Nú voru þeir Darwin og Durkheim ekki svo heppnir að geta fylgst með NBA körfuboltanum, en okkur verður stundum hugsað til þeirra þegar við fylgjumst með Leiknum í dag. Það er nefnilega eins með körfuboltamenn og annað fólk - það má finna skrímsli í þeirra röðum og það má alltaf koma auga á einhverja þróun í bæði leiknum og mönnunum sem spila hann.
Þeir sem lesa NBA Ísland reglulega muna eflaust eftir því að við höfum átt það til að skrifa um sérstaka tegund leikmanna sem við köllum fyrirbæri. Sumum finnst þetta kannski ljótt orð til að lýsa körfuboltamönnum, en trúið okkur, við meinum ekkert illt með því - þvert á móti. Við köllum nefnilega ekki hvern sem er fyrirbæri. Ó, nei.
(Mynd: Lakers miðherjarnir Kareem Abdul-Jabbar, Shaquille O´Neal og George Mikan)
Ástæðan fyrir því að við erum að hugsa um fyrirbæri núna er sú að þegar við vorum að hugsa um eitt þeirra um daginn, flaug okkur í hug að líklega væru fleiri fyrirbæri í NBA deildinni í dag en nokkru sinni fyrr. Og til að færa rök fyrir því, er upplagt að útskýra fyrir ykkur hvað við meinum með orðinu fyrirbæri, greina frá sögu þess og segja ykkur loks frá fyrirbærum dagsins í dag.
Fyrirbæri er í stuttu máli sá körfuboltamaður sem skarar fram úr keppinautum sínum með líkamlegum yfirburðum sínum og/eða hreinum hæfileikum. Flest fyrirbærin hljóta þá nafngift hjá okkur af því þau eru stærri, sterkari, fljótari, fjölhæfari eða hæfileikaríkari en flestir ef ekki allir mótherjar þeirra á körfuboltavellinum.
Eins og þið getið ímyndað ykkur, er enginn á ritstjórn NBA Ísland sem fór á NBA leiki fyrstu áratugina sem deildin var í gangi og því verðum við að styðjast við ritaðar heimildir í leit að fyrirbærum eins og öllu öðru sem átti sér stað um og eftir miðja síðustu öld.
Líklega eru flestir sammála um að fyrsta fyrirbærið í sögu NBA deildarinnar hafi verið George Mikan. Miðherjinn Mikan teldist sannarlega ekki mikið fyrirbæri í NBA deild dagsins í dag, enda ekki nema 208 sentimetrar á hæð - hvítur og luralegur náungi með gleraugu.
Á fimmta og sjötta áratug síðustu aldar var Mikan hinsvegar hinn eini sanni risi deildarinnar og var margfaldur stigakóngur og meistari með forvera Los Angeles Lakers í Minneapolis. Mikan var kallaður Herra Körfubolti og sjá má styttu af honum fyrir utan heimahöll Minnesota Timberwolves.
Við gætum haldið langan fyrirlestur um Mikan og þau áhrif sem hann hafði innan og utan vallar, en það sem skiptir mestu máli hvað fyrirbærafræðina varðar var að Mikan var það áhrifamikill í teignum að gerðar voru reglubreytingar út af honum.
Það eru góðar líkur á því að þú sért fyrirbæri ef þarf að breyta reglunum út af þér og það er engin tilviljun að miðherjarnir sem komu á eftir Mikan og höfðu þessi áhrif á reglurnar, fá líka á sig fyrirbærastimpilinn hjá okkur.
Næsta fyrirbæri á blaði hjá okkur kom ekki inn í NBA deildina fyrr en nokkrum árum eftir að Mikan hætti, en það var Wilt Chamberlain - mögulega fyrirbæri allra fyrirbæra.
Við höfum skrifað um Wilt áður og minnum ykkur á að þessum pistli er ekki ætlað að vera ævisaga mannanna sem fjallað er um, en Wilt er á þessum lista - og mögulega á toppnum - af því hann var fullkomlega óstöðvandi körfuboltamaður, líkamlegt og íþróttafræðilegt undur sem NBA deildin var hreinlega ekki tilbúin að taka á móti þegar hann kom til sögunnar í upphafi sjöunda áratugarins.
Wilt er eini maðurinn sem hefur skorað 100 stig í einum leik í NBA deildinni og hann er eini maðurinn sem hefur skorað 50 stig að meðaltali í leik í NBA deildinni.
Hann á flest met NBA deildarinnar í stigaskorun og fráköstum, en hann leiddi deildina líka einu sinni í stoðsendingum bara af því hann langaði að prófa það. Wilt var magnaður alhliða íþróttamaður og var frambærilegur bæði í blaki og frjálsum íþróttum á sínum tíma.
Svo skemmir það ekki fyrir goðsögninni Chamberlain að hann var sagður hafa átt bólfélaga sem skiptu þúsundum, hann spilaði einu sinni meira en 48 mínútur að meðaltali í leik yfir heila leiktíð, hann tróð einu sinni bolta með mann hangandi í honum og á að hafa fótbrotið annan mann af því hann tróð boltanum svo fast ofan á aðra löppina á honum.
Wilt Chamberlain gjörsamlega dómíneraði NBA deildinni allan sjöunda áratuginn og fram á þann áttunda og enginn leikmaður fyrr eða síðar hefur gert eins miskunnarlausar árásir á tölfræðiskýrslur í sögu körfuboltans.
Já, góðir hálsar. Wilt Chamberlain var fyrirbæri. Kannski fyrirbæriÐ.
Næstu tvö fyrirbæri á blað hjá okkur verða einfaldlega að fara þangað af því þau voru svo fáránlega góð í körfubolta, en það vill reyndar svo skemmtilega til að þau voru einu sinni saman í liði. Þetta eru Lew Alcindor, síðar Kareem Abdul-Jabbar og félagi hans Oscar Robertson.
Kareem er að mörgum talinn besti miðherji allra tíma í NBA deildinni og var sexfaldur meistari, sexfaldur leikmaður ársins og er stigahæsti leikmaður deildarinnar frá upphafi með 38.387 stig.
Punkturinn yfir i-ið hjá Kareem var svo einkennismerkið hans, sveifluskotið, sem gerði hann að óstöðvandi sóknarmanni. Hann upplifði það líka að reglunum í leiknum var breytt út af yfirburðum hans á vellinum.
Liðsfélagi Jabbars (um hríð hjá Milwaukee Bucks), Oscar Robertson, var annars konar fyrirbæri, en hann er fyrsti maðurinn á lista okkar sem var ekki miðherji.
Robertson var bakvörður sem er frægastur fyrir fjölhæfni sína á vellinum, enda er hann eini maðurinn sem hefur verið með þrefalda tvennu að meðaltali í leik yfir heilt tímabil í NBA deildinni.
Robertson var framúrskarandi körfuboltamaður á öllum sviðum. Hann hafði alla kosti sem góðir bakverðir þurfa að hafa, en var ofan á það sterkur eins og ljón og frákastaði eins og stór maður.
"Stóri O" eins og hann var kallaður, var með 25,7 stig, 7,5 fráköst og 9,5 stoðsendingar að meðaltali í leik yfir 14 ára feril og er því vel að því kominn að vera kallaður fyrirbæri.
Næsta fyrirbæri á lista hjá okkur er arftaki Oscar Robertson í NBA deildinni, annar maður af þessari mjög svo sjaldgæfu tegund, stór maður sem spilaði stöðu leikstjórnanda. Og nú erum við komin það nálægt nútímanum á töflunni að margir muna vel eftir því að hafa horft á hann spila. Þetta er Magic Johnson.
Magic breytti öllu þegar hann kom inn í NBA deildina árið 1979 og var raunar byrjaður að breyta körfuboltanum áður en hann kom inn í NBA. Hann byrjaði á því að eiga sögulegt einvígi við Larry Bird í úrslitaleik háskólaboltans, sem hélt svo áfram að þróast þegar þeir byrjuðu að spila sem atvinnumenn með Lakers og Celtics.
Nú má vel vera að fylgismenn Bird og Boston Celtics vilji meina að Bird sé fyrirbæri líka, alveg eins og Magic.
Það má alveg færa rök fyrir því, en við kjósum Magic af því hann breytti leiknum innan og utan vallar, af því hann var einn af tíu bestu körfuboltamönnum allra tíma og af því hann gat spilað hvaða stöðu sem var inni á vellinum eins og hann sannaði strax á fyrsta árinu sínu í deildinni.
Þeir Bird og Magic voru mennirnir sem komu NBA deildinni á kortið sem sjónvarpssporti í Bandaríkjunum og víðar, en áður en einvígi þeirra fönguðu athygli allra um miðjan níunda áratuginn þótti NBA deildin ekki annað en körfuboltadeild skipuð blökkumönnum sem notuðu kókaín að staðaldri.
Það er dálítið sérstakt að hugsa til þess núna, en PR-vinnan sem þeir Bird og Magic áttu fyrir höndum til að koma NBA deildinni á kortið var gríðarleg, en hún bar að lokum árangur.
Næsta fyrirbæri tók svo við NBA keflinu af Bird og Magic og gerði hana að því risavaxna og dásamlega sjónvarpsskrímsli sem hún er í dag.
Michael Jordan var sannarlega fyrirbæri. Hann gat gert hluti sem engan mann dreymdi um að gera á körfuboltavellinum og þegar hann náði þroska sem leikmaður og fékk betra lið í kring um sig, fór hann fyrir sex meistaraliðum og var alltaf stigakóngur deildarinnar í leiðinni. Áhrif hans utan vallar voru líka gígantísk, enda er örugglega góð prósenta af þeim sem lesa þetta með eitt eða tvö skópör í hillunni sem heita eftir honum og byrjuðu að fylgjast með og spila körfubolta bara út af honum.
Síðasta fyrirbærið sem við ætlum að nefna sem er hætt að spila í NBA deildinni er fyrirbærið sem tekur mesta plássið landfræðilega. Það er Shaquille O´Neal.
Við gerðum okkur ekki öll grein fyrir því þegar O´Neal kom inn í NBA deildina árið 1992 hvurslags náttúruundur drengurinn var.
Þá var hann "ekki nema" 130 kíló og hljóp um völlinn eins og gasella en var samt sterkur eins og naut. Seinni árin á glæstum ferlinum líktist hann meira nauti en gasellu, en hann var þó það hreyfanlegur að það er ekki hægt að kalla hann neitt annað en fyribæri.
Tvennum sögum fer af því hvað Shaquille O´Neal var þungur þegar hann var upp á sitt hrikalegasta, en við höfum heyrt marga halda því fram að hann hafi farið yfir 400 pund (180 kíló).
Hvort það er satt skal ósagt látið, en maðurinn var engu að síður fjall að burðum, enda réði ekki nokkur maður við hann.
O´Neal barðist við nokkra af bestu miðherjum sögunnar á sínum tíma og þó nokkrir þeirra hafi verið komnir af léttasta skeiði þegar hann var sjálfur upp á sitt besta, var miðherjalandslagið í NBA deildinni allt annað þá en það er í dag.
Í þá daga þurftu miðherjar að spila við menn eins og David Robinson, Patrick Ewing og Hakeem Olajuwon í hverri viku.
Segja má að Shaq hafi kórónað fyrirbærisferil sinn í lokaúrslitaeinvíginu í NBA árið 2001 þegar Lakers-lið hans mætti Philadelphia.
Sixers-liðið var klassa fyrir neðan Lakers að styrk, en flestir reiknuðu með því að það gæti aðeins hægt á Lakers með sterkum varnarleik sínum þar sem margfaldur varnarmaður ársins Dikembe Mutombo stóð vaktina í miðjunni.
Ekki svo mikið, eins og myndirnar tvær hér að ofan/til hliðar sýna svo skemmtilega.
Shaquille O´Neal tortímdi öllu sem í vegi hans varð í einvíginu og sýndi einhverja hrikalegustu frammistöðu sem sést hefur á þessu sviði. Hann var með 33 stig, 15,8 fráköst, 4,8 stoðsendingar, 3,4 varin skot og 57% skotnýtingu í fimm leikja sigri Lakers, þar sem hann var að sjálfssögðu kjörinn leikmaður úrslitanna annað skiptið í röð (og þriðja árið í röð árið eftir).
Fyrirbæri? Já, frekar. Frekar mikið.
Leikmennirnir sem við höfum talið upp fram að þessu eiga það flestir sameiginlegt að hafa unnið einn eða (marga) fleiri meistaratitla og það fer vel á því, því menn stimpla sig enn betur inn sem fyrirbæri ef þeir vinna titla - þó það nú væri.
Ef menn eins og Ralph Sampson hefðu unnið meistaratitla og enn frekar náð að sleppa við meiðsli sem bundu enda á ferlil þeirra, hefðu þeir kannski komist á þennan lista.
En höfum hugfast að þessari fyrirbæraupptalningu er ekki ætlað að vera tæmandi - aðeins snöggri yfirferð yfir nokkra af merkilegustu leikmönnum í sögu NBA deildarinnar.
En það eru til fleiri tegundir af fyrirbærum, af því þau þróast líkt og leikurinn sem þau spila og við erum svo heppin að nokkur þeirra eru einmitt að spila í NBA deildinni í dag.
Efst á blaði hjá okkur í fyrirbærafræðum nútímans eru liðsfélagar líkt og Kareem og Robertson voru á sínum tíma og þó þessi þrumutvenna sé enn ekki búin að vinna meistaratitil, á hún löngu búin að sanna að hún á heima á þessum lista.
Þetta eru Russell Westbrook og Kevin Durant.
Westbrook og Durant eru ekki bara frábærir körfuboltamenn - þeir eru líka fyrirbæri - af því hvor um sig ræður yfir ofurkröftum sem eiga sér engin fordæmi í sögu NBA deildarinnar.
Leikstjórnandinn Westbrook er ekki aðeins að bjóða upp á tölfræði sem mjög fáir leikmenn hafa náð að toppa í sögu deildarinnar, hann er líka íþróttamaður í algjörum heimsklassa. Russ er sem stendur að skora 25,5 stig í leik, hirða 7 fráköst, gefa 9,5 stoðsendingar og stela vel yfir 2 boltum í leik, sem er tölfræði sem hver sem er gæti verið stoltur af.
Hluti af því sem gerir Westbrook að þessum náttúruhamförum sem hann er, er íþróttamennska hanns, kapp og elja. Hugtakið "íþróttamaður" er kannski dálítið ofnotað þegar verið er að lýsa NBA leikmönnum í dag, en staðreyndin er bara sú að NBA deildin hýsir marga af mestu íþróttamönnum heimsins.
Og enginn þessara íþróttamanna stenst Russell Westbrook snúning þegar kemur að hraða og sprengikrafti.
Það eitt og sér segir þó ekki alla söguna, því Westbrook er líka með úthald, anda og grimmd sem gera það að verkum að hann hættir aldrei að ráðast á þig. Hann hamast einfaldlega á þér þangað til þú gefst upp og er bara með einn hraða - ALL IN eins og við köllum það.
Bættu við þetta góðum slatta af hæfileikum og þú ert komin(n) með leikmann sem gefur mótherjum sínum martraðir kvöldið fyrir leik.
Westbrook hefur alla tíð verið mjög umdeildur leikmaður og á jafn marga "haters" eins og hann á aðdáendur, en honum gæti ekki verið meira sama. Þessi pistill er heldur ekki skrifaður til að leggja dóm á það hvort Westbrook er besti leikstjórnandi heims eða hvort hann er nógu góður sigurvegari, leiðtogi eða ákvarðanatökumaður.
Þessi pistill er um fyrirbæri og NBA deildin hefur aldrei séð leikmann eins og Russell Westbrook.
Á meðan Westbrook er vissulega einstakur leikmaður, á hann langt í land með að vera jafn sjaldgæft eintak og liðsfélagi hans Kevin Durant. Við höfum séð bakverði í NBA sem hafa verið öskufljótir, hoppað hátt og skorað mikið (sjá, t.d. Derrick Rose), en NBA deildin hefur aldrei, aldrei, aldrei séð neitt í líkingu við fyrirbærið Kevin Durant.
Við erum búin að sjá nokkra hávaxna leikmenn með þokkalega boltameðferð og baneitrað skot - þar kemur Dirk Nowitzki fyrst upp í hugann, enda ein af fyrirmyndum tískustöðu deildarinnar í dag, kraftframherjanum sem getur teigt á vörnum andstæðinganna með því að vera ógnandi skytta fyrir utan. Það var upphaflega ekki ætlunin hjá okkur að setja Dirk á þennan lista, en við nánari athugun er sá þýski líklega alveg eins mikið fyrirbæri og margir aðrir á þessum lista. Einföldustu rökin fyrir því eru að hann hefur fyrir löngu verið útnefndur (lang) besta skytta í sögu NBA úr röðum sjöfetunga.
Kevin Durant er ekki sjöfetungur, en hann er ekki langt frá því. Katalógarnir segja að hann sé 206 sentimetrar á hæð, en margir vilja meina að hann sé yfir 210 á hæð. Það skiptir í sjálfu sér ekki máli, því hann er með faðmlengd á við talsvert stærri mann og þegar þú bætir við hana boltameðferð bakvarðar, hraða, snerpu og hæfileikum eins besta skorara í sögu deildarinnar, ertu komin(n) með vopn sem við höfum aldrei séð áður.
Durant er orðinn svo góður skotmaður að meðaltölin hans síðustu ár eru glettilega nálægt hinu fræga 50/40/90 marki, sem er með ólíkindum fyrir mann sem þó tekur eins mikið af skotum og hann gerir.
Rétt eins og með Nowitzki, hefur helsta taktíkin til að hægja á Durant verið að láta minni mann elta hann og berja hann bláan og marinn, sérstaklega í úrslitakeppninni (sjá: Tony Allen). Nowitzki lét svona lagað slá sig út af laginu þegar hann var á hátindi ferils síns sem skorari (þegar Dallas lét Golden State slá sig út úr úrslitakeppninni á epískan hátt árið 2007), en eins og sögulega góðra manna er siður, lærði hann að vinna bug á þessari taktík og fór að lokum með Dallas-liðið sitt alla leið að titlinum árið 2011.
Durant er á góðri leið með að feta í fótspor Nowitzki hvað þetta varðar, hann er einn af fáum leikmönnum NBA deildarinnar sem hægt er að segja að séu nánast óstöðvandi, en hann á þó enn eftir að ná að fara alla leið með Oklahoma. Hvort það tekst hjá þeim Durant og Westbrook skal ósagt látið, en hvort sem það tekst eða ekki, er ljóst að þeir félagar eru tvíeyki sem aldrei hefur sést áður og óvíst er að við sjáum aftur meðan við lifum.
Annað fyrirbæri hefur drottnað í NBA deildinni í mörg ár er hinn einstaki LeBron James. Þið vitið flest hvað hann hefur náð fínum árangri á ferlinum sem leikmaður, þó það sé að sjálfssögðu ekki nóg fyrir marga. James hefur spilað til úrslita um meistaratitilinn á hverju ári allar götur síðan árið 2011, sem segir sína sögu um hvurslags yfirburðaleikmaður hann er búinn að vera síðustu ár.
Við erum búin að skrifa þá ófáa pistlana um LeBron James frá því þetta vefsvæði opnaði og ætlum því að reyna að missa okkur ekki í 3000 orðin um James á þessum vettvangi. Það sem hinsvegar á erindi inn í þennan pistil hvað James varðar er að hann er algjörlega einstakur leikmaður í sögu NBA.
Það hefur verið vinsælt að bera LeBron James saman við Michael Jordan undanfarin ár, en það er bara vegna þess að hann er besti leikmaður sinnar kynslóðar í NBA deildinni. Að bera þá tvo saman að öðru leyti er fásinna, því þeir gætu ekki verið mikið ólíkari leikmenn.
Ef við ættum að bera James saman við einhverja leikmenn yfir höfuð, ættu það frekar að vera Magic Johnson eða Oscar Robertson. Eins og þið sjáið, segir það sína sögu um styrk James og fjölhæfni, að fólk skuli fyrst hugsa um önnur fyrirbæri þegar kemur að því að finna út hverjum hann líkist sem leikmaður.
En allar þessar samlíkingar eru með öllu óþarfar. LeBron James er langlíkastur LeBron James og það er ekki leiðum að líkjast.
Þessi 31 árs gamli kraftstjórnandi (blanda af leikstjórnanda og kraftframherja) sem lengst af hefur spilað stöðu minni framherja, er með meðaltöl upp á 27 stig, 7 fráköst, 7 stoðsendingar, 2 stolna bolta og varið skot ásamt 50% skotnýtingu á einstökum ferli sem nær aftur til ársins 2003.
Það er fjölhæfnin sem er mest áberandi við tölfræðiframlag James á ferlinum, en þess utan er tvennt sem stendur upp úr hjá okkur varðandi fyrirbærið LeBron James.
Í fyrsta lagi hvað hann hefur allar götur frá því þegar hann var krakki spilað með það fyrir augum að gera liðsfélaga sína betri og það hefur hann gert á hverju einasta ári ef undan er skilin hörmungin sem Cleveland liðið var sem hann gekk til liðs við árið 2003.
Í öðru lagi hvað hann hefur gert fá mistök á ferlinum þrátt fyrir að koma ekki beint úr umhverfi sem líkja má við Cosby-fjölskylduna sem birtist á íslenskum sjónvarpsskjám vikulega á níunda áratugnum.
Ef þú varst ekki fædd(ur) þegar Cosby-fjölskyldan var á skjánum, erum við hér að vísa í það sem í dag væri kallað fyrirmyndafjölskylda (þættirnir hétu Fyrirmyndarfaðir ef minnið svíkur okkur ekki).
Svo er hægt að deila um það hvort nokkuð sem Bill Cosby blessaður gerði á þessum tíma hafi verið tilfyrirmyndar í ljósi nýjustu fregna, en það er allt önnur Ella, Ástríður og Ólöf.
Nú má vel vera að James eigi eftir að bæta eins og einum meistaratitli í safnið áður en hann hættir að spila í NBA, en hvort sem hann gerir það eða ekki, er enginn vafi á því að hann er einn af tíu bestu körfuboltamönnum jarðar frá upphafi.
Hatursmenn og Jordan-istar eru duglegir að benda á að meðan goðið þeirra Jordan hafi verið 6-0 í lokaúrslitarimmum á ferlinum, sé James aðeins búinn að vinna tvo titla eftir að hafa farið jafnoft og Jordan í úrslit. Það má vel vera að ferill James sé ekki eins glæsilegur og Jordans hvað þetta varðar, en það breytir engu um það að hann er einn af þeim allra bestu og sannarlega fyrirbæri sinnar kynslóðar í NBA deildinni.
Þau ykkar sem hafa á annað borð lesið nokkrar línur á þessu vefsvæði í gegn um árin vitið hvað okkur verður tíðrætt um sáran skort á góðum stórum mönnum í NBA deildinni. Slíkar eru áhyggjur okkar að efnisorðið Dauði miðherjans kemur reglulega fyrir í pistlum okkar.
Nú er Anthony Davis hjá New Orleans ekki miðherji, en sá sambrýndi sómapiltur er sem vin í stórmennaeyðimörk 21. aldarinnar og hann er sannarlega fyrirbæri á alla kanta.
Davis var á sínum tíma lágvaxinn og lúðalegur bakvörður sem virtist ekki eiga merkilega framtíð fyrir sér sem körfuboltamaður, en þetta á það til að breytast ef menn stækka skyndilega um nokkra metra á stuttum tíma.
Þannig var það með Davis, sem sagður er hafa hækkað um hvorki meira né minna en 45 sentimetra á einu og hálfu ári. Og körfuboltamaður sem fer að sofa sem bakvörður og vaknar sem miðherji (á hæðina) er augljóslega með ákveðið forskot á hæðarbræður sína þegar kemur að boltameðferð og jafnvel skottækni.
Eins og gefur að skilja hefur þessi yfirnáttúrulegi vaxtarkippur Brúnars trúlega ekki verið beint heppilegur fyrir skrokkinn á drengnum, enda hefur hann verið í vandræðum með að halda heilsu allar götur síðan hann gerðist atvinnumaður. Það breytir því ekki að hann hefur tekið stórstígum framförum síðan hann kom inn í deildina haustið 2012 og er orðinn einn besti körfuboltamaður í heimi.
Davis hefur reyndar valdið nokkrum vonbrigðum með spilamennsku sinni í vetur, en það er svo sem erfitt að blómstra sem leikmaður hjá liði sem fer skyndilega frá því að vera frambærilegt miðlungslið í NBA deildinni yfir í að vera eitt það allra lélegasta. Nú ætlum við ekki að greina vandræðaganginn á New Orleans hér, en þó meiðsli hafi sett strik í reikninginn bæði hjá liðinu og Davis sjálfum, er ekki hægt að neita því að hann verður að axla eitthvað af ábyrgðinni á þessari skitu sem er í gangi hjá New Orleans.
En þó veturinn hafi verið langur og þungur hjá New Orleans og Davis, var síðasti vetur það ekki og þar bauð Davis upp á eitt magnaðasta tímabil frá einstaklingi sem sést hefur í NBA deildinni.
Þá bauð hann upp á 24 stig að meðaltali í leik, 10 fráköst, 3 varin skot, 53% skotnýtingu og kom liðinu sínu í úrslitakeppnina (með smá heppni, en samt).
Davis lauk keppni síðasta vor með 30,81 í P.E.R (Player Efficiency Rating, sem er eins konar frammistöðuformúla tengd sóknartölfræði) sem er ellefta hæsta frammistaða í sögu NBA deildarinnar.
Ef þið skoðið nöfnin sem eru með Davis á þessum PER-lista, sjáið þið að þar eru ekki aðeins á ferðinni nokkrir af bestu körfuboltamönnum allra tíma, heldur eru þeir velflestir fyrirbæri sjálfir.
Þessi dýfa sem Davis hefur tekið með liði sínu í vetur er sannarlega mikil vonbrigði og ef við eigum að vera alveg hreinskilin, er ekki beint margt í veðurkortunum sem gefur til kynna að þessi vandræði New Orleans séu á undanhaldi. Þetta lið er illa samansett og það er deginum ljósara að menn verða að gera miklar breytingar þar á bæ ef einhver mælanlegur árangur á að nást í nánustu framtíð.
Við vonum að sjálfssögðu að New Orleans nái sér á strik á ný, en enn frekar vonum við að við eigum eftir að sjá Davis snúa við blaðinu sem fyrst, því hann er sannarlega eitt af áhugaverðari fyrirbærum NBA deildarinnar og ætti að verða einn af tíu bestu körfuboltamönnum heims næsta áratuginn eða svo.
Síðasta fyrirbærið sem við fjöllum um í þessum pistli skaut ekki upp kollinum fyrr en fyrir nokkrum mánuðum, en ef svo fer sem horfir, gæti það þegar upp verður staðið orðið eitt af þeim allra mögnuðustu í þessari óvísindalegu úttekt okkar.
Þetta er auðvitað undrabarnið Stephen Curry hjá Golden State Warriors, maðurinn sem um þessar mundir er að skrifa nýja og stórmerkilega kafla í sögu NBA deildarinnar beint fyrir framan nefið á okkur. Og þvílíkir kaflar - þvílík bók!
Við erum búin að vera að skrifa gríðarlega mikið um Stephen Curry undanfarna mánuði og það ekki af ástæðulausu, því pilturinn er bæði búinn að spila betur en nokkur annar körfuboltamaður síðustu 14 mánuði og fara fyrir liði sem er að hóta því að slá öll met sem til eru er varða velgengni.
Stephen Curry er án nokkurs vafa "mannlegasta" fyrirbærið á listanum okkar hvað varðar líkamlega burði. Hann er ekki nema 190 sentimetrar eða svo á hæð og um 85 kíló á þyngd, þannig að ef hann yrði á vegi þínum í Kringlunni, myndir þú líklega ekki hugsa annað en: "mikið fjandi er þetta nú myndarlegur maður."
Jæja, látið útlitið ekki blekkja ykkur. Þessi netti og huggulegi piltur er ein mesta drápsvél sem stigið hefur inn á körfuboltavöll, ef við megum vera svo ósmekkleg að nota viðbjóðslegar hernaðarlíkingar enn eina ferðina.
Það er bara eitthvað svo heppilegt að nota hernaðarlíkingar þegar kemur að fyrirbærum eins og Curry.
Hann er sumsé hvorki stór né sterkur (o.k. - hann deddar reyndar 180 kíló nokkuð örugglega, en samt...) og hann er ekkert sérstaklega fljótur á miðað við geitungana sem finnast í NBA deildinni.
Nei, það sem gerir Curry sérstakan er boltameðferðin, hæfileikarnir, leikskilningurinn, hugarfarið og - Jesús, María og Jósef og allt þeirra fylgdarlið - skotin hans.
Við ætlum ekki að misnota þetta tækifæri til að skrifa 20. greinina um hæfileika Stephen Curry, aðeins að minna ykkur á það af hverju hann er fyrirbæri.
Curry er fyrirbæri af því hann er fyrsti leikmaðurinn í sögu NBA sem þarf að byrja að tvídekka þegar hann er búinn að taka 3-4 skref yfir miðju og af því hann er að skora álíka margar þriggja stiga körfur í leik og beittustu skyttur NBA sögunnar hafa verið að taka fram til þessa.
Það er dálítið skondið að hugsa til þess að eitt af því sem gerir Curry að fyrirbæri er sennilega sú staðreynd að ekkert við hann minnir á fyrirbæri við fyrstu sýn, en svo kemur hann og dripplar boltanum þrjá hringi í kring um þig, aftur fyrir bak, stígur til baka og þrumar þrist í augað á þér þremur metrum fyrir aftan þriggja stiga línuna.
Og svo brosir hann bara þessu dásamlega brosi sínu, þakkar gæjanum í efra, skokkar inn í klefa, skiptir um föt og fer heim til fullkomnu konunar sinnar og fullkomnu dætra sinna á fullkomna bílnum sínum í fullkomna húsinu sínu í fullkomnu fjölskyldunni sinni í fullkomna lífinu sínu.
Þetta hljómar allt frekar fullkomið...
Stephen Curry átti árið 2015 með húð, hári og hala og svo virðist sem árið 2016 ætli að verða númer 30 líka. Það kæmi okkur að minnsta kosti ekki á óvart.
Á þessari upptalningu sjáið þið að við erum afskaplega heppin að fá að vera að fylgjast með öllum þessum fyrirbærum spila í NBA deildinni á hverju kvöldi. Alveg eins og við vorum heppin að fá að fylgjast með David Bowie (r.i.p.) flytja tónlist sína í 40 ár.
Og það magnaða er að það má vel vera að við séum ekki aðeins að fara að sjá nokkur ný fyrirbæri koma inn í NBA deildina á næstu árum - það getur vel verið að það séu fleiri fyrirbæri í deildinni nú þegar og við séum bara ekki búin að koma auga á þau!
- Sjáið bara menn eins og Draymond Green, liðsfélaga Stephen Curry hjá Warriors, sem er kraftframherji sem er orðinn skaðræðisvopn fyrir utan línu og spilar eins og leikstjórnandi.
- Varnarmaskínuna og verðandi stórstjörnuna Kawhi Leonard hjá San Antonio Spurs, sem þegar þetta er ritað er líklega í öðru sæti í kapphlaupinu um titilinn leikmaður ársins í NBA deildinni.
- Gríska stafrófið Giannis Antetokounmpo hjá Milwaukee, sem gæti orðið fyrsti maðurinn í sögu NBA til að verða útnefndur fyrirbæri bara út á nafnið sitt.
- Frönsku andspyrnuhreyfinguna Rudy Gobert hjá Utah, sem lokar vítateignum með aðra höndina í Texas og hina í Tennessee
- Sjáið þið fjölhæfa stóra menn á borð við Anthony "Borgþór" Towns hjá Minnesota og Philadelphia-piltinn Joel "Helvíti líklegt að ég verði einhvern tímann nógu heill til að komast hjálparlaust fram í ísskáp og ná mér í bjór" Embiid.
Svo bíða menn eins og ástralska undrið Ben Simmons eftir að verða nógu gamlir til að koma inn í NBA deildina til að skemmta okkur.
Já, það er bjart fram undan í fyrirbærakortunum, fullt af efnilegum strákum að koma upp sem gætu átt eftir að rata inn í svona stórundarlega pistla í framtíðinni, hvort sem þeir ná að fylla hillur sínar af verðlaunagripum eða ekki.
Þetta voru nokkur orð frá NBA Ísland um fyrirbæri sem sett hafa svip sinn á fallegasta leik veraldar. Vonandi höfðuð þið gaman af.