andskotinn þó hann sé oft að dekka mann sem hann nær í geirvörtu.


Það sem gerir Green að sérstökum leikmanni og var hans fyrsti og augljósi styrkur fyrir utan geðveikt keppnisskapið, fúndamentin og leiðtogahæfileikana, var varnarleikurinn. Menn vissu að hann gæti spilað vörn, en engum datt í hug að hann gæti dekkað hvaða stöðu sem var á vellinum. Green getur dekkað bakverði eins vel og hægt er að gera á annað borð (það getur enginn dekkað fljóta bakverði í NBA deildinni hvort sem er), hann fer létt með að dekka menn af sinni stærðargráðu og hann getur vel dekkað miðherja í hóflegum skömmtum - enda er sú leikaðferð Warriors (að setja Green í miðherjann) sem þeir kalla dauðauppstillinguna sannarlega spaðaásinn uppi í erminni á Steve Kerr.

Draymond Green var ekki með sérstaka boltameðferð þegar hann kom inn í NBA deildina og skytta var hann engin. En núna er hann allt í einu farinn að spila eins og leikstjórnandi hjá Warriors og er í rauninni búinn að hrifsa helling af leikstjórninni af Stephen Curry!

Hann er ekkert að flækja þetta. Hann dekkar bara besta sóknarmann andstæðinganna, hirðir frákastið sjálfur þegar maðurinn er búinn að klikka á skotinu og tekur svo á rás upp völlinn með boltann sjálfur eins og Unimog í göngugötu með bensíngjöfina fasta í botni.

Og svona eins og bara til að segja okkur öllum að fara til andskotans, ákvað hann byrja að skjóta vel yfir 40% úr þriggja stiga skotum í ár! Eins og menn geti bara ákveðið það allt í einu!

"Hey, ég veit, ég er fjarki með hæð eins og bakvörður og get hvorki skotið né höndlað boltann. Best að breyta sér bara snöggvast í Magic Johnson með þriggja stiga skot í sókninni og Dennis fokkíng Rodman í vörninni, ha? Því í andskotanum ekki, ha?"

Þett´er náttúrulega ekki í lagi sko....

Þetta var stutt hugleiðing um Golden State og ævintýralegar framfarir þess á stuttum tíma, auk þess sem við reyndum með veikum mætti að útskýra fyrirbærin Stephen Curry og Draymond Green. Það verður blanda af rússíbanareið og sirkus að fylgjast með þessum snillingum næstu misserin, þó ekki væri nema bara til að sjá hvað þeir geta farið langt. Það er að koma betur og betur í ljós að þessir brjálæðingar virðast ekki kunna sér nein takmörk þegar kemur að framförum og gæðum.

Og það er til fólk sem er að missa af þessu, hugsið ykkur!

Reynið nú að gera góðverk og láta þessa villuráfandi sauði sem vita ekki af Golden State heyra fagnaðarerindið. Það eru lágmarks mannréttindi að fá að fylgjast með þessu.