Saturday, January 16, 2016

Aðeins um dagskrármálin


Já, af hverju Antetokounmpo? Af hverju Milwaukee, Toronto og New Orleans? Og af hverju í ósköpunum Brooklyn Nets og New York Knicks? Þetta eru nokkur af liðunum sem hafa fengið að vera á skjánum í NBA útsendingunum á Stöð 2 Sport í vetur. 

Þetta eru augljóslega ekki San Antonio, Cleveland, Miami eða Oklahoma - liðin sem hafa verið fastagestir í beinum útsendingum á Sportinu síðustu ár. 

En þið eruð líka búin að sjá þessi lið spila milljón sinnum - og þið vitið ósköp vel að þið fáið að sjá þessi lið í eldlínunni aftur kvöld eftir kvöld í úrslitakeppninni í vor eins og síðustu ár. Því þá ekki að brjóta þetta aðeins upp og skoða "hin" liðin yfir veturinn? Til dæmis Spútnikliðin með ungu og efnilegu leikmennina?

Ef rýnt er í leikjaprógrammið á Sportinu í vetur, kemur í ljós að það er fullt af Spútnikleikjum þar í bland við stærri leiki. Eini gallinn er bara að við höfum verið dálítið óheppin með nokkra þessara leikja þennan veturinn. Þar eigum við t.d. við leiki Milwaukee og New Orleans. 

Þessum liðum var spáð nokkuð góðu gengi í vetur og fjölmiðlar vestanhafs spáðu því margir að þau yrðu Öskubuskur vetrarins. Það hefur augljóslega ekki gengið eftir (stundum vegna meiðsla osfv), en þið vitið líka að NBA deildin er óútreiknanlegt fyribæri.


Austurdeildarleikir eru aðeins meira áberandi en vesturleikirnir, en það á sér líka eðlilegar skýringar. Leikirnir í Austurdeildinni byrja auðvitað fyrr en leikirnir fyrir vestan og því eru þeir á heppilegri sýningartíma á Íslandi en leikirnir vestra. Þetta er auðvitað miður í ljósi þess að Vesturdeildin er með miklu skemmtilegri lið og er búin að vera miklu sterkari síðan fyrir aldamót. En á móti kemur að því seinna sem leikurinn er á dagskrá, því minna áhorf, sem er miður.

Það sem stendur þó klárlega upp úr varðandi leikjaprógrammið á Stöð 2 Sport í vetur er hvað eru margir leikir í boði. Undanfarin ár hafa oftast liðið nokkrar vikur á milli útsendinga, en í vetur fáum við beina útsendingu hvert einasta föstudagskvöld - alls 24 leiki - bara úr deildarkeppninni. Það er ekkert slor.

Það er ekki hægt að gera öllum til hæfis í þessum efnum, það er augljóst, en við vonum að þessir punktar hér að ofan hafi svarað einhverjum spurningum sem legið hafa á fólki í vetur. Við bendum ykkur líka á að ef þið hafið einhverjar spurningar varðandi leikina á Sportinu eða NBATV, getið þið sent línu á nbaisland@gmail.com og við reynum að hjálpa ykkur eftir fremsta megni.

Hérna fyrir neðan er svo leikjadagskráin á Stöð 2 Sport í vetur, en þið voruð nú öll búin að sjá hana fyrir löngu af því þið vitið að NBA Ísland birtir alltaf lista yfir beinar útsendingar á undirsíðunni "Dagskrá/Leikir í beinni" sem er á flipa undir hausnum efst á síðunni.