Wednesday, January 20, 2016
Af dvínandi meistaravonum Cleveland
"Ég var ekki vanur að pæla í því að leikir gætu verið steitment-leikir þegar ég spilaði í deildinni, en það sem þetta Golden State-lið er að gera hérna... það er ekki hægt að kalla þetta neitt annað en steitment."
Það var eitthvað í þessum dúr sem hann Chris Webber sagði við Marv Albert þar sem þeir félagar sátu saman og lýstu leik Cleveland og Golden State á TNT sjónvarpsstöðinni í gærkvöldi.
Ef það fór framhjá einhverju ykkar, þá valtaði Golden State yfir heimamenn í Cleveland 132-98, í leik sem var spennandi í um það bil fimmtán mínútur en breyttist svo í eitthvað sem er ekki hægt að kalla annað en hreina og klára slátrun. Það er hægt að senda frá sér yfirlýsingar með talsvert minna áberandi og afgerandi hætti en þetta.
Við erum sammála Chris Webber upp að vissu marki. Það er ekki alltaf mikið að marka þegar lið mætast í deildarkeppninni - sérstaklega ekki þegar þau eru á sitt hvorri ströndinni og mætast ekki nema tvisvar allan veturinn. Það getur því þýtt eitt þegar liðin mætast í nóvember og allt annað þegar þau mætast aftur í mars.
Nú eru Golden State og Cleveland búin að mætast í tvígang á leiktíðinni og mætast því ekki aftur fyrr en ef þau rekast aftur á hvort annað í lokaúrslitunum í júní.
Þegar þessi lið mættust á jóladag síðastliðinn, munum við að lengra komnir höfðu orð á því að báðir þjálfarar hafi haldið spilunum nokkuð þett upp að bringunni í þeim leik og þeir spáðu því að þau ættu bæði eftir að gera það í síðari viðureigninni. Það má vel vera að svo hafi verið, en það breytir því ekki að við erum alveg tilbúin í að lesa eitthvað út úr þessum leikjum - sérstaklega leiknum í gær.
Í okkar augum - og við erum svo heppin að hafa ekki hundsvit á körfubolta, þannig að það þvælist ekki of mikið fyrir okkur þegar við erum að leikgreina - styrkti leikurinn í gær okkur í ákveðinni trú.
Við höfum ekki verið tilbúin með að gefa út of stórar yfirlýsingar varðandi Golden State vs Cleveland fram að þessu af því það veit jú enginn hvernig þessi lið myndu smella saman í úrslitakeppninni ef þau mættust þar með alla sína menn heila.
En nú vitum við hvað gerist og erum tilbúin að deila því með hverjum sem vill heyra.
Cleveland á ekki fræðilegan möguleika í logandi helvíti í Golden State Warriors - hvorki í deildarkeppni, né seríu, með heilan leikmannahóp eða hálfan. Ekki breik. Ekki séns. Gleymdu því bara. Það er ekki að fara að gerast.
Hitti Golden State á toppleik og Cleveland á lélegan þarna í gær? Vissulega, en það breytir engu máli.
Þegar Warriors var búið að ná 40 stiga forskoti í leiknum, veittum við því athygli að það klikkaði á 4-5 galopnum þriggja stiga skotum sem það setur venjulega ofan í.
Það munaði sem sagt ekki miklu að Cleveland lenti yfir 50 stigum undir í þessum leik - á heimavelli - þar sem liðið tapar næstum aldrei. Sérstaklega með alla sína menn heila eins og það er loksins að gera nú um þessar mundir.
Þetta varð svo vandræðalegt á kafla að Andre Iguodala bókstaflega sofnaði á varamannabekk Warriors.
Cleveland er mjög sterkt körfuboltalið sem getur skotið næstum hvaða lið sem er út af vellinum á nokkrum mínútum í venjulegum leik.
Cleveland er þokkalegt varnarlið og rosalegt sóknarlið og það þarf ekki að spila á nema 70% getu til að rúlla í gegn um Austurdeildina í úrslitakeppninni í vor. Það er gömul saga og þið vitið það líklega öll.
En þegar kemur að drápsvélum eins og Golden State, þýðir ekki að vera með neina meðalmennsku og það þýðir heldur ekki að vera með frábært lið. Þú þarft að vera með sögulega gott lið til að slá þetta lið út ef það er með alla sína menn heila.
Skondið hvað Warriors-liðið hljóp einhvern veginn ofan í sömu (góðu) hjólförin strax frá fyrstu mínútu í þessum leik.
Stephen Curry skaut allt gjörsamlega til andskotans, Iguodala spilaði eins og leikmaður úrslitanna, Draymond Green spilaði eins og einn af tíu bestu körfuboltamönnum heims og Klay Thompson hitti ekki rassgat. Eins og LeBron James.
Hljómar þetta eitthvað kunnuglega?
Eins og við sögðum ykkur, eru exin og o-in ekki okkar sterkasta hlið, en það gat hvaða fábjáni sem er séð þennan augljósa mun sem var á Cavs og Warriors í gær. Sóknarleikur heimamanna var á allan hátt stirður, hugmyndasnauður og vandræðalegur, meðan gestirnir rúlluðu sitt sýstem í gegn án þess að hafa nokkuð fyrir því.
Allir að vinna saman, láta boltann ganga um allan völl, allir að setja hindranir fyrir félaga sína og finna opna manninn. Þetta var ljóðræn fegurð og þeir láta þetta líta út fyrir að vera svo auðvelt. Að hluta til af því Cleveland gerði þeim þetta auvelt.
Ef við værum eldri og reyndari, en umfram allt hræddari um að líta illa út eftir stórar yfirlýsingar, myndum við ekki láta okkur detta það í hug að gefa út svona yfirlýsingar eftir tvo deildarleiki, þar sem lítið var að marka þann fyrri (Irving nýkominn aftur inn í lið Cleveland - og það sama mætti svo sem segja um leikinn í gær, strangt til tekið), en þið vitið hvernig við erum.
Við elskum að gera okkur að fíflum með digurbarkalegum yfirlýsingum. Það er ekki eins og við fáum einhverjar kyndingar yfir því hvort sem er.
Þannig vitið þið það sem sagt. Cleveland á ekki BREIK í Golden State.
Af því sóknarleikur Cleveland er allt of fyrirsjáanlegur og staður, þó hann sé yfirdrifið nógu góður til að stúta 25 liðum í NBA deildinni. Varnarleikur liðsins er of holóttur (Irving og Love, sérstaklega) og Golden State er bara allt of fjölhæft og allt, allt, allt of gott körfuboltalið.
Talandi um Kevin Love... úff. Það er erfitt að vera eins gagnslaus og Love var í leiknum í gær. Irving gat ekki neitt og var skelfilegur í vörninni, en við gefum honum smá breik af því hann er búinn að vera svo lengi frá. Kevin Love gat hinsvegar EKKERT.
Vörnin hjá honum var grátleg, hann hitti ekki neitt og gat ekki einu sinni frákastað eins og maður. Ef hann getur hvorki teigt á gólfinu né tekið fráköst, hefur hann bara ekkert inn á völlinn að gera í þessu einvígi.
Sannið þið til, ef svo skemmtilega vildi til að þessi lið mættust aftur í úrslitum í júní, kæmi það okkur ekkert á óvart þó Love fengi bara andskotann ekkert að spila.
Golden State er lið sem leitar að saumsprettum í vörninni hjá þér og um leið og það finnur þær, rífur það þær upp og treður sér í gegn - refsar þér.
Og þeir Kyrie Irving og Kevin Love eru bókstaflega með neónskilti hangandi um hálsinn á sér sem á stendur stórum stöfum: "GJÖRIÐ SVO VEL OG RÁÐIST TIL ATLÖGU HÉRNA!"
Er það ekki grábölvað fyrir Cleveland. Kevin Love átti að vera maðurinn sem hjálpaði LeBron James og Irving að draga vagninn, en þegar hann spilar eins og hann gerði í gær, gerir hann ekki annað en hanga aftan í vagninum og þyngja hann.
Heh, já, svo er það þessi LeBron James. Það er ekki oft sem við segjum svona, en hann var æpandi lélegur í þessum leik líka. Hann reyndi og reyndi, hnoðaðist og hnoðaðist, en það var ekkert að frétta hjá honum fyrr en hann náði sér í tæknivillu eftir að hafa misst stjórn á skapi sínu í leiknum. Sannarlega ekki oft sem hann er svona vandræðalega lélegur.
LeBron sá það sama og við í þessum leik. Hann sá það með berum augum að ef mótherji Cleveland í gær heldur heilsu næstu þrjú árin eða svo, er hann búinn að vinna sinn síðasta meistaratitil í NBA deildinni.
Pældu aðeins í því.
Efnisflokkar:
Cavaliers
,
Draymond Green
,
Kevin Love
,
Kyrie Irving
,
LeBron James
,
Ógnarstyrkur
,
Stephen Curry
,
Úrvalsleikmenn
,
Warriors