Friday, January 29, 2016

Er þetta Green?


Nú er búið að tilkynna hvaða leikmenn skipa Austur- og Vesturdeildarúrvalið í Stjörnuleiknum í NBA sem fram fer í Toronto eftir tvær vikur. Það er bolurinn sem fær að kjósa byrjunarliðin en það eru (allir) þjálfararnir í deildinni sem ákveða hvaða leikmenn skipa varamannabekkinn.

Án þess að við höfum rannsakað það vísindalega, sýnist okkur ekki mikið um stórskandala þegar kemur að vali þjálfaranna þetta árið. Í fljótu bragði ætti Damian Lillard auðvitað að vera í liðinu á kostnað Kobe Bryant, en svo hefur það örugglega verið höfuðverkur fyrir þjálfarana að skilja goðsagnir eins og Tim Duncan og Dirk Nowitzki eftir heima. 

Nowitzki hefði örugglega verið til í að taka einn Stjörnuleik í viðbót, en eitthvað segir okkur að Tim Duncan langi heldur að slaka á með fjölskyldunni heldur en að fara í þriggja sólarhringa fjölmiðlamaraþonið sem helgin er.

Þegar valið í Stjörnuleikinn ber á góma verður okkur oft hugsað til þess hvað gerðist við þetta sama tækifæri árið 1990, en það er í fyrsta skipti sem við munum eftir því að valið í Stjörnuleikinn hafi farið í taugarnar á okkur. Og það hefur gert það ansi oft síðan.

Það sem fór svona heiftarlega í taugarnar á okkur fyrir aldarfjórðungi var líka vinsældakosning áhangenda - og það sem meira er - var það líka út af Lakers-manni sem hafði ekkert í Stjörnuleikinn að gera. 

Í dag er það Kobe Bryant en árið 1990 var það A.C. Green sem fór öfugt ofan í okkur.

A.C. Green var ágætis körfuboltamaður og gengdi auðvitað lykilhlutverki hjá sigursælu liði Los Angeles Lakers á níunda áratugnum. 

En að hann - maður sem skoraði innan við tíu stig að meðaltali í leik á umræddri leiktíð - væri kosinn í byrjunarliðið í Stjörnuleiknum í staðinn fyrir Karl Malone? 

Það var bara mesti skandall í heimi!

En svona var þetta og svona er þetta enn þann dag í dag og ekkert við því að gera. Þetta var samt dálítið gróft dæmi þarna 1990 og það voru fleiri gramir yfir þessu en við. Karl Malone varð brjálaður þegar hann frétti að 13 stiga hreinn sveinn með krullur hefði verið kosinn inn í byrjunarliðið á sinn kostnað.

Malone var afar óhress með þetta og ákvað að taka gremju sína út á næsta andstæðingi Utah Jazz á körfuboltavellinum, Milwaukee Bucks. Það gerði hann svo um munaði, því hann skoraði 61 stig í leiknum, hirti 18 fráköst og hitti úr 21 af 26 skotum utan af velli (19 af 23 á línunni) á aðeins 33 mínútum í 144-96 sigri Utah.*  Svona á að gefa út yfirlýsingar.

 Malone var kjörinn leikmaður Stjörnuleiksins í Houston árið áður (myndin hér fyrir ofan), en hvort sem það var fýla eða ekki, þá bar hann við meiðslum og mætti hann ekki í Stjörnuleikinn árið 1990 þrátt fyrir að hafa verið valinn í hann af þjálfurunum seinna.

"Ég get annað hvort farið heim til Louisiana að veiða eða farið til Miami. Akkúrat núna er ansi freistandi að fara að veiða," ansaði Malone þegar hann var spurður út í tilfinningar sínar að vera ekki valinn í byrjunarliðið. Þetta kom við egóið á honum, sem var risavaxið (hann talaði alltaf um sig í 3. persónu) en viðkvæmara en lappirnar á Greg Oden.

Karl Malone var framúrskarandi leikmaður á þessum árum og skilaði til að mynda 31 stigi og 11 fráköstum að meðaltali í leik og skaut 56% utan af velli leiktíðina ´89-´90. 

Ekki var hann verri í leikjunum fjórum gegn Lakers þennan vetur, þar sem hann skoraði 34 stig að meðaltali, hirti 9 fráköst og skaut 61%.

Einhver gæti ef til vill giskað á að ástæðan fyrir Stjörnuleiksdissinu á Malone hefði verið staða liðs hans í töflunni, því leikmenn í lélegum liðum fá jú færri atkvæði. 

En því var ekki að skipta þarna. Utah var alveg á hælunum á LA Lakers þegar þarna kom við sögu. Jazzararnir voru með 29 sigra og 11 töp, meðan Lakers var með 31 sigur og 9 töp.

Það var misjafnt hvort Malone var valinn á bekk eða í byrjunarlið í Stjörnuleikjunum sem fylgdu á eftir þeim dramatíska árið 1990, en hann mætti í þá á hverju ári þangað til árið 2002 þegar hann var valinn í síðasta skipti en sat vegna meiðsla.

Við þökkum Morgunblaðinu fyrir að leyfa okkur að birta blaðagreinina um reiðikastið hans Karl Malone hérna á vefsvæðinu, en hún er að sjálfssögðu skrifuð af Gunnari Valgeirssyni í Bandaríkjunum. Gunnar gerði vel í að fjalla um deildina fögru hér áður, þegar lítið sem ekkert var að finna um NBA boltann annað en tveggja daga gömul úrslit í Mogganum.

------------------------------------------------------------------------------------------------------------

* - Þú hlýtur að vera að pæla í því hvað John Stockton gaf margar stoðsendingar í risaleiknum hans Malone, þar sem Utah setti 144 stig á töfluna. Þær voru reyndar ekki nema 16 í þetta skiptið, sem er ekki hægt að kalla annað en vonbrigði hjá manni sem var jú einu sinni með næstum því fimmtán stoðsendingar að meðaltali í leik. Dálítið undarlegt.