Saturday, January 16, 2016

Detroit heiðrar Stóra-Ben í nótt


Þetta er Stóri-Ben Wallace, miðherji Detroit Pistons á árunum 2000-´06 og 2009-´12.

Þeir verða ekki mikið hrikalegri en Wallace og það er ekki laust við að fólk velti því fyrir sér hvort þessi maður hafi einhvern tímann verið látinn pissa í glas.

"Merkja þetta betur, Skúli minn!"

Ef við ættum að finna einn körfuboltamann sem væri hvað best lýsandi fyrir meistaralið Detroit Pistons frá árinu 2004, myndum við velja Ben Wallace.

Hann var varnarakkeri einnar sterkustu varnar í sögu NBA deildarinnar og er sennilega sá maður sem hefur komist næst því að feta í fótspor Dennis Rodman síðan sá litríki maður lagði skó sína á hillun.

Wallace gegndi alltaf stöðu miðherja hjá Detroit þó hann væri ekki nema um 206 sentimetrar á hæð og þó það viðgangist í dag, þótti það dvergvöxtur fyrir miðherja á fyrstu árum aldarinnar.

Það er varla nóg að rétt slefa í tvo metrana ef maður þarf að dekka Shaquille O´Neal er það?

Jú, einhvern veginn dugði það Wallace. Svona stundum amk.

Ben Wallace var fjórum sinnum valinn Varnarmaður ársins í NBA deildinni, sem er met sem hann á með Dikembe Mutombo.

Fimm sinnum var hann í varnarúrvali deildarinnar og hann fór meira að segja í fjóra Stjörnuleiki - svo sterkt var Detroit á þessum árum. Liðið fór í úrslit Austurdeildar sex ár í röð, frá 2003 til 2008.

Hrikalegasta tölfræðin sem Wallace bauð upp á á ferlinum var árið 2003, þegar hann skoraði 7 stig að meðaltali í leik, en hirti 15,3 fráköst, stal 1,4 boltum  og varði 3,2 skot. Hann var með 10,3 stig, 14,3 fráköst og 2,4 varin skot að meðaltali í leik í úrslitakeppninni árið sem Detroit vann titilinn (2004).

Af hverjum erum við að rifja þetta upp núna?

Jú, af því að Detroit ætlar að hengja treyjuna hans upp í rjáfur í kvöld þegar Golden State kemur í heimsókn og verður hann þar með fyrsti leikmaðurinn úr meistaraliðinu 2004 sem er heiðraður með þessum hætti.

Þegar hefur verið ákveðið að Chauncey Billups fái sömu trakteríngar þann 10. febrúar næstkomandi. Reiknað er með því að Billups verði viðstaddur seremóníuna í kvöld ásamt liðsfélögum þeirra Rip Hamilton og Rasheed Wallace, svo einhverjir séu nefndir.

Wallace, sem er 41 árs gamall í dag, spilaði 655 leiki með Pistons á sínum tíma og á eitthvað af félagsmetum í vörðum skotum auk þess að vera ofarlega á listum í stolnum boltum og fráköstum.

Ekki slæmt af manni sem oft á tíðum var lágvaxnasti miðherji deildarinnar og enginn hafði áhuga á að taka í nýliðavalinu árið 1996.

Búningurinn hans Wallace (númer þrjú) verður sá áttundi sem fer upp í rjáfur í Höllinni í Detroit, en þar eru fyrir þeir Joe Dumars, Dennis Rodman, Isiah Thomas, Vinnie Johnson, Bob Lanier, Dave Bing og Bill Laimbeer. Ekki dónalegur mannskapur það.

Til lukku með þetta, Benni.